Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 17:16:32 (198)


[17:16]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna þessari ræðu stjórnarsinna sem talaði svo ákveðið fyrir vaxtalækkun og tók meira að segja upp úr grænni bók okkar framsóknarmanna orðrétt þar að það væri raunhæft að lækka vextina um 3 prósentustig. Það er því miður svo eins og ræðumaður leiddi rök að að í okkar þjóðfélagi í dag er ekki hægt að finna nokkurt rökrænt orsakasamhengi á milli hárra vaxta eins og þeir eru núna og efnahagsstærða í þjóðfélaginu. Vextirnir virðast ráðast annars vegar af kerfisforsendum þar sem við höfum lánskjaravísitöluna sem mælir öll áhrif gengisfellingar, mælir hækkun á kaffi og sykri í innflutningi, upp í hækkun vaxta.
    Í öðru lagi búum við við það kerfi að þar er nánast sjálftaka vaxta, eða eigum við að nota annað orð um það, fákeppni. Þessu verður að breyta. Það er ekki viðunandi eins og verið hefur síðustu vikurnar að vextir hafa verið á bilinu 15--20% því nafnvextir á hverjum tíma eru raunvextir fyrir þá sem enga tekjuhækkun fá og svo er um heimilin í landinu og svo er um meiri hlutann af atvinnulífinu.
    Einn góður maður, reyndar Vestfirðingur og stendur ekki langt frá hv. þm. Einari Guðfinnssyni í pólitík, fyrrv. formaður Vinnuveitendasamands Íslands, hefur sagt að það verði að lækka vextina með því handafli sem heldur þeim uppi núna. Það held ég að sé stóra málið. Á sama hátt og þeir eru þvingaðir upp, þeim er haldið uppi með handafli, þá er hægt að lækka þá.