Sjóður til eflingar atvinnumálum kvenna

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:48:48 (348)


[17:48]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er spurt:
    ,,Hvernig var staðið að auglýsingu á ,,60 millj. kr. sjóði`` til eflingar atvinnumálum kvenna?``
    Því er til að svara að starfshópur sá sem skipaður var hélt sinn fyrsta fund 17. ágúst sl. Föstudaginn 20. ágúst var sent auglýsing til allra dagblaða á símsendi með beiðni um birtingar í helgarblöðum um þá helgi. Einhver misbrestur varð á að auglýsingin birtist en í þeim tilfellum birtist hún bara í næsta blaði á eftir.
    Þá má geta þess að frétt um framlag þetta birtist í nokkrum fjölmiðlum, svo sem Morgunblaðinu, Ríkisútvarpinu og fleiri stöðum. Þá var öllum atvinnuráðgjöfum símsent bréf, dags. 20. ágúst, þar sem þeir voru beðnir að kynna framlag þetta og kynna starfshópnum hugmyndir sínar um skiptingu fjárins. Haft var samband símleiðis við sveitarstjóra stærstu sveitarfélaganna eða fulltrúa þeirra og þeim kynnt framlagið.
    ,,Hversu langur frestur var gefinn til þess að leggja inn umsóknir?`` er spurt í 2. tölul. Skilafrestur sá sem gefinn var var til 1. sept. Vegna þessa stutta frests var tekið við umsóknum allt til 10. sept. Engar kvartanir hafa borist frá umsækjendum um að þeir hafi ekki mætt lipurð og tillitssemi í sambandi við umsóknir.
    ,,Hversu margar umsóknir bárust?`` er spurt í þriðja lagi. Alls bárust yfir 150 umsóknir þar sem sótt var um rúmar 300 millj. kr., þar af um 250 millj. kr. frá einkaaðilum og um 60 millj. kr. frá sveitarfélögum. Það skýrir kannski það sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á áðan að það hefur tekið nokkurn tímam að vinna úr þessum umsóknum en hér er um að ræða hvorki meira né minna en 150 umsóknir og það er mjög vandasamt að fara yfir allan þennan fjölda og meta þær. En ég tel líka að þessi fjöldi umsókna sýni að framlagið hefur verið vel kynnt og þess má geta hér að þau verkefni sem sótt var um styrki til voru mjög fjölbreytt. Það má nefna saumaskap hvers konar, vinnslu sjávarafurða, smáiðnað og margs konar aðhlynningu barna, fatlaðra, aldraðra og sjúkra og fleiri verkefni.
    ,,Hverjir meta umsóknirnar?`` er einnig spurt. Starfshópur var skipaður 10. ágúst sl. Hann var skipaður fulltrúfum ASÍ, VSÍ, fulltrúa fjmrn. og fulltrúa félmrn. sem var formaður starfshópsins. Auk þess vann starfsmaður ráðuneytis með hópnum en hópurinn hefur nú skilað tillögum sínum.
    Síðan er spurt hvenær niðurstöður um styrkveitingar verði birtar. Tillögur starfshópsins verða kynntar á ríkisstjórnarfundi á morgun. Öllum umsækjendum verða send bréf væntanlega í þessari viku með svari við umsóknum. Starfshópurinn lagði til að 64 einkaaðilar yrðu styrktir til hinna margvíslegu verkefna. Erfitt er að meta fjölgun stöðugilda en lausleg athugun sýnir að um 370 konur munu tengjast þessari fjárveitingu á einn eða annan hátt. Síðar munu um 190 konur bætast í þann hóp ef áætlanir umsækjenda ganga eftir. Auk þess má ætla að einhver margfeldisáhrif verði af þessum aðgerðum.
    Í lokin er spurt: ,,Hvernig verður háttað eftirliti með styrkveitingum?`` Það verður gerður sérstakur samningur vegna hverrar einustu styrkveitingar þar sem gerð verður grein fyrir með hvaða hætti styrkir verða greiddir, þ.e. óskað verði eftir greinargerð um gang verkefna áður en hver styrkhluti verður greiddur og ef misbrestur verður á að þetta verði notað í það sem umsóknin og styrkurinn gaf tilefni til þá verður þess krafist að framlagið verði endurgreitt. Í samningnum verður krafist þess að atvinnulausar konur verði látnar ganga fyrir vinnu.
    Ég vænti þess að ég hafi svarað þeim liðum sem fyrirspyrjandi spurði um.