Móttaka flóttamanna

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:52:28 (556)

[15:52]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin og sömuleiðis það að í undirbúningi eru ákveðnar úrbætur í þessum efnum. Það er aðalatriðið og megintilgangur minn með því að hreyfa þessu máli, að leggja á það áherslu og leggja því lið að það verði gerðar þær réttarúrbætur og framkvæmdalegu úrbætur sem sannarlega er þörf á að gera.
    Mér sýnist að vísu, þrátt fyrir svör hæstv. dómsmrh. hér áðan hvað framkvæmdaatriðin snertir, sem ég fagna og geri síður en svo lítið úr, að eftir sem áður sé ákveðin hætta á því að það verði misræmi milli annars vegar alþjóðlegra eða þjóðréttarlegra skuldbindinga okkar Íslendinga og hins vegar landsréttarins. Ég hefði gjarnan viljað heyra að til stæði að fara yfir íslenska löggjöf, þó ekki væri nú meira, og við létum stjórnarskrána bíða um sinn, a.m.k. þá löggjöf sem þetta snertir, gagngert til þess að tryggja að það verði alls ekki neitt misræmi og Íslendingar séu ekki að bregðast þjóðréttarlegum skuldbindingum hvað það atriði varðar að ganga frá þeim í landsréttinum. Það er hárrétt og kom líka fram í mínu máli, að þessi tilvik eru enn sem komið er fá og í flestum tilvikum hafa þau leyst á þann einfalda hátt að Íslendingar hafa í trausti réttlátrar málsmeðferðar á hinum Norðurlöndunum eða í öðrum nágrannaríkjum getað endursent þá menn sem hér hafa barið að dyrum sem flóttamenn. En ég held að það sé alveg ljóst að við þurfum að búa okkur undir breytta tíma í þessum efnum af tveimur ástæðum. Annars vegar er flóttamannavandamálið vaxandi í nálægum heimshlutum og því hlýtur að skola hingað upp á okkar strendur. Hins vegar eru samgöngur til og frá landinu að breytast þannig að inn eru að koma lönd sem ég efast um því miður að við getum treyst að sýni í öllum tilvikum réttláta málsmeðferð. Ég nefni í því sambandi áform um eða þegar tilkomið áætlunarflug frá Íslandi til Suður-Evrópu og jafnvel annarra heimsálfa.