Orsakir atvinnuleysis

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:34:12 (574)


[16:34]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Suðurl. hefur borið fram fyrirspurn svohljóðandi:
    ,,Hve stóran þátt í auknu atvinnuleysi í landinu á síðustu tveimur árum á samdráttur í landbúnaði á því tímabili ásamt samdrætti í úrvinnslu- og þjónustugreinum sem af minnkandi búvöruframleiðslu stafar?``
    Ég bað Þjóðhagsstofnun um upplýsingar til þess að nota í svar við þessari spurningu og upplýsingar Þjóðhagsstofnunar eru eftirfarandi:
    Þjóðhagsstofnun áætlar að landbúnaðarframleiðslan á föstu verðlagi mun dragast saman um 6,5% á tímabilinu 1991--1993. Þar munar mest um samdrátt í kindakjötsframleiðslu sem dróst saman um 14% og framleiðslu mjólkur sem minnkaði um tæp 8% á þessu tímabili. Framleiðsla á öðru kjöti en kindakjöti hefur farið vaxandi á síðustu árum og nemur aukningin rúmum 12% á síðustu tveimur árum. Ekki liggja fyrir endanlegar tölur um fjölda ársverka í einstökum atvinnugreinum eftir 1990 en samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar fyrir tímabilin 1991 og 1993 hefur störfum í landbúnaði fækkað um 4% á þessu tveggja ára tímabili. Þetta er nokkuð minni fækkun en varð á síðasta áratug en þá fækkaði störfum í landbúnaði að meðaltali um 3% á ári.
    Veltutölur fyrir vinnslugreinar landbúnaðar gefa til kynna að á síðsta ári hafi samdráttur í slátrun og kjötiðnaði numið 2% að raungildi miðað við árið 1991 en í mjólkuriðnaði hefur á móti átt sér stað 3,5% raunaukning á milli ára.
    Ekki er hægt að draga einhlítar ályktanir um þátt minnkandi landbúnaðarframleiðslu í aukningu atvinnuleysis á síðustu tveimur árum. Íslenskur landbúnaður hefur á síðustu árum verið að laga sig að breyttum aðstæðum á innanlandsmarkaði og búvörusamningnum frá 1991. Afleiðingin hefur m.a. verið minni framleiðsla og fækkun starfa í greininni. Rétt er þó að benda á að fækkun starfa í landbúnaði er síður en svo ný af nálinni, enda var hlutfall vinnuafls í landbúnaði árið 1990 komið niður í 4,9% af heildarmannafla úr 7,8% 1980 og 13,3% 1970. Þessi fækkun landbúnaðarstarfa varð án þess að atvinnuleysi ykist að ráði.
    Í vinnslugreinum landbúnaðar hefur störfum einnig fækkað á síðustu árum. Árið 1987 var heildarfjöldi ársverka í slátrun, kjöt- og mjólkuriðnaði um 2.150 en hafði fækkað í 1.800 árið 1990 sem samsvarar tæplega 6% fækkun á hverju ári. Fækkun starfa í landbúnaði og tengdum greinum var því töluvert umfram þá tæplega 2% fækkun árlegra starfa á landsvísu á tímabilinu 1987--1990.
    Í könnun sem gerð var í vor á vegum félmrn. og unnin af Félagsvísindastofnun háskólans kom í ljós að af þeim sem skráðir voru atvinnulausir um áramótin 1992--1993

höfðu 3,4% starfað við landbúnað áður en þeir misstu vinnuna. Ekki var kannað hlutfall þeirra sem störfuðu við úrvinnslu eða þjónustugreinar landbúnaðar.
    Ég vona, hæstv. forseti, að þetta takmarkaða svar gefi nokkra mynd af þeirri stöðu sem hv. þm. sérstaklega spurðist fyrir um.