Einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:10:08 (594)


[17:10]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst ætla ég að upplýsa hv. þm. Framsfl. um það að það mun vera í þremur ályktunum frá landsfundi Sjálfstfl. þar sem samþykkt er að einkavæða ríkisviðskiptabankana, þannig að það er alveg skýr stefna Sjálfstfl. Í öðru lagi vil ég segja frá því að þetta er stefna ríkisstjórnarinnar frá upphafi. En það er hárrétt, sem látið var í veðri vaka í fyrirspurn eins hv. þm., að um það hefur ekki verið fullt samkomulag innan stjórnarflokkanna. Það hefur ekki verið látið á það reyna nýlega og ég get því haldið því fram og tel það eðlilegt að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að gera ríkisviðskiptabankana að hlutafélögum. Hins vegar er það ekki á sama hátt skynsamlegt að selja hlut í þeim bönkum fyrr en markaðurinn er með þeim hætti að það fáist eðlilegt og gott verð fyrir.
    Þá vil ég benda hv. fyrirspyrjanda á það að ég tel það ekki vera mistök þótt okkur hafi ekki tekist að selja Búnaðarbankann eins og til stóð og áformað var á yfirstandandi ári. Það var ný ákvörðun sem tekin var að yfirlögðu ráði að fresta því um sinn. Það er nú einu sinni þannig að tölur í fjárlagafrv. eru áætlaðar tölur og þessar 10--11 hundruð millj. sem áttu að koma inn var sala eigna, sumpart vegna einkavæðingar en sumpart vegna sölu á fasteignum ríkisins. Ég hef þegar lýst því yfir að ég tel að á næsta ári séu inni tölur sem ættu að geta staðist þó ég geti ekki fullyrt um það nú að áætlun í fjárlagafrv. standist fyrr en að loknu næsta ári. Það er eðli áætlana að þær eru áætlanir en ekki raunveruleikinn.