Fjáraukalög 1991

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:14:36 (447)


[18:14]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég skal vera stuttorður um frv. þetta því eins og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni þá var um málið fjallað á seinasta ári og fjárln. var þá raunar búin að afgreiða málið af sinni hálfu og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því með hvaða hætti, þannig að ég ætla ekki að rifja það upp eða ítreka frekar heldur aðeins minna á það sjónarmið sem kom fram í nál. minni hlutans og við munum auðvitað fylgja eftir nú fyrst tækifæri gefst til þess að taka málið enn upp til vinnslu í fjárln. þó ég sé ekki með því að boða neitt að tefja framgang málsins, það er ekki ástæða til þess. Það er búið að fjalla um málið og nefndin ætti auðvitað að geta afgreitt það og þarf að gera það. Það er ekki til sóma út af fyrir sig að draga lengur að ganga frá fjáraukalögum fyrir árið 1991 þegar þau liggja fyrir. En það sem ég vil að sé skoðað að lokum er það að samræmi sé eins og best verður með fjáraukalögum fyrir árið 1991 og ríkisreikningi fyrir árið 1991 eða fjáraukalögum fyrir árið 1992 eftir því hver verður endanleg niðurstaða um afgreiðslu ríkisreikningsins fyrir árið 1991 sem ég held að við þurfum að reyna að vera sammála um að sé með sem bestum hætti án þess að ég ætli nú að fara einu sinni enn að eyða tíma í að taka þær umræður upp hér að þessu sinni, hæstv. forseti.
    Það er aðeins eitt sem auðvitað þarf ekki heldur að endurtaka en má kannski aðeins minna á að þetta fjáraukalagafrv. sem hér er nú lagt fram einu sinni enn segir okkur eða minnir okkur á það hvernig rekstrarhallinn fór algerlega úr böndunum á því herrans ári og var þó búið að gera áður ráð fyrir því að ríkissjóðshallinn yrði frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir 4,1 milljarður kr., hækkaður í 8,9 milljarða og með endanlegri afgreiðslu yrði hallinn 12,5 milljarðar kr. Þetta er okkur öllum til aðvörunar og áminningar og full ástæða til að við höfum það í huga við þá vinnu sem fram undan er varðandi fjárlög fyrir komandi ár.
    Svo aðeins til að ítreka þær leiðréttingar sem hæstv. ráðherra gerði hér á greinargerðinni af því að frv. er margendurflutt að þetta á nú því miður víðar við þar sem talað er um sl. desember eða sl. ár en er nú aukaatriði í raun, en það þyrfti þá að hafa það í huga við lestur greinargerðarinnar allrar.