Ratsjárstöðvar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:14:41 (541)


[15:14]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Uppsetning skiparatsjáa á ratsjárstöðvunum á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli var á sínum tíma samþykkt af hermálayfirvöldum Atlantshafsbandalagsins sem

hluti af endurnýjun ratsjárkerfisins á Íslandi. Sú ákvörðun stendur enn og á því hefur ekki orðið breyting. Uppsetning þessara skiparatsjáa hefur hins vegar dregist frá því sem stefnt var að og er ástæðan endurskoðun á framkvæmdaáætlunum Mannvirkjasjóðs bandalagsins. Það sem hefur hamlað endanlegri afgreiðslu er að verulegur fjárskortur hefur verið á fjármagni til nýframkvæmda bæði árin 1992 og 1993.
    Nú stendur yfir endurskoðun. Hún er fyrst og fremst tilkomin vegna nýrrar öryggismálastefnu Atlantshafsbandalagsins sem var ákveðin á leiðtogafundi bandalagsins í Róm 1991. Að því hefur verið unnið að meta hvaða verkefnaflokka Mannvirkjasjóðurinn skuli kosta áfram og hvaða verkefnaflokkar skulu aflagðir. Sérstök nefnd hefur unnið að þessu mati og er henni ætlað að ljúka störfum fyrir varnarmálaráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í desember nk. Í þeim drögum sem fyrir liggja er áfram gert ráð fyrir þátttöku Mannvirkjasjóðsins við kostnað við framkvæmdir á skiparatsjám eins og áform eru um á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli. Það virðist vera afstaða flestra ríkja sem eiga aðild að Mannvirkjasjóðnum hins vegar að fresta ákvarðanatöku um flest verkefni þar til endurskoðuninni, sem ég vék að á vegum varnarmálaráðherranna, er lokið.
    Eins og fram hefur komið í svari mínu er meginástæðan fyrir þeirri seinkun sem orðið hefur á framkvæmdinni sú að frá miðju ári 1992 til dagsins í dag hefur ekki verið fyrir hendi nægilegt fjármagn til þess að greiða fyrir nýjum framkvæmdum Mannvirkjasjóðsins. Framlög einstakra ríkja hafa lækkað eða það hefur verið dregið á langinn að inna þau af hendi, m.a. með vísan til framangreindrar heildarendurskoðunar.
    Nú eru líkur á því að úr þessum vanda rætist að nokkru á næstunni. Það verður hlutverk hermálayfirvalda að endurskoða forgangsröð nýrra verkefna í ljósi þess fjármagns sem þá verður fyrir hendi þannig að ekki er unnt á þessu stigi málsins að slá neinu föstu um framhaldið annað en það að ákvörðun hefur enn ekki verið dregin til baka.