Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 15:39:18 (322)


[15:39]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna upphafsorð hæstv. dómsmrh. sem fann að því að félagasamtökin hefðu ráðið sér auglýsingaskrifstofu til að vinna að stuðningi við sinn málstað um helgina þótt hann vefengdi ekki rétt þeirra til þess að ráðstafa fé sínu til þess. Ég vil benda ráðherranum á að hann er ráðherra í sömu ríkisstjórn og hefur falið hæstv. félmrh. að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar sameiningu sveitarfélaga og á vegum þess félmrh. hefur verið ráðin sú sama auglýsingaskrifstofa til þess að reka áróður fyrir tillögum ríkisstjórnarinnar og fá landsmenn sem um þær eiga að kjósa, að kjósa eins og ríkisstjórnin vill. Það hefði einhvern tíma verið spurt hvort það væri siðferðilega rétt að ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið, réði sér auglýsingaskrifstofu til að reka áróðursherferð gegn þegnum sínum. ( Dómsmrh.: Þetta var nú ákvörðun Alþingis.) Nei, hæstv. dómsmrh. Þetta var ákvörðun hæstv. félmrh.
    Ég vil út af því sem hér hefur verið dregið upp sem umræðuefni benda á að ákvörðun sú sem hæstv. dómsmrh. hyggst taka með útgáfu reglugerðar, hafi hann ekki þegar gefið hana út, að það stefnir í hættu rekstrargrundvelli þessara fernu félagasamtaka. Þessi félagasamtök vinna starf sem enginn annar er tilbúinn til að taka að sér fyrir jafnlítið fé og þau gera. Það er alvarlegt mál af hálfu ráðherra að vega að tilverugrundvelli þessara samtaka með ákvörðun sem sviptir þau hugsanlega stórum hluta af sínu ráðstöfunarfé.
    Talsmenn Happdrættis Háskóla Íslands hafa haldið því fram að þetta þyrfti ekki að fara svo, heldur mundi ávinningurinn vera sá að það sem kæmi í þeirra hlut væri viðbót á markaðnum. Þá spyr ég: Viljum við búa til aukna eftirspurn á þessum happdrættismarkaði og sækja þessa auknu eftirspurn inn á vínveitingastaði og staði sem ekki er heimilt að hleypa börnum og unglingum inn á? Og þá kemur önnur siðferðileg spurning: Er það hlutverk sem við ætlum Háskóla Íslands að sækja tekjur á staði sem eru bannaðir fyrir börn og unglinga? Er það við hæfi fyrir virðulega stofnun eins og Háskóla íslands að fara þangað að sækja sér fé? Það tel ég ekki. Og ég er ekki talsmaður þess að menn sæki sér aukna eftirspurn í þessum efnum.
    Núna lítur þetta þannig út, og má minna hæstv. ráðherra á það, að í dag eru 10 skólar á háskólastigi. Það er ekki bara Háskóli Íslands heldur aðrir skólar líka sem eru á háskólastigi. Það er hins vegar háskólinn einn sem fær þær tekjur af happdrættinu sem eftir verða þegar búið er að greiða vinninga og rekstrargjöld. Það er því fleira sem þarf að endurskoða en tekjustofna Happdrættis Háskóla Íslands. Það þarf líka að endurskoða tilverugrundvöllinn sjálfan því það eru komnir fleiri háskólar en Háskóli Íslands. Það má nefna Háskólann á Akureyri og fleiri og þessir skólar eiga auðvitað að lögum að eiga sama rétt til tekjustofns og Háskóli Íslands. Þar gildir ekki að mínu mati neitt forræði eins aðila umfram aðra.
    Ég vil líka minna á það sem hefur komið fram í gögnum um þetta mál, sem gefur okkur tilefni til þess að íhuga hvort ekki sé þörf á að skoða þessi mál upp á nýtt í heild sinni, að happdrættismarkaðurinn er áætlaður vera um 4 milljarðar kr. Af því rennur ekki nema rúmur 1 milljarður kr. til þeirra starfa sem ætlað er. Tæplega 3 / 4 hlutar af veltunni fara í vinninga og kostnað. Og maður kann að spyrja: Erum við ekki að sækja of litla peninga með of dýrum hætti?
    Það má nefna Happdrætti Háskóla Íslands, en á síðasta ári var velta þess um 1,5 milljarðar kr. Það sem eftir varð þegar búið var að greiða út vinninga og rekstrarkostnað voru um 200 millj. kr. Af þessum 200 renna síðan 40 millj. eða 20% til ríkisins í formi einkaleyfisgjalds. Er þá ekki einfaldara að ætla Háskóla Íslands fé á fjárlögum en ætla honum að sækja það með þessum hætti? Það væri verðugt og fróðlegt að fá að vita frá hæstv. menntmrh. hvaða afstöðu hann hefur til þessa máls. Er það með hans samþykki sem þetta er gert, að gefa eða fyrirhuga að gefa út reglugerð sem boðuð hefur verið? Er það menntastefna núv. ríkisstjórnar að sækja fé með þessum hætti á vínveitingastaði, í fjárhættuspil, í stað þess að afla þeirra með skattfé?
    Það sem ég tel að gera eigi í núverandi stöðu eru í fyrsta lagi aðgerðir sem eiga að skapa svigrúm til viðræðna. Þar tel ég að brýnast sé í fyrsta lagi að afgreiða það frv. sem fyrir liggur á þskj. 73 um að afnema 20% einkaleyfisgjaldið til ríkissjóðs og leyfa Háskóla Íslands að hafa það fé á meðan menn eru að fara í gegnum tekjustofna þessara aðila. Það hefur líka verið upplýst að félagasamtökin hafa verið tilbúin og hafa boðið Háskóla Íslands 20% af sínum tekjum ef ekki yrði farið út í þessa spilasali. Með þessu tvennu tel ég að væri fyllilega hægt af hálfu hæstv. dómsmrh. að hætta við að gefa út þessa reglugerð sem hann hefur boðað og þá hefur verið skapaður sá grundvöllur að aðilar geti rætt saman. Síðan á hæstv. dómsmrh., að loknum viðræðum og niðurstöðum þeirra, að leggja fyrir þingið nýtt frv. til laga um þessi happdrættismál sem endurskoðar þau í heild sinni, en á því tel ég vera mikla þörf.