Þingfararkaup alþingismanna

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 14:32:32 (305)


[14:32]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að hv. 5. þm. Norðurl. e. hafi misskilið mál mitt illilega. Ég hafði ekkert orð um það að hækka þyrfti laun alþingismanna, sagði það ekki, það getur vel verið að mér finnist það en ég lagði ekki á það áherslu í því máli sem ég flutti hér áðan, heldur talaði ég um að það þyrfti að endurskoða lög um þingfararkaup.
    Annað það sem fram kom í ræðu hv. þm. var mér nú harla óskiljanlegt vegna þess að hv. þm. viðurkenndi að ýmis fyrirtæki í landinu sem væru að fara eins og hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: ,,lóðbeint á höfuðið``, greiddu mönnum þreföld þingmannalaun. Þetta þætti mér ærin ástæða til að endurskoða lög um þingfararkaup. Ég hef ekki ráð á því eða við hér hvað einkafyrirtæki í landinu greiða starfsmönnum sínum.
    En inntak máls míns var það að endurskoða þyrfti lög um þingfararkaup þar sem þau eru orðin afar úrelt og úr takt við þá starfsháttu sem Alþingi er rekið eftir núna og það var þetta sem ég lagði áherslu á.