Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 14:01:23 (647)

[14:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993. Þetta 105. mál og er að finna á þskj. 108. Áður en ég lýsi sjálfu frv. vil ég að það komi fram að það eru nokkur mál sem enn eru til skoðunar á milli ráðuneyta og gætu þurft að koma til þingnefndarinnar síðar. Þetta eru mál sem varða Landakot, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, Sjúkrahúsið í Keflavík og Íslenska dansflokkinn. Þessi mál eru nú til sérstakrar skoðunar og má búast við því að hv. þingnefnd sem fær málið til meðferðar þurfi að taka við þeim málum á síðari stigum ef á aukafjárveitingum þarf að halda.
    Að öðru leyti hefur þetta frv. verið unnið í samvinnu fjmrn. annars vegar og annarra ráðuneyta hins vegar.
    Frv. er eins og venja er í fjórum greinum með gildistökugreininni og ég mun við 1. umr. málsins ekki lýsa einstökum greinum nema sérstakt tilefni gefist til.
    Fjárlög ársins 1993 voru afgreidd með 6,2 milljarða kr. halla, þar af mátti rekja tæplega 2 milljarða kr. til ákvarðana ríkisstjórnarinnar um aukin útgjöld til vegaframkvæmda. Þrátt fyrir þetta var stefnt að áframhaldandi lækkun útgjalda ríkissjóðs um tæplega 2 milljarða kr. að raungildi. Jafnframt var áætlað að tekjurnar yrðu nálægt 1 milljarði kr. lægri en árið 1992.
    Frá því að fjárlög þessa árs voru samþykkt hafa ýmsar forsendur breyst í veigamiklum atriðum.
    Í fyrsta lagi hafa skuldbindingar stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 1993, einkum aukin framlög til ýmissa viðhaldsverkefna og auknar niðurgreiðslur á matvælum, valdið rúmlega 2 milljarða kr. útgjaldaaka umfram fjárlög.
    Í öðru lagi hafa ýmsar breytingar á skattalögum, m.a. í tengslum við gerð kjarasamninga fyrr á þessu ári, skert tekjur ríkissjóðs. Þessar breytingar munu samanlagt skerða tekjur ríkissjóðs um 1 milljarð kr. frá áætlun fjárlaga.
    Í þriðja lagi munu áform fjárlaga um sölu ríkiseigna ekki ganga eftir á árinu. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að eignasala skilaði ríkissjóði um 1.500 millj. kr. en nú er sýnt að hún nemur aðeins um eða innan við 100 millj. kr. Um þessi mál var fjallað nokkuð á hinu háa Alþingi í fyrirspurnatíma í gær.
    Í fjórða lagi hefur viðvarandi samdráttur í þjóðarútgjöldum skert tekjur ríkissjóðs og aukið útgjöld umfram það sem reiknað var með í fjárlögum. Aukið atvinnuleysi hefur komið fram í lægri tekjum einstaklinga og þar með dregið úr útgjöldum heimilanna. Af þessu leiðir að tekjur ríkissjóðs af launa- og veltusköttum verða lægri en reiknað var með í fjárlögum. Á gjaldahlið munu framlög til greiðslu atvinnuleysisbóta fara verulega fram úr áætlun fjárlaga eða sem nemur 1.200 millj. kr.
    Til að hv. þm. átti sig nokkuð á stærðarhlutföllum í þessum efnum má gera ráð fyrir að hvert atvinnuleysisstig kosti ríkissjóð um 650 millj. kr.
    Þegar allt þetta er lagt saman stefnir í að tekjur ríkissjóðs verði 3 milljörðum kr. minni árið 1993 en áætlað var í fjárlögum. Frávik á gjaldahlið er einnig um 3 milljarðar kr. Eins og nú horfir er halli á ríkissjóði í árslok 1993 áætlaður 12,3 milljarðar kr. eða 6 milljarðar kr. umfram fjárlög. Þar af má rekja 3 milljarða kr. til skuldbindinga í tengslum við kjarasamninga og annað eins til aukins atvinnuleysis og samdráttar í þjóðarútgjöldum umfram forsendur fjárlaga.
    Það skal tekið fram að það er ekki hægt að sjá á þessu frv. nákvæmlega hver verður endanlegur halli á ríkissjóði, það sést ekki fyrr en síðara frv. um fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár kemur fram sem væntanlega verður fljótlega eftir áramótin. Ástæðan er auðvitað sú að hér er verið að leita heimilda sem ekki er alveg ljóst hvort nýttar verða á þessu ári samkvæmt þeim reglum sem upp hafa verið teknar um að færa heimildir á milli ára og skuldbindingar jafnframt samkvæmt tilteknum ákveðnum reglum.
    Það er ljóst að þessi aukni hallarekstur sem verður á ríkissjóði miðað við fjárlög yfirstandandi árs gerir það að verkum að lánsfjárþörf ríkisins eykst. Á fjárlögum var hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs, þ.e. sú fjárhæð sem ríkissjóður þarf að afla til að mæta halla á rekstrarreikningi og ýmsum lánahreyfingum, áætluð tæplega 9 milljarðar kr. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun verður lánsfjárþörfin á þessu ári hins vegar um 14 milljarðar kr. Hækkunin er 1 milljarði kr. lægri en aukning rekstrarhalla ríkissjóðs sem skýrist af því að innheimtar afborganir af veittum lánum eru hærri en áætlað var í fjárlögum. Það er þess vegna sem viðbót lánsfjárþarfar verður ekki eins mikil og hallaviðbótin sem ég hef þegar lýst í minni ræðu.
    Ef við lítum næst á tekjuhliðina þá voru heildartekjur ríkissjóðs á fjárlögum yfirstandandi árs áætlaðar 104,8 milljarðar kr. en allt bendir nú til að þær verði rúmlega 3 milljörðum kr. minni.
    Samdráttur skattteknanna er heldur minni en heildarteknanna eða nær 2,5 milljarðar kr. Skýringin er sú sem hefur verið áður gefin en hún er um aðrar tekjur og þá fyrst og fremst eignasölu.
    Það er einkum þrennt sem skýrir tekjusamdráttinn frá áætlun fjárlaga. Það eru í fyrsta lagi ýmsar breytingar á sköttum sem samþykktar hafa verið og má þá minna á niðurfellingu tryggingagjalds af útflutningsgreinum og jafnframt var horfið frá því að lækka endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna vinnu við íbúðarhúsnæði en það átti að skila ríkissjóði um 400 millj. kr. Ég hef þegar minnst á sölu ríkiseigna en einnig má benda á að meira atvinnuleysi en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga kemur auðvitað fram í minni tekjum einstaklinga sem aftur dregur úr útgjöldum heimilanna og framkallar þannig veltusamdrátt í þjóðfélaginu og leiðir til minni tekna ríkissjóðs af óbeinum sköttum.
    Ég ætla ekki að lýsa í einstökum atriðum hvernig skattarnir sem innheimtast og munurinn á innheimtu þeirra eða á skatttekjunum eins og þær voru áætlaðar í ríkissjóði og eins og þær eru áætlaðar nú, í hverju þær liggja í einstökum atriðum, en vísa til texta í grg. með frv., fyrst og fremst á bls. 29 og 30.
    Ég mun þá næst snúa mér að útgjöldunum en áætluð útgjöld ríkissjóðs við afgreiðslu fjárlaga 1993 voru 111 milljarðar kr. samanborið við 110,6 milljarða kr. árið 1992. Nú hafa útgjöldin verið endurmetin í tengslum við gerð fjárlagafrv. fyrir árið 1994 og með tilliti til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um framvindu ríkisfjármála það sem af er þessu ári. Talið er að útgjöldin verði um 113,9 milljarðar kr. en það er 2,9 milljarða kr. hækkun frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum.
    Rekstrarkostnaður er nú ætlaður 44,2 milljarðar, en það eru 900 millj. kr. meiri kostnaður en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Af þeirri fjárhæð má rekja 600 millj. kr. til ákvarðana tengdum kjarasamningum á þessu ári. Annars vegar var um að ræða kjarasamning við aðildarfélag BHMR og fleiri um að hækka launagreiðslur um 300 millj. kr. Hins vegar var ákveðið með lögum að úthluta aflaheimildum Hagræðingarsjóðs endurgjaldslaust til útgerðarinnar nú í ár. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að þessar heimildir skiluðu Hafrannsóknastofnun um 300 millj. kr. í ár. Það sem eftir stendur, þ.e. liðlega 300 millj. kr., skýrist af ýmsum smærri tilefnum sem nánar eru rakin með athugasemdum við einstaka liði þessa frv. sem hér er til umræðu.
    Tryggingabætur og framlög eru nú áætluð 43,2 milljarðar kr. sem er 2 milljörðum kr. hærri fjárhæð en í fjárlögum. Í fyrsta lagi aukast bótagreiðslur atvinnuleysistrygginga sem nemur ríflega 1.200 millj. kr. og áður hefur verið minnst á, en í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir að atvinnuleysi yrði 3% en nýjustu spár ætla að það geti orðið um 4,5% á yfirstandandi ári. Í annan stað hækka eingreiðslur lífeyristrygginga um 600 millj. kr. og niðurgreiðslur á búvörum um 300 millj. kr. Er það í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana á sl. vori. Í fjárlögum voru einungis 250 millj. kr. til að mæta þessum eingreiðslum. Í þriðja lagi eru ýmis smærri framlög sem ýmist hækka eða verða ekki nýtt að fullu á árinu.
    Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru áætlaðar um 10 milljarðar kr. eða 500 milljörðum kr. lægri en í fjárlögum. Þetta skýrist fyrst og fremst af því að vextir á erlendum lánamörkuðum hafa verið lægri en áætlað var.
    Viðhald og stofnkostnaður er talinn nema 16,4 milljörðum kr. á árinu 1993 og hækkar um 500 millj. kr. frá fjárlögum. Í tengslum við gerð kjarasamninga ákvað ríkisstjórnin að verja rúmum 1 milljarði kr. til atvinnuskapandi verkefna. Helmingur þeirrar fjárhæðar voru heimildir í fjárlögum 1992 sem ekki voru nýttar á því ári. Talið er að álíka há fjárhæð til framkvæmda í fjárlögum 1993 verði ekki nýtt á því ári. Ríkisstjórnin hefur hins vegar gefið vilyrði um að þær flytjist til ársins 1994 þannig að staðið verði við það að þessi milljarður komi til framkvæmda eða viðhalds á samningstímabilinu.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var í tengslum við gerð kjarasamninga sl. vor segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Á árinu 1993 verða útgjöld ríkissjóðs til atvinnuskapandi aðgerða, einkum fjárfestingar og viðhalds, aukin um 1.000 millj. kr. frá því sem áður hefur verið ákveðið. Þetta felur í sér að heildarútgjöld ríkissjóðs vegna fjárfestingar og viðhalds á árinu 1993 verða um 17 milljarðar kr. eða 3 milljörðum kr. meiri en árið 1992.``
    Ég hef skýrt það að við gerum ráð fyrir því að kannski um það bil 16,5 milljarðar komi á þetta ár, en það sem á vantar verði þá framkvæmt á næsta ári utan við fjárlagatölur þess árs.
    Verkefnalistinn er birtur í fskj. 2 og er ástæða til að benda á það fskj. en þar eru sundurliðuð framlög til atvinnuskapandi aðgerða og tekið fram hvar nýjar heimildir er að finna og hvar yfirfærslu frá 1992 er að finna, en eins og hv. þm. vita fékkst ekki afgreitt endanlegt fjáraukalagafrv. ársins 1992 í lok síðasta þings. Þetta er ákaflega skýrt upp sett og vísa ég til þessa fskj. sem sparar mér það að lesa upp þessar heimildir því að þar eru þær sundurliðaðar sem mest á einstök viðfangsefni.
    Fjárheimildir til rekstrar eru nú í annað sinn fluttar á milli ára með almennum hætti. Áður höfðu geymdar fjárveitingar nær eingöngu miðast við óhafin framlög til stofnkostnaðar og viðhalds.
    Af rekstrargjöldum ríkissjóðs á árinu 1992 er lagt til að alls verði fluttar 958 millj. kr. til ársins 1993, en á móti verði heimildir fjárlaga 1993 lækkaðar um 435 millj. kr. vegna umframgreiðslna 1992. Loks nema ónotaðar heimildir til stofnkostnaðar og viðhalds 696 millj. kr. Sótt er um þessar fjárheimildir undir liðnum 09-989 Launa- og verðlagsmál í frv., en í fskj. 1 kemur fram frekari sundurliðun á einstakar stofnanir ríkisins og vil ég beina sjónum hv. þm. að því fskj. sem er mjög ítarlegt og sýnir hvernig ætlað er að rekstrarinneign myndist, hvernig rekstrarskuld færist yfir á milli ára, þar sem ætla má að viðkomandi aðilar geti tekið að sér skuldbindingar þrátt fyrir fjárlagatillögur sem fyrir liggja, og síðan hvernig stofnkostnaður og viðhald flyst á milli ára. Samtalan er jafnframt sýnd og niðurstöðutölur koma fram í lok þessarar upptalningar á bls. 52 í frv. Það eru þær tölur sem ég áður vitnaði til.
    Ég vil segja það almennt um þessi mál að ég tel að það hafi verið til mikilla bóta fyrir rekstur á ríkissjóði að farið var að líta á reksturinn sem rekstur til lengri tíma en á milli áramóta og gefa þannig ráðdeildarsömum stjórnendum í ríkisrekstri tækifæri til þess að áætla öðruvísi en gert hefur verið og spara þannig og sæta frekar lagi þegar um innkaup er að ræða. Þetta hefur orðið til þess að stjórnendur hafa ekki keppst eins mikið og áður um að kaupa eða eyða sínum heimildum í lok ársins því að þeir mega nú eiga vissu fyrir því að geta safnað upp heimildum og nýtt fjármagnið síðar ef um það er að ræða. Ég tel þetta

til mikilla bóta og tel að áfram eigi að þróa þessar hugmyndir og þurfa þá að því máli að koma auk fjmrn. að sjálfsögðu önnur ráðuneyti og hv. fjárln. og Ríkisendurskoðun sem fylgjast með þessu starfi.
    Ef litið er á lánahreyfingar þá vil ég aðeins bæta örlitlu við það sem ég áður hef sagt. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs nú talin vera 14 milljarðar kr. Heildarlánsfjárþörfin er áætluð 20,2 milljarðar kr. sem er 4,2 milljörðum kr. hærri þörf en gert var ráð fyrir á lánsfjárlögum. Skýringanna er að leita í 6 milljarða kr. auknum rekstrarhalla ríkissjóðs og 0,6 milljarða kr. minna innstreymi í lánahreyfingum, en á móti kemur að innheimtar afborgarnir af áður veittum lánum eru 1,6 milljörðum kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu að svo stöddu að gera grein fyrir einstökum greinum frv. en bendi á að í athugasemdunum er fjallað ítarlega um einstaka liði og ég held að skýringar séu næsta góðar og það sé vandalaust fyrir fyrir hv. þm. að átta sig á því í hverju heimildirnar felast. Ég kemst þó ekki hjá því, virðulegi forseti, að benda hv. Alþingi á að í kaflanum um æðstu stjórn ríkisins, lið 401, um Hæstarétt, er að finna tillögu um 13 millj. kr. sem eru laun hæstaréttardómara. Hér er um að ræða ósk um það að Hæstiréttur fái 13 millj. kr. vegna yfirvinnu sem skiptist á dómarana alla nema einn sem ekki tekur yfirvinnugreiðslur. Þetta eru greiðslur fyrir tímabilið frá 1. sept. árið 1992 og til ársloka 1993, en byrjað var að greiða hæstaréttardómurunum að mig minnir í febrúar á yfirstandandi ári. Mál þetta hefur verið talsvert í fjölmiðlum eins og menn þekkja og hefur verið rætt hér á hinu háa Alþingi, en eins og varaforseti dómsins hefur sagt í blaðagrein þegar Hæstiréttur var að gera grein fyrir sínum málum, þá er það auðvitað Alþingi sem hefur síðasta orðið um fjárveitingar og gildir það jafnt um Hæstarétt eins og aðrar stofnanir þjóðfélagsins. Á þetta vildi ég benda því að þetta er hinn eðlilegi málatilbúnaður, að sækja um heimildir fyrir slíkum greiðslum.
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki rætt hérna um einstakar greinar. Starfsmenn fjmrn. munu að sjálfsögðu vinna að þessum málum með hv. fjárln. og munu þeir þá geta gefið skýringar í einstökum smærri atriðum en hér í 1. umr. vonast ég til þess að umræðan verði fyrst og fremst um stefnuna en auk þess mun ég að sjálfsögðu eftir bestu getu reyna að svara þeim fyrirspurnum sem til mín verður beint.
    Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því í samræmi við ákvæði þingskapalaga að málið fái umfjöllun í hv. fjárln. og verði vísað til 2. umr.