Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:41:27 (389)

[15:41]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er fjallað um, lánsfjárlög, snertir að sjálfsögðu mjög mikið fjárlagafrv. Ég vil því í upphafi óska hæstv. fjmrh. til hamingju með það að hann gengur nú til landsfundar Sjálfstfl. eftir tvo daga með hærra skatthlutfall en ég held að áður hafi þekkst í landinu.
    Það er rétt að rifja það upp að síðasti fundur ráðherrans með sínum fulltrúum ályktaði um það að tekjuskattur skyldi lækka í 35% en nú getur ráðherrann upplýst landsfundinn um það að tekjuskattshlutfallið er rúmlega 41%.
    Ráðherrann getur líka upplýst landsfundinn um það að virðisaukaskattur er 24,5% en fundurinn ályktaði um það að það væri rétt að stefna að því að koma honum í 15%. Auðvitað voru þessi kosningaloforð Sjálfstfl. sem gefin voru á síðasta landsfundi óraunsæ og fáir lögðu trúnað á þau sem þekktu til ríkisfjármála. En ég býst við því að margir kjósendur flokksins hafi lagt trúnað á þessi hlutföll og það verður merkilegt að hlusta á útskýringaræðu fjmrh. á komandi landsfundi þegar hann kemur því til skila hvernig í ósköpunum standi á þessu. Sjálfsagt verður fyrri ríkisstjórnum kennt um eins og venja er á þeim bæ. En það er að mínu mati ekki fullnægjandi. Þetta voru kosningaloforð sem voru gefin gegn betri vitund og hæstv. fjmrh. hlýtur að þurfa að útskýra það fyrir þjóðinni hvers vegna flokkur eins og Sjálfstfl. gefur slík loforð gegn betri vitund.
    Ég vil þá aðeins ræða nokkur atriði sem snerta þetta frv. til lánsfjárlaga. Það eru nokkur atriði í því sem hljóta að vekja verulegar áhyggjur meðal landsmanna og það eru einkum skuldsetning ríkisins, skuldsetning atvinnulífsins og skuldsetning einstaklinga í landinu. Nú er ég þeirrar skoðunar að skuldsetning atvinnulífs og einstaklinga séu miklu alvarlegri mál en nokkru sinni skuldsetning ríkisins enda þótt ég vilji ekki gera lítið úr því að þar eru vissar hættur á ferðinni.
    Ríkið skuldar eins og fram kemur í þjóðhagsáætlun um það bil 50% af landsframleiðslu eða tæplega 200 milljarða á árinu 1993. Og til samanburðar mældust þessar skuldir af landsframleiðslu 45% árið 1992. Það er hins vegar villandi þegar því er haldið fram oft og tíðum í opinberri umræðu að hér sé ríkissjóður mun skuldugri en almennt gerist í okkar viðskipta- og samstarfslöndum.
    Það kemur fram í þjóðhagsáætlun að opinberar skuldir aðildarríkja OECD séu að meðaltali á þessu ári 66% af landsframleiðslu. Þetta skuldahlutfall er mjög hátt. Og ég er ekki með þessum orðum að mæla með því að við söfnum meiri skuldum af hálfu íslenska ríkisins, þvert á móti. En mér finnst hins vegar að núv. ríkisstjórn leggi of mikla áherslu á það að gera þetta skuldahlutfall að aðalatriði þegar helstu áhyggjuefnin eru að mínu mati skuldir atvinnulífsins og skuldsetning einstaklinganna.
    Það kemur fram í þeirri lánsfjáráætlun og greinargerð með því frv. sem hér er til umræðu að skuldir atvinnulífsins séu mjög miklar og það kemur fram að lánsfjáreftirspurnin hefur aukist. Það kemur jafnframt fram að samdráttur í nýfjárfestingu fyrirtækja veldur áhyggjum og þar sem á þeim muni velta hagvöxtur í framtíðinni. Og það kemur líka fram að eiginfjárhlutfall íslenskra fyrirtækja hafi minnkað og það sé nauðsynlegt að efla innlendan hlutafjármarkað. Þegar þetta er lesið þá kemur það á óvart að núv. ríkisstjórn, sem hefur þó talið sig vera meiri stuðningsaðila atvinnulífsins en ýmsar aðrar ríkisstjórnir --- en ég er alls ekki sammála því, ég tel að þessi ríkisstjórn hafi oft og tíðum sýnt atvinnulífinu gífurlegt skilningsleysi hvort sem það er nú komið frá Alþfl. eða Sjálfstfl., ég skal ekki neitt um það segja, --- hvernig stendur á því að ein helsta aðgerð ríkisstjórnarinnar í sambandi við hlutafjármarkaðinn er að fella niður í áföngum frádrátt vegna hlutabréfakaupa þrátt fyrir það að núv. fjmrh. hafi verið einn helsti stuðningsmaður þess hér á Alþingi? Það verður líka gaman að hlusta á ræðu fjmrh. um þetta mál á landsfundinum þegar hann gerir fulltrúum atvinnulífsins grein fyrir því hvernig stendur á því að hann vill í sínum lánsfjárlögum efla innlendan hlutafjármarkað en afnemur svo í skattalögum eitt helsta tæki til þess að gera það.
    Íslenskt atvinnulíf er því miður mjög skuldsett og það er mikilvægasta ráðstöfun sem þarf að geta átt sér stað í íslensku efnahagslífi er að lagfæra þetta hlutfall. Og það verður ekki gert nema með því að vextirnir lækki. Vextir hér á landi eru mun hærri en almennt gerist í OECD-löndunum. Raunvextir ríkisskuldabréfa í október 1993 í OECD-löndunum eru að meðaltali um 3,5--4%, lægstir í Þýskalandi, rúmlega

1% en langhæstir á Íslandi, rúmlega 7% eða alveg um 7% og hafa farið heldur lækkandi. Þarna er allt of mikill munur þegar litið er til þess hverjar hallatölur eru í þessum sömu löndum og einnig þegar litið er til þess hver viðskiptahalli er og verðbólga. Þarna virðist skorta mikið á í samræmingu á peningamarkaðinum og dugir ekki að kenna bankakerfinu eingöngu um þótt það hagi sér oft undarlega í vaxtaákvörðunum. Það er t.d. rétt sem hæstv. fjmrh. sagði hér að víxilvextir eru mjög háir og það er ekki bara það, t.d. eru vextir á eins mánaðar víxlum 17% en verða í reynd 30% þegar leggst við 0,75% lántökukostnaður og 0,25% stimpilgjald. ( Fjmrh.: Þeir eru bara til eins mánaðar.) Til eins mánaðar. Þetta eru þeir vextir sem atvinnulífið má oft og tíðum sætta sig við að borga til þess að fá rekstrarfé. Þar við bætist að afgreiðslur bankakerfisins eru oft afar seinar, t.d. í sambandi við afurðalán sem ríkisstjórnin hefur að nokkru haft milligöngu um, t.d. í sambandi við landbúnaðinn, og fyrirtækin verða þá að sætta sig við það að gefa út innstæðulausar ávísanir sem bankarnir virðast þola fyrirtækjunum og jafnvel sækjast eftir því til þess að bæta hag sinn.
    Ríkisstjórnin ber að sjálfsögðu ekki ábyrgð á bönkunum en hún ber ábyrgð á því að koma á betra samstarfi við þá til þess að lækka vaxtakostnaðinn og ein helsta forsenda þess er að vextir af ríkisskuldabréfum lækki. Ég geri mér grein fyrir því að þarna þarf að taka nokkra áhættu. En ég vek athygli á því að ýmsar stærðir í efnahagslífinu eru þó hagstæðari en áður og verður að sjálfsögðu að viðurkenna það og það sem hæstv. fjmrh. hefur lagt áherslu á er að sjálfsögðu mjög þýðingarmikið en það er sú staðreynd að viðskiptahallinn hefur lækkað mjög mikið og má nánast segja að hann sé vel viðunandi miðað við það að þurfa að sætta sig við viðskiptahalla en við erum nú vonandi í dýpstu lægð kreppunnar sem við höfum verið að ganga í gegnum. En þetta hlýtur að gefa viss tækifæri til þess að taka ákvarðanir sem fá hjól atvinnulífsins til að snúast betur. Og ég er þeirrar skoðunar að það sé betra að sætta sig við eitthvað meiri ríkissjóðshalla ef það má verða til þess að hjól atvinnulífsins snúist betur. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að það sé hægt að sætta sig við meiri ríkissjóðshalla sem fer í beina eyðslu. En ef skattaálögur eins og t.d. virðisaukaskattur af ferðaþjónustu sem nú stendur til að leggja á verða teknar aftur þá tel ég það vera rétta aðgerð. Það er rangt að leggja skatt á atvinnurekstur sem er að vaxa upp og drepa þar með einn helsta vaxtarbrodd í okkar atvinnulífi. Það mun aðeins skaða ríkissjóð en ekki færa honum meiri tekjur og þetta á núv. ríkisstjórn að viðurkenna og breyta þeim ákvörðunum. Þar að auki mun skattur á flugþjónustu innan lands gera hana illa samkeppnisfæra við bílaakstur og mun trúlega verða til þess að draga mjög úr þjónustu við landsbyggðina. Þetta eru staðreyndir sem núv. ríkisstjórn þarf að viðurkenna.
    Ég vildi einnig koma að þeirri staðreynd sem kemur ágætlega fram í þeim gögnum sem við höfum fengið hvað skuldahlutfall einstaklinga hefur hækkað mikið. Ég hef oft á það bent hér á Alþingi og er ekki að undanskilja mig ábyrgð frá þeim ákvörðunum sem teknar voru á sínum tíma að húsbréfakerfið er hér mikill orsakavaldur. Því var haldið fram og það er viðurkennt í fyrsta skipti í skjali frá fjmrn. og ég ætla að vitna hér í það, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur:
    ,,Á undanförnum árum hafa heimilin aukið mjög eftirspurn sína eftir lánsfé. Þá aukningu má að verulegu leyti rekja til tilkomu húsbréfakerfisins sem olli þáttaskilum í þeim efnum. Húsbréfunum var m.a. ætlað að létta útlánum af lífeyrissjóðunum og bönkum. Svo hefur hins vegar ekki orðið raunin og hefur húsbréfakerfið orðið veruleg viðbót við lánsfjáreftirspurn heimilanna.`` Það kemur jafnframt fram að húsbyggingar hafi ekki aukist heldur dregist saman.
    Ég fagna því að loksins eru menn farnir að skrifa í staðreyndastíl um þetta mál og væri út af fyrir sig fróðlegt að fá hæstv. félmrh. hér til viðræðu um þær staðreyndir sem þarna eru settar á blað og vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hæstv. félmrh. stendur að þessu frv. eða hvort hún er með fyrirvara í málinu eins og að því er varðar fjárlagafrv. Og ég vil einnig spyrja um það sem stendur hér á bls. 6, með leyfi forseta:
    ,,Loks er afnám ríkisábyrgðar á húsbréfum til athugunar í sérstakri nefnd sem félmrh. skipaði fyrr á árinu. Með þessu móti er stigið veigamikið skref í þá átt að jafna samkeppnisskilyrði á fjármagnsmarkaði.``
    Ég get nú ekki séð að það sé veigamikið skref að félmrh. hafi skipað þessa nefnd og finnst mér það vera mikið ofmat hjá fjmrn. Þess vegna vil ég spyrja um það hvort þetta mat sé byggt á því að það sé vitað að nefndin muni leggja það til að ríkisábyrgð verði afnumin. Ég tel mjög mikilvægt að almenningur verði upplýstur um það. Ég er ekki að segja að það komi ekki til greina. Ég tel að þetta kerfi hafi gengið út í hreina vitleysu og það hefði fyrir löngu átt að vera búið að grípa þar inn í.
    Virðulegur forseti. Ég hef tíma míns vegna ekki möguleika á því að fara hér inn á einstök efnisatriði þessa frv. og mun fjalla um það í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar og vænti þess að fjmrn. gefi okkur þar góðar upplýsingar um einstök atriði og skal því ekki hafa fleiri orð um þetta en ég óska hæstv. fjmrh. allra heilla á væntanlegum landsfundi en get ekki annað en lýst yfir samúð minni með honum að þurfa að verja þar málstað sinn.