Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:29:42 (427)


[17:29]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér vegna þeirra umræðna sem hér hafa farið fram um 50 millj. kr. lánveitingar til Spalar vegna undirbúningsrannsókna vegna væntanlegra jarðganga um Hvalfjörð. Ef ég hef heyrt rétt, þá fannst mér það koma fram í máli hv. 1. þm. Vesturl., sem því miður er nú farinn hér úr salnum, það mátti skilja orð hans svo, að ef þessi kostur væri talinn arðbær og göngin undir Hvalfjörð yrðu lögð, þá mundum við spara mikið fé vegna þess að vegagerð fyrir Hvalfjörð væri þá fyrir bí og menn þyrftu ekki að sinna því að halda við vegi fyrir Hvalfjörð, ég tala nú ekki um að byggja hann upp. Ég hefði áhuga fyrir því að fá svör við þessu frá hæstv. fjmrh. Ég hef skilið málið þannig alla tíð að þetta fyrirtæki, Spölur hf., eða hvað það fyrirtæki héti sem mundi reka þessi jarðgöng, það væri þá trúlega einkafyrirtæki og yrði rekið með heimild til gjaldtöku af þeirri umferð sem um jarðgöngin mundi fara, og það er út af fyrir sig alveg sjónarmið að gera slíkt og hefur víða reynst vel. En þá hef ég jafnan skilið það svo að menn ættu þá ef um þessa gjaldtöku væri að ræða, einhvern annan kost til að fara og það er þá ekki um annað að gera, og menn komast ekkert undan því, en að halda uppi vegi og byggja upp veg fyrir Hvalfjörð. Það er auðvitað hrein blekking að ætla að halda því fram að jarðgöng undir Hvalfjörð þýði það að það megi spara sér alla vegagerð fyrir Hvalfjörð. Það er mikil blekking að halda slíku fram og ég held, a.m.k. ef þetta er meiningin, að þá sé nú ástæða til þess að við fáum fulltrúa Vegagerðar og þessara aðila til viðræðu við samgn. um málið. Mér líst ekki á það ef þetta er sú stefna sem á að taka upp. Ég hef þá misskilið hv. þm. mjög hastarlega ef ég fer ekki hér rétt með.