Staðfesting EES-samningsins

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 13:40:59 (237)


[13:40]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. þessi svör. Það er fróðlegt að heyra mat hans á þessum málum. Hann er ekki bjartsýnn á að samningurinn gangi í gildi 1. des. heldur um næstu áramót en þá þurfa líka öll kurl að vera komin til grafar eða skjölin sem varða staðfestingu málsins að vera komin til skila 15. des. eða fyrir 15. des. Samkvæmt bókun við lagabreytinguna, sem samþykkt var í vor, þá þurfa fullgildingarskjöl að vera komin eigi síðar en 15. viðkomandi mánaðar til að samningurinn gangi í gildi 1. næsta mánaðar, ella frestist það þar til um mánaðamótin hin þar næstu. Það mun vera staðan að mig minnir.
    Það er út af fyrir sig gott til þess að vita að íslensk stjórnvöld hafa beðið með að láta samninginn um fiskveiðimálefni frestast þar til útséð er um þennan samning. Það er alla vega lán í óláni að svo er en það munu vera, virðulegur forseti, um 25 frumvörp sem við eigum von á hér í þingið sem varða EES og þurfa að fá sína afgreiðslu samkvæmt áætlunum ríkisstjórnar.