Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 14:31:14 (177)


[14:31]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Það er rangt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, að þetta sé í fyrsta sinni sem ítarleg skýrsla hafi verið tekin saman um þessi mál. Það hefur áður átt sér stað þannig að annaðhvort hefur ráðherra verið sofandi eða annars hugar af einhverjum öðrum ástæðum þegar ég lét það koma fram í minni ræðu að þetta hefði verið gert áður, m.a. þegar ég benti á það sem hæstv. utanrrh. hefur sagt um þessa hluti hér á fyrri árum.
    Ég tel að það sé auðvitað grafalvarlegt mál að hæstv. fjmrh. skuli umgangast þessi skattsvik og skattsvikatillögurnar með þeirri léttúð og þeim lausatökum sem fram komu í ræðu hans hér áðan. Hann benti í raun og veru ekki á neitt efnislegt sem mun skipta sköpum varðandi tekjur ríkissjóðs eða annarra opinberra aðila á næsta ári, 1994, þrátt fyrir þessa skýrslu. Og ég gagnrýni hæstv. ráðherra fyrir að láta nægja að segja að hann sé að tína saman tillögur með hæstv. utanrrh. Hvað eru þeir að gera í þessari tínslu? Þeir eru að lesa fjárlagafrv. Og það er rangt hjá hæstv. ráðherra að ég hafi verið sérstaklega hissa á ummælum ráðherrans að öðru leyti. Það sem ég var sérstaklega hissa á var það að hæstv. utanrrh. skyldi núna loksins hafa gefið sér tíma til þess að lesa fjárlagafrv. Það kom mér mjög á óvart.