Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 14:39:46 (181)


[14:39]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Í fyrsta lagi, hæstv. forseti, liggur það alveg fyrir og því hefur ekki verið mótmælt að hæstv. utanrrh., formaður samstarfsflokks fjmrh. í ríkisstjórn, hefur lýst því yfir að fjárlagafrv. sé ónýtt og það verði að skera niður um 5 milljarða í viðbót. Það er alveg út í hafsauga þegar hæstv. fjmrh. kemur svo hér og segir að það sé bara alvenjulegur hlutur. Ég minnist þess aldrei að formaður samstarfsflokks í ríkisstjórn hafi með slíkum hætti í raun og veru hent fjárlagafrv. og það jafnvel áður en það kom fram. Þetta er einsdæmi, hæstv. fjmrh., og því miður situr hæstv. fjmrh. uppi með það. Ég man aldrei til þess að neinn fjmrh., svo langt sem ég man og kann söguna, hafi fengið slíkar trakteringar af formanni samstarfsflokks í ríkisstjórn.
    Og það liggur jafnframt fyrir, hæstv. fjmrh., að hæstv. félmrh. hefur fjölmarga skilgreinda og óskilgreinda fyrirvara við þetta frv. eða hvað? Stendur málið ekki enn þá þannig? Það er sömuleiðis mjög óvenjulegt, svo að ekki sé meira sagt, e.t.v. ekki alveg einsdæmi en þó stappar nærri því. Þessar staðreyndir liggja fyrir, hæstv. fjmrh., og ég veit svo sem og sé á brosviprum hjá hæstv. fjmrh. að hann viðurkennir þetta, að þetta er nákvæmlega svona. Sennilega á hann ekki annan kost en að reyna að berja hér í brestina með þeim hætti sem hann var að gera meðan stjórnarflokkarnir eru enn að reyna að halda þessu

samstarfi áfram.
    Varðandi skattatilfærsluna er að sjálfsögðu ekki tími til að ræða það í einstökum atriðum hér, hæstv. fjmrh., og ég viðurkenni að í ræðunni kom fram að um þessa tilfærslu frá fyrirtækjum yfir á launafólk væri að ræða. Hún er hins vegar orðin gríðarleg og það er breyting frá því sem sagt var í fyrra þegar fullyrt var að hækkun tekjuskattsins væri eingöngu tímabundin aðgerð á meðan leitað yrði tekjustofna sem menn skildu þá að yrði að einhverju leyti hjá fyrirtækjunum en ekki eingöngu hjá launamönnum. Nú er verið að leggja til að festa varanlega í sessi að þessi tilfærsla verði 100% frá fyrirtækjunum án tillits til afkomu þeirra yfir á launamenn í formi 1,5% hækkunar útsvars. Þetta er annað en sagt var í fyrra, hæstv. fjmrh., og í raun, að ég tel, vanefndir á því sem þá var rætt.