Ríkisreikningur 1991

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:22:15 (450)

[18:22]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1991 sem er 36. mál þessa þings og liggur fyrir á þskj. nr. 38.
    Frv. þetta var lagt fram á síðasta þingi og er nú endurflutt í óbreyttri mynd. Frv. er samið eftir ríkisreikningi fyrir árið 1991 sem lagður var fyrir Alþingi með bréfi fjmrh. til forseta Alþingis í janúar 1993. Þetta er þriðji ríkisreikningurinn sem gerður er upp með nýjum hætti en með ríkisreikningi ársins 1989 var stigið veigamikið skref í þá átt að færa uppgjör ríkissjóðs nær almennum reikningsskilavenjum. Breytingarnar voru gerðar að tilhlutan ríkisreikningsnefndar og fela þær í sér að færa skal í ríkisreikningi allar áfallnar kröfur og skuldbindingar ríkissjóðs. Áður höfðu slíkar skuldbindingar komið til færslu þegar Alþingi samþykkti greiðsluheimild til verksins.
    Með þessum breytta færsluhætti fæst réttari mynd af efnahag ríkissjóðs og raunverulegt rekstrarumfang á árinu er sýnt þar sem gjalda- og tekjufærslur eru óháðar því hvenær greitt er eða innheimt. Tilgangurinn er að tryggja sem réttasta mynd af eigna- og skuldastöðu ríkissjóðs og koma í veg fyrir að upplýsingum sé misvísað milli ára.
    Það sem hér um ræðir er að hið háa Alþingi hefur jöfnum höndum með almennum lögum eða sérlögum lagt ýmsar fjárhagslegar skuldbindingar á ríkissjóð. Veigamestu dæmin um þetta eru ríkisábyrgðir, sameiginlegar framkvæmdir með sveitarfélögum og lífeyrisskuldbindingar. Þessar skuldbindingar falla til með ýmsu móti og án þess að hv. Alþingi hafi nokkur bein áhrif á eða fái beinlínis við ráðið. Þegar slíkar skuldbindingar hafa fallið til hefur Alþingi hins vegar þurft að veita heimildir til greiðslu þeirra. Slíkar heimildir ráða tímasetningu greiðslna en breyta engu um skuldbindinguna sem þegar hefur myndast vegna fyrri lagasetningar.
    Í áritun Ríkisendurskoðunar með ríkisreikningi 1991 er gerð athugasemd við færslu á áföllnum skuldbindingum Framkvæmdasjóðs Íslands. Telur Ríkisendurskoðun að þessa skuldbindingu hafi átt að færa í ríkisreikningi 1992 þar sem þá fyrst hafi Alþingi með formlegum hætti heimilað yfirtöku á hluta af skuldum Framkvæmdasjóðs Íslands.
    Fjmrn. telur hins vegar að um þessa færslu gildi það sama og sagt var hér að framan, þ.e. að hv. Alþingi hefur samþykkt með lögum um Framkvæmdasjóð Íslands að ríkissjóður beri fulla ábyrgð á skuldbindingum hans og því þurfi ekki sérstaka lagaheimild til að færa allar áfallnar skuldbindingar vegna hans. Var um þessa niðurstöðu leitað álits endurskoðenda og sérfræðinga í reikningsskilum.
    Það leiðir af þeim breytingum sem ákveðnar voru með uppgjöri ríkisreiknings 1989 að skuldbindingar sem ríkissjóður stofnar til eða á hann falla á árinu séu metnar og færðar í ríkisreikning eftir því sem þær eru best þekktar enda í samræmi við gerðar reikningsskilavenjur. Þannig er t.d. nú lagt mat á skuldbindingar ríkissjóðs gagnvart sveitarfélögum og til stöðu verkefna í vegagerð, hafnargerð og byggingarframkvæmdum og þær færðar til bókar óháð greiðslu. Þar ræður ekki samþykkt hins háa Alþingis á greiðsluheimild til verkefnisins heldur hvort ríkissjóður telst ábyrgur fyrir skuldbindingum. Það sama á við um áfallnar ábyrgðir ríkissjóðs.
    Þessi sjónarmið sem ég hef hér rætt um eru umdeild og mér er kunnugt um að hv. þm. sumir

hverjir eru á öndverðri skoðun og ég veit að hv. 2. þm. Norðurl. v. mun taka til máls hér á eftir. Hann er yfirskoðunarmaður ríkisreiknings og mun hann að sjálfsögðu gera grein fyrir sínum sjónarmiðum.
    Þetta frv. er samkvæmt venju í þremur greinum. Í 1. gr. eru sýndar niðurstöður rekstrar- og efnahagsreiknings A-hluta ríkissjóðs og í 2. gr. með sama hætti niðurstöðutölur rekstrar- og efnahagsreiknings B-hluta stofnana ríkisins. 3. gr. felur svo í sér gildistökuákvæði laganna.
    Eins og áður segir er frv. þetta endurflutt í óbreyttri mynd og mun ég því ekki rekja frekar efnisinnihald frv. en vísa að öðru leyti í skýrslu fjmrh. um ríkisfjármál árið 1991 og endurskoðunarskýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 1991 en þessi skýrsla var að sjálfsögðu til umræðu um leið og rætt var um ríkisreikninginn á síðasta þingi.
    Frv. hlaut á síðasta þingi ítarlega umfjöllun í fjárln. sem skilaði nál. 6. maí sl. þar sem meiri hluti nefndarinnar lagði til að frv. yrði samþykkt óbreytt. Í þessu nál. kemur fram sú ósk að allar athugasemdir yfirskoðunarmanna ríkisreiknings er varða reikningsskil ríkisins verði teknar til gaumgæfilegrar athugunar og ríkisreikningsnefnd taki þær til umfjöllunar.
    En í lok nál. er sagt, með leyfi foreta, orðrétt:
    ,,Að lokinni athugun nefndarinnar á frv. og með vísun til þess sem segir í nál. leggur meiri hlutinn til að frv. verði samþykkt.`` Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að ég hef beint þessum orðum sem koma fram í nál. meiri hlutans til ríkisreikningsnefndar og mér er kunnugt um að hún mun á næstunni taka þessi mál fyrir, ræða þau og vonandi skila niðurstöðu sem allir þeir sem hafa látið sig þetta mál varða geta verið sáttir við.
    Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að frv. verði vísað til fjárln. eins og um getur í 25. gr. þingskapalaga.