Héraðslæknisembættin

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:35:19 (603)


[17:35]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint fjórum fyrirspurnum.
    ,,1. Hvaða stefna hefur verið mótuð um framtíð héraðslæknisembættanna?`` Heilbr.- og trmrn. hefur um árabil viljað styrkja embætti héraðslækna. Nauðsynlegar lagabreytingar hafa aldrei náð fram að ganga fyrr en með breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu árið 1990. Þar var ákveðið að heimilt væri að reka þrjú sjálfstæð embætti héraðslækna í Reykjavíkurhéraði, í Reykjaneshéraði og Norðurlandshéraði eystra. Jafnframt var heimilað að stofna sjálfstæð embætti í nokkrum héruðum ef nauðsyn krefði. Annars staðar skyldi skipa einn heilsugæslulækni héraðsins sem héraðslækni með sama hætti og verið hefur, nánast frá setningu fyrstu laganna um heilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ráðuneytisins hefur ekki tekist að fá fjárveitingar á fjárlögum til embættis héraðslæknis í Reykjaneshéraði. Í ljósi takmarkaðra fjárveitinga og nauðsynlegs sparnaðar taldi ráðuneytið rétt að breyta að nýju öllum embættum héraðslækna annarra en héraðslæknisins í Reykjavík í eldra form, þ.e. að einn heilsugæslulæknir er jafnframt skipaður héraðslæknir.
    ,,2. Eru erindisbréf héraðslækna í endurskoðun? Ef svo er, hvenær má búast við að þeirri vinnu ljúki?`` Gildandi erindisbréf héraðslæknis eru nr. 118/1980. Endurskoðun erindisbréfsins hefur staðið yfir um hríð. Búast má við að þeirri vinnu ljúki innan tíðar.
    ,,3. Hvaða tíma er heilsugæslulækni í fullu starfi ætlað að taka til að sinna embættisverkum héraðslæknis og hvernig er séð fyrir afleysingu á meðan þeim verkefnum er sinnt?`` Heilsugæslulæknir í fullu starfi fær leyfi frá störfum að eigin ósk til að sinna embættisverkum héraðslæknis. Oftast er annar læknir ráðinn til afleysinga á meðan. Heilsugæslulæknar sem jafnframt eru héraðslæknar fá á mánuði 20% af launum samkvæmt launaflokki 153 vegna héraðslæknisstarfanna. Þegar þeir sinna eingöngu héraðslæknisstörfum fá þeir full laun samkvæmt launaflokki 153 þann tíma ásamt umsaminni eftirvinnu en falla á meðan af launaskrá sem heilsugæslulæknar.
    ,,4. Hverjum verður falið að taka við þeim verkefnum sem héraðslæknisembættin í Reykjavík og Akureyri hafa unnið ef sá niðurskurður sem boðaður er í fjárlagafrv. nær fram að ganga?`` Í fjárlögum 1993 eru fjárveitingar til héraðslæknisembættisins í Reykjavík 16,9 millj., í fjárlagafrv. 1994 6,8. Á sama hátt eru í fjárlögum yfirstandandi árs 6,6 millj. kr. til héraðslæknisins á Akureyri en 1,9 millj. í fjárlagafrv. fyrir komandi ár, 1994. Gert er ráð fyrir að uppstokkun verði á starfsemi skrifstofu héraðslæknisins í Reykjavík og einhver hluti þeirra verkefna sem skrifstofan hefur sinnt verði fært til heilsugæslustöðvanna líkt og er úti á landi. Þá er gert ráð fyrir að starf héraðslæknisins á Akureyri verði hálft starf og staða ritara við skrifstofu héraðslæknisins verði lögð niður. Þess er þó að geta að eftir sem áður mun fjárveiting til embættis héraðslæknisins á Akureyri verða því sem næst þreföld samanborið við fjárframlög til héraðslækna í öðrum héraðslæknisumdæmum, svo sem á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Austurlandi, Suðurlandi og Reykjanesi þar sem almenna reglan hefur verið 20% starfshlutfall.
    Það segir með öðrum orðum að þrátt fyrir sparnað í þessum málaflokki er hér ekki um að ræða neina grundvallarbreytingu á þjónustu héraðslækna um landsbyggðina alla. Stærsta breytingin verður hér í Reykjavík. Þar mun væntanlega eflt landlæknisembætti koma inn og sinna ákveðnum þáttum þeirrar þjónustu sem embætti héraðslæknisins í Reykjavík hefur sinnt.