Rannsóknir á umhverfisáhrifum vatnaflutninga

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:27:43 (624)


[18:27]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Tómasar Inga Olrich þá virðist hann hafa gleggri þekkingu á þeim rannsóknum sem þarna hafa farið fram heldur en flestir aðrir og spurningin að því leyti til nánast óþörf.
    En hvað varðar fyrri spurninguna, sem ég ætla nú ekki að endurtaka hér, þá er það svo að Landsvirkjun hefur látið yfirfara og bera lauslega saman hugmyndir sem hafa verið settar fram um mögulegar virkjanir á vatnasvæði Jökulsár á Brú og Jökulsár á Fjöllum. Það var m.a. gert til að fá sem gleggsta mynd af hagkvæmni mismunandi leiða og umhverfisáhrifum sem af þeim kunna að leiða. Einn af þremur kostunum sem kemur til greina er að veita jökulsánum til Fljótsdals. Það þykir hagkvæmara að veita vatni úr Jökulsá á Fjöllum yfir í Jökulsá á Brú heldur en að virkja ána í sínum eigin farvegi. Landsvirkjun hefur verið að láta kanna þennan möguleika og vikjunarkost í því sambandi.
    Það hefur komið hér fram að í febrúar 1992 stóð samstarfsnefnd iðnrn. og Náttúruverndarráðs um orkumál fyrir samanburði á umhverfisáhrifum sex mismundandi virkjunarleiða Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Brú, þar sem ánum er veitt til Fljóstdals. Þetta mat nær til áhrifasvæðis veitu og virkjana og landsvæða á milli jökulsánna sunnan Þríhyrningavatns og miðar m.a. að því að kanna og bera saman hugsanleg lónstæði. Niðurstaða úttektarinnar liggur fyrir í meginatriðum eins og fram hefur komið í skýrslu samstarfsnefndarinnar sem kom út fyrr á þessu ári, raunar í febrúar. Það er álit Náttúruverndarráðs að rannsóknir á umhverfisáhrifum á mögulegum virkjunarstöðum og lónstæðum á öræfum norðan Vatnajökuls séu vel á veg komnar. Það er hins vegar alveg ljóst að ýmsum spurningum er enn ósvarað eins og kemur fram í skýrslunni, en þar eru settar fram ábendingar um frekari rannsóknir sem lúta einmitt að áhrifum á öræfin norðan Vatnajökuls. Umhverfisáhrifin hafa hins vegar ekki verið metin í Kelduhverfi og í Öxarfirði né í Fljótsdal og Héraðsflóa. Það er t.d. ókannað hvaða áhrif minna vatnsrennsli og minni framburður í Jökulsá á Fjöllum hefði niður í Öxarfirði, bæði á farveg árinnar og nærliggjandi votlendi. Sömuleiðis er ljóst að það þarf líka að kanna til hvaða ráðstafana menn þurfa að grípa til þess að farvegur Lagarfljótsins geti flutt aukið vatnsmagn og hvaða áhrif aukið vatnsmagn kynni að hafa á láglendið við Héraðsflóa.
    Vegna þess að hér var rætt áðan um aurburð og hvaða áhrif þetta hefði á framburð og landbrot þá er það svo að það eru ekki til rannsóknir á áhrifum þessara framkvæmda á strendurnar fyrir botni Héraðsflóa og Öxarfjarðar. En það er hins vegar ljóst að fram hafa komið mjög mikilvægar og sterkar vísbendingar hjá fræðimönnum, kannski ekki fyrr en á þessu ári, sem sýna að þarna er ákveðin hætta fyrir hendi. Þarna kann að skapast veruleg hætta á landbroti vegna minni framburðar. Aurburður ánna mun að öllum líkindum minnka þegar þær verða virkjaðar og raunar er búið að sýna fram á það. Orkustofnun hefur einungis gert frumkönnun á líklegum breytingum á ströndum fyrir botni Héraðsflóa og Öxarfjarðar með hliðsjón af þessum vatnaflutningum, en engar eiginlegar rannsóknir hafa farið fram enn þá. En ég ítreka að það hefur verið bent á það af fræðimönnum sem t.d. eru nýlega komnir úr námi og hafa stundað rannsóknir sem lúta beinlínis að þessu, að þarna er bersýnilega um að ræða hlut sem menn hafa alls ekki gefið nægilegan gaum.
    Þá er rétt að geta þess einnig að vegna fyrri hugmynda um að virkja Jökulsá á Fjöllum í eigin farvegi þá hefur Náttúruverndarráð mótað þá stefnu sem var samþykkt á fundi ráðsins 2. maí 1990, að það beri að vernda fossa í Jökulsá á Fjöllum þannig að í þeim verði eðlilegt vatnsmagn að sumarlagi og að ekki skuli reisa virkjunarmannvirki í Jökulsárgljúfrum.
    Við þetta svar má síðan bæta að samkvæmt nýjum lögum um mat á umhverfisáhrifum sem voru samþykkt á sl. vori og hv. þm. lagði gjörva hönd að, þá er auðvitað ljóst að það verður ekki ráðist í að veita Jökulsá á Fjöllum til Fljótsdals án þess að fyrir liggi ítarlegt mat á áhrifum þeirrar framkvæmdar á umhverfið.
    Seinni spurningin, virðulegur forseti, var svo:
    ,,Telur ráðherra ekki rétt, með tilliti til framangreindra orkunýtingaráforma, að Alþingi taki hið fyrsta afstöðu til þess hvort það samrýmist almennum markmiðum þjóðarinnar í umhverfismálum að ráðast í vatnaflutninga af því tagi sem hér um ræðir?``
    Svar mitt við því er ósköp einfalt: Það er já.