Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 16:55:39 (335)


[16:55]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi lýsa vonbrigðum mínum með þann farveg sem þessi umræða hefur fallið í að undanförnu. Hæstv. dómsmrh. er borinn þungum sökum, að hann sé með leyfisveitingu sinni til Happdrættis Háskóla Íslands að ógna fjárhagslegri tilveru þessara mikilvægu samtaka, Rauða krossins, Slysavarnafélagsins, björgunarsveitanna og SÁÁ. Eins og skýrt kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh. er hann í raun ekki að gera annað en lög heimila honum og góð stjórnsýsla krefst. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er það sem hann er að gera. Hins vegar hefur það komið fram að sá lagagrunnur, sem þessir svokölluðu spilakassar Rauða krossins byggjast á, er vafasamur. Menn ættu heldur að snúa sér að því að styrkja þann grunn heldur en að vera með deilurnar á þessu stigi sem þær hafa verið núna.
    Mér sýnast viðbrögð háskólans vera eðlileg og sjálfsögð. Sú var tíðin að Happdrætti Háskóla Íslands var eitt á happdrættismarkaðinum. Ég kann ekki alveg að segja í hve mörg ár en ef ég man rétt þá hefur það sjálfsagt verið frá stofnun 1934 og fram yfir stríð. Nú er hlutdeild háskólahappdrættisins aðeins 15--18% á þessum markaði. Háskólahappdrættið hefur orðið undir vegna þess að það hefur ekki tileinkað sér nýjungar sem hafa komið fram. Þetta eru viðbrögð háskólans við þessari samkeppni.
    Sú var tíðin að háskólinn hafði á verðlagi dagsins í dag 500 millj. í hagnað af happdrættinu. Á næsta ári er þessi tala áætluð 200 millj. og er 20% af því greitt í einkaleyfisgjald með þeirri röksemd að háskólahappdrættið sé með einkaleyfi á peningahappdrætti í landinu. Aðrir borga ekki nein slík gjöld.
    Það hefur komið fram í þessari umræðu að Rauði krossinn og samstarfsaðilar hans verji söfnunarfé sínu til hinna mikilvægustu mála og það er vissulega rétt, það gera þessir aðilar allir og það hefur margt verið nefnt í þessu samhengi sem ríkið leggi ekki fé til, sem er líka rétt. En við skulum hafa þetta þá allt í samhengi og rifja það upp að það sama á við um háskólann að því er tekur til byggingarframkvæmda og viðhalds háskólabygginganna. Það er ekki ein einasta króna á fjárlögum veitt til byggingarframkvæmda hjá Háskóla Íslands og hefur ekki verið. Það er happdrættisféð sem stendur undir því öllu saman. Og svo ég skjóti því hér að vegna þess að það hefur komið fram í máli a.m.k. tveggja ræðumanna, þá hefur þetta ekkert að gera með rekstur háskólans, ekki nokkurn skapaðan hlut. Rekstur háskólans er fjármagnaður af framlögum á fjárlögum en ekki byggingamálin. Og svo ég skjóti því líka hér að vegna þess að það kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að Háskóli Íslands byggi við stórskert framlög. Það er bara rangt. ( SJS: Nei.) Það er rangt og það er margbúið að segja það en hv. stjórnarandstæðingar halda enn áfram þessum sama söng. Ég held næstum því að þeir séu farnir að trúa þessu sjálfir, að Háskóli Íslands hafi verið stórlega skertur í framlögum frá Alþingi á undanförnum árum. Það er rangt. (Gripið fram í.) Það er rangt.
    Ég held að í máli mínu hafi þegar komið fram svar við fyrirspurn hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Hann vildi fá að vita hver væri afstaða menntmrh. til þessa máls. Ég hef sagt það að ég telji viðbrögð háskólans eðlileg og sjálfsögð þegar hann er orðinn undir í samkeppni á þessum markaði.
    Menn tala hér um siðferði og spyrja hvort það sæmi Háskóla Íslands að vera á þessum markaði. Það hafa fleiri spurt en ég, hvort það sæmi eitthvað frekar einhverjum öðrum eins og Rauða krossinum, SÁÁ, björgunarsveitunum, Slysavarnafélaginu? Af hverjum sæmir það frekar þeim en háskólanum?
    Ég þykist vita það með vissu að það hafi verið samkomulagsvilji hjá báðum aðilum í viðræðunum og ég á satt að segja dálítið erfitt með að átta mig á því hvað það var sem kom í veg fyrir að samkomulag tækist. Ég hef fylgst með þessu máli frá því í sumar og þá get ég svarað fyrirspurn hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar hvort ég hafi átt í viðræðum við hæstv. dómsmrh. og, að mér skildist á fyrirspurninni, hvort ég hefði verið að þrýsta á til þess að létta af þrýstingnum á fjárveitingar til háskólans. Það hef ég ekki gert en ég vænti þess að það þurfi ekki að koma hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni á óvart, hæstv. fyrrv. fjmrh., þótt menntmrh. vilji fylgjast með því hvernig háskólanum reiðir af í sínum happdrættismálum. Það á svo sem ekki að koma neinum á óvart.
    Ég mun kanna það hvort nokkuð er í veginum af hálfu háskólans að samningurinn við hina erlendu aðila verði birtur. Í sjálfu sér sé ég ekkert í veginum með það og ég skal kanna það við þá háskólamenn. En ég held að það sé ekki rétt ágiskun hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að það kunni að skipta hundruðum milljóna á ári sem rynnu til hinna erlendu aðila. Ég hef ekki heyrt það, en ég tek fram að ég veit þetta ekki með vissu. Ég hef aðeins séð það frá þeim háskólamönnum að það muni verða um 1 / 3 hluti af því sem inn kemur fyrir þessa kassa, það muni verða um þriðjungur sem fari í kostnað bæði til innlendra og erlendra aðila. Það er það sem hefur komið fram hjá þeim.
    Hér hefur líka verið minnst á 20% einkaleyfisgjaldið og það liggja raunar fyrir hv. Alþingi núna tvö frumvörp, annað um afnám þess og hitt um aðra ráðstöfun þess heldur en núna er. Ég mun ræða það þegar þau mál ber á góma en ég get skotið því hér að að ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að þetta 20% einkaleyfisgjald eigi að afnema. Það eigi ekki að renna til ríkisins. Ég hef hins vegar skoðanir á því hvernig eigi að fara með það en það eigi að renna til háskólans.
    Hæstv. forseti. Ég sé að ég er búinn með tímann þótt ég hafi ýmislegt fleira um þetta að segja.