Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 14:32:23 (372)


[14:32]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil enn á ný ítreka þetta með erlendar skuldir þjóðarbúsins. Það kemur skýrt fram í þjóðhagsáætluninni sem er 7. mál á þskj. 7, bæði innganginum og ekki síður á bls. 40 þar sem fjallað er um erlendar skuldir, hvernig á því stendur að hægt er að halda því fram mjög auðveldlega að erlendar skuldir fari heldur lækkandi þegar um raungildi þeirra er að ræða. En þar segir, með leyfi forseta: ,,En 7--8 milljarða kr. halli [þ.e. viðskiptahalli], 1,5--2% af landsframleiðslu, samsvarar því að raungildi erlendra skulda þjóðarbúsins standi í stað miðað við um 3% erlenda verðbólgu.`` En hér stefnir í 5,5 milljarða halla sem þýðir að í raun og veru lækkar raungildi erlendra skulda þjóðarbúsins. --- Ég endurtek: þjóðarbúsins, en ekki ríkisins.