Almannatryggingar

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 14:29:33 (527)


[14:29]
     Þuríður Backman :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að það er mikill munur á fullum réttindum eða heimild til bóta. Það eru þyngri sporin fyrir bótaþega eða þá sem þurfa á aðstoð að halda að fara til Félagsmálastofnunar síns sveitarfélags heldur en að þiggja frá almannatryggingum eða Tryggingastofnun ákveðin gjöld sem er skýrt og ljóst að þeir hafa fullan rétt á.
    Mig langar aðeins að nefna hér kafla 37. gr. um tannlæknaþjónustu. Ég hef flutt hér áður fsp. varðandi tannréttingar því þannig er málum komið í dag að frá og með næstu áramótum falla niður svo til allar bætur vegna tannréttinga barna. Í dag eru greiddar bætur allt að 50% fyrir þær tannréttingar sem þegar er verið að vinna að. Allar bætur falla niður frá og með næstu áramótum og eins allur stuðningur við ferðalög vegna tannréttinga. Því miður er það þannig að sérfræðingar eru ekki alls staðar á landinu. Þeir hafa komið sér upp aðstöðu á nokkrum stöðum úti á landi og sækja þessa staði nokkuð reglulega. En þrátt fyrir það eru þetta mikil ferðalög fyrir börn og foreldra þeirra að koma þeim í þessa þjónustu. Og eins og ég segi, um næstu áramót fellur þetta alfarið niður og það er miður. Því ef þetta eiga að verða forréttindi þeirra sem hafa efni á því að láta rétta tennurnar í börnum sínum og að bæta því svo við að ofan á kemur ferðakostnaður þeirra sem búa úti á landi, þá verður mikið óréttlæti í þessu. Þá er ég ekkert að réttlæta það að Tryggingastofnunin eigi að greiða fyrir hvað sem er, t.d. lítilfjörlegar fegrunaraðgerðir, heldur þær aðgerðir sem tannlæknar eru sammála um að þurfi að laga svo ekki hljótist tjón af.