Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 15:51:49 (186)

           [15:51]
     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég ræddi um heildarskattbyrði á einstaklinga þá tók ég þar inn í þau þjónustugjöld sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á frá upphafi. Ég tel eðlilegt að þau séu talin með vegna þess að það sem einstaklingar eru að greiða í dag með þjónustugjöldum var áður greitt með þeim skattpeningum sem ríkið tók inn. Því verður ekki neitað að heildarskattbyrði heimilanna í landinu er mun hærri núna en þegar þessi hæstv. ríkisstjórn tók við völdum.
    Ég get farið yfir tölur um heildartekjur og útgjöld einstakra ára á föstu verðlagi ársins 1993 og rekstrarhallann. Heildarútgjöld ríkisins árið 1989, á föstu verðlagi ársins 1993, voru 111 milljarðar 244 millj. kr. Rekstrarhallinn þar 7 milljarðar 691 millj. Árið 1990, á verðlagi ársins 1993, eru heildarútgjöld ríkisins 109 milljarðar 599 millj. kr., rekstrarhallinn er 5 milljarðar 81 millj. Árið 1992, á verðlagi ársins 1993, eru heildarútgjöld ríkisins 112 milljarðar 861 millj. kr., rekstrarhallinn er 7 milljarðar 301 millj. Árið 1993, þar hljótum við að vera að tala um áætlaðar tölur, en þær tölur höfum við frá fjmrn., þá eru heildarútgjöld ríkisins áætluð 113 milljarðar 940 millj. og rekstrarhalli 12 milljarðar 335 millj.