Jöfnunar- og undirboðstollar á skipasmíðaverkefni

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 17:08:25 (157)


[17:08]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að vísa á bug ummælum hv. þm. Guðna Ágústssonar. Ég átta mig ekki alveg á því af hvaða fjöllum hann kemur inn í þessa umræðu. Staðreyndin er nefnilega sú að núv. ríkisstjórn hefur, eins og kom fram í mínu máli, verið að vinna að þessum málum. Utanrrh. hefur tekið að sér að mótmæla harðlega með þeim ráðum sem við höfum þeim niðurgreiðslum sem tíðkast hjá okkar viðskiptaaðilum, t.d. Norðmönnum, sem um þessar mundir eru í bókstaflegri merkingu að stela verkefnum, t.d. vegna Rússatogaranna, frá íslenskum skipasmíðastöðvum. Að þessu er unnið af fullri einurð. ( Gripið fram í: Það tekur of langan tíma.) Auðvitað þarf að taka þann tíma sem þarf. En við skulum átta okkur á því að eitt grundvallaratriðið í þeim fríverslunarsamningum sem verið er að ræða við aðrar þjóðir er að hverfa frá niðurgreiðslunum, að hverfa frá því fyrirkomulagi sem gildir í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Það er þannig sem við viljum vinna að þessu máli.
    Við skulum átta okkur á því að vandinn er kannski sá að íslenskir útgerðarmenn hafa ekki hlutað í sundur útboðin þegar þeir eru að bjóða út t.d. togarana og fiskiskipin. Þess vegna hefur það gerst hér á landi að þeir sem framleiða tæki og tól fyrir skipin hafa ekki getað boðið í skipin heldur hefur allt verkefnið farið til útlanda. En lánasjóðirnir gera mun á því hvort skip eru byggð hér á landi eða annars staðar og ég held að við ættum að koma þeim tilmælum til útgerðarmanna hér á landi að þeir geri það að skilyrði þegar þeir láta byggja skip annars staðar að það séu að minnsta kosti keyptar vörur, tól og tæki sem eru þróuð hér á landi því við eigum allt okkar undir því að geta þróað þennan iðnað miðað við íslenskar aðstæður og þar ættum við að hafa mjög góða samkeppnisstöðu vegna þess að Íslendingar stunda þann sjávarútveg sem best er stundaður í heiminum. Þetta vil ég að komi hér fram.
    Ég get því miður ekki svarað fsp. frá hv. þm. Árna M. Mathiesen um það hvað þetta sparar útgerðinni mikla peninga. Ég efast ekkert um að þetta eru talsverðir fjármunir en á móti kemur það tap sem íslenskur iðnaður verður fyrir vegna þess að hann getur ekki tekið þátt í þessum alútboðum sem ég hef nefnt í minni ræðu.