Endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 18:11:46 (690)


[18:11]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi tillaga er fram komin á nýjan leik þó ekki væri nema til þess að hv. nefnd fái tækifæri til þess að ræða sérstaklega um útboðsstefnu ríkisins, bæði á framkvæmdasviðinu og jafnvel einnig um innkaup. Ég vil láta það koma fram að nýlega samþykkti ríkisstjórnin útboðsstefnu og það má kannski segja að slík útboðsstefna sé hluti af þeirri stefnu sem sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum hér á landi vill fylgja í ríkisbúskapnum, en hún er að læra sem mest af einkamarkaðnum, reyna að draga sem mest úr umsvifum ríkisins, einkavæða þau fyrirtæki sem best eru til þess fallin, bjóða sem mest út af verkefnum ríkisins, ekki bara framkvæmdum heldur líka rekstrarverkefnum til þess að stækka útboðsmarkaðinn, tryggja hann í sessi og ná fram sem mestum gæðum, enda hlýtur það fyrst og fremst að vera hlutverk ríkisins að hafa eftirlit með því að sú starfsemi sem fer fram á vegum ríkisins, þarf ekki endilega að vera unnin af ríkisstarfsmönnum, sé góð og skili sér vel til skattgreiðenda og hinna sem þurfa og eiga að njóta ríkisþjónustunnar, hver sem hún er.
    Þessi útboðsstefna hefur verið kynnt og ég held að það sé full ástæða til þess að kanna sérstaklega framkvæmdirnar og útboð á framkvæmdum sem auðvitað var meginefni í ræðu flm., enda fjallar tillagan um endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda.
    Ég vil sérstaklega taka undir það sem kom fram hjá honum hve mikilvægt það er að koma skilamatinu í lag. Í raun er það kannski sá hluti laganna sem hefur ekki verið í lagi allt frá upphafi þess að farið var að fylgja þessum lögum eða frá 1970. Það er nefnilega gífurlega mikilvægt að ríkið sem er svona stór framkvæmdaaðili læri af mistökum og reynslu og árangri af ýmsum framkvæmdum sem unnið er að á vegum ríkisins. Í vaxandi mæli og ekki síst nú á allra síðustu missirum hafa útboðin á vegum ríkisins verið að breytast. Þeir aðilar sem koma að byggingum og framkvæmdum eru gerðir ábyrgari gerða sinna. Því hefur stundum verið haldið fram að það megi margfalda frumáætlun með tveimur eða þremur, fjórum eða fimm til þess að fá út endanlegt verð, en í vaxandi mæli eru núna allir kvaddir til verksins og gerðir jafnvel ábyrgir fyrir niðurstöðunni. Ég hygg að það kunni að vera fróðlegt fyrir nefndina að kynna sér það hvernig staðið er að fyrirhugaðri byggingu hæstaréttarhúss sem er áreiðanlega gott dæmi um nýjung í framkvæmd.

    Varðandi þá þætti sem hv. þm. og tillögumaður ræddi hér sérstaklega þá vil ég láta það koma fram að framkvæmdadeildin hefur nýlega verið að gera samninga við einstök ráðuneyti, nú síðast við heilbr.- og trmrn., um það hvernig samstarfi þess og framkvæmdadeildarinnar eigi að vera háttað. En ég vil lýsa því yfir hér að ég tel það mjög mikilvægt að allar ríkisstofnanir, og þá sérstaklega ráðuneytin, virði þær meginreglur sem eiga við um útboð. Það hlýtur að vera í verkahring stærstu stofnananna eins og Pósts og síma og Vegagerðarinnar að sjá um útboðsstarfsemina á þeirra sviðum en það er alveg bráðnauðsynlegt að ráðuneytin öll virði grundvallarleikreglur útboðanna því aðeins þannig getum við vænst þess að fá þann árangur sem við þurfum á að halda í útboðsstarfseminni.
    Ég fagna því að þessi tillaga er fram komin þó ekki væri nema vegna þess að það gefur færi á að ræða málið við framkvæmdarvaldið í fjárln. og ég tel að það sé mjög góður vettvangur til þess að fulltrúar fjmrn. og stofnananna eins og framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins og jafnvel annarra stofnana sem sjá um sín útboðsmál sjálf geti komið þar saman og rætt um það hvernig gera má betur í þessum efnum.