Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 14:44:00 (649)


[14:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt atriði sem ég tel ástæðu til þess að svara núna þannig að það sé með í umræðunni --- annað verður að bíða til síðari tíma --- en það varðar fyrirspurn sem kom frá hv. þm. vegna mismunandi talna um viðhald og stofnkostnað á bls. 31 í þessu frv. Annars vegar segir að viðhald og stofnkostnaður verði talinn nema 16,4 milljörðum kr. og hækki um 500 millj. en í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar neðar á blaðsíðunni segir að 17 milljarðar kr. muni ganga til þessara verkefna. Hluti af skýringunni er að það var tekið gilt að nokkur atriði væru tekin með í þessum milljarði sem ekki eru viðhald og stofnkostnaður. Það eru örfá atriði sem eru með slíkum hætti og færast á aðra liði. En að meginstefnu til er þetta vegna þess að við gerum ekki ráð fyrir að okkur auðnist að verja öllum þessum fjármunum til viðhalds og fjárfestinga á þessu ári en það er verið að undirstrika það að þær heimildir verða færðar yfir á næsta ár og með sama hætti og við færum heimildir yfir á milli ára. Þetta misræmi kemur fram af þeim sökum, að við gerum ráð fyrir því að það nýtist ekki nema u.þ.b. helmingurinn af milljarðinum á yfirstandandi ári en 500 millj. eða þar um bil færast yfir á næsta ár.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, láta koma fram núna sem andsvar. Önnur atriði verða að bíða þar til síðar.