Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 13:44:05 (514)


[13:44]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur nú mælt fyrir því máli sem var mikið til umfjöllunar í hv. heilbr.- og trn. á síðasta þingi og fékk þar allrækilega umfjöllun, fá mál hafa fengið jafnmikla umfjöllun í þeirri ágætu nefnd eins og þetta mál, enda var það til umfjöllunar allan veturinn.
    Af hálfu stjórnarandstöðunnar stóð ekkert í vegi fyrir því að hægt væri að afgreiða málið hér á þingi sl. vor. Hins vegar var það svo að ekki var samstaða í stjórnarliðinu um það hvernig málið skyldi út úr nefnd tekið og með hvaða hætti.
    Minni hluti hv. heilbr.- og trn. flutti brtt. við frv. sem ég sé ekki ástæðu til þess að rekja hér og nú, enda er það svo að allir þeir málaflokkar sem stóðu í ríkisstjórninni og stjórnarliðinu og þurfti að ná samkomulagi um í þessu frv. eins og það lá fyrir á síðasta þingi hefur nú öllum verið kippt út og hæstv. heilbr.- og trmrh. boðar að í öðrum lagafrumvörpum sem hér munu verða lögð fyrir þingið á næstu dögum og vikum muni verða gengið frá þeim hlutum. Eftir stendur það að öll þau atriði er samstaða var um í nefndinni og samstaða var um milli stjórnarflokkanna eru nú inni í þessu frv. þannig að í sjálfu sér þarf það ekki að fá mikla umfjöllun í hv. heilbr.- og trn. og ætti þess vegna að vera hægt að afgreiða það mjög fljótlega.
    Hins vegar langar mig til að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í því hvernig eigi að meðhöndla Brunabótafélag Íslands, lagalega stöðu þess, eignarhald fyrirtækisins og ekki síst hvernig á að koma fyrir brunatryggingum íbúa í Reykjavík og svo hins vegar brunatryggingum íbúa utan Reykjavíkursvæðisins?
    Það er mjög mikilvægt fyrir þingið að fá svör við þessu þó svo það sé boðað að það verði gert og það komi fram síðar í öðrum lagafrumvörpum, en þetta var nú kannski sá hluti málsins sem var langstærstur af þessu EES-máli eins og það lá fyrir. Hinir þættirnir eru allir mjög einfaldir vegna þess að í raun og veru bara með samningnum þegar hann hefur verið samþykktur, þá er búið að gangast inn á allar þær breytingar sem gera þarf á lögunum þannig að það er ekki annað en lagaskylda hér eða skylda þingsins formlega séð að ganga frá málinu. En ég vildi gjarnan fá svör við þessum spurningum hjá hæstv. heilbr.- og trmrh.