Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 15:37:15 (736)


[15:37]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er stjfrv. á dagskrá en ráðherrar horfnir úr salnum. Það er mikil spurning hvort þá verði ekki að fresta umræðunni. ( Forseti: Ráðherra er hér til hliðar.)
    Ég vil fyrst segja það að auðvitað er það ekki nema eðlilegur hlutur að menn leitist við að setja ný lög um vegamál. En eitt af því sem vekur athygli hér er sú hugsun sem er eins og rauður þráður í gegnum þetta frv., að í viðskiptum við bændur beri að hafa af þeim land eins og hægt er án kvóta og er það nú ærið umhugsunarefni hver sé ástæðan fyrir þessu. Það er krafist svars við því innan árs, ef menn vilja hefja kröfur á Vegagerðina vegna framkvæmda sem hún hefur gert í þessu og það er ekki gert ráð fyrir því að það sé sjálfgefið litið svo á að óræktað land sé eign. Það er ekki talið sjálfgefið að hægt sé að líta á óræktað land sem eign. Þetta finnst mér í sjálfu sér vera algerlega út í hött.
    Hér er notað orðið ,,veghaldari``, ekki vegeigandi. Skýringin er ákaflega einföld. Vegagerðin er ekki þinglýstur eigandi að landi nema í sárafáum tilfellum, hún er ekki þinglýstur eigandi að landi. Hún vill vera veghaldarinn, hún vill eiga landið án þess að greiða fyrir það. Og ef hún ætti landið undir vegunum þá sæti hún uppi með sömu skyldur og eru á milli tveggja einstaklinga sem eiga land, þ.e. báðir geta krafist þess með árs fyrirvara að girt sé á merkjum og báðir bera jafnan kostnað af viðhaldi girðingarinnar eftirleiðis. Þetta eru þær leikreglur sem gilda á milli einstaklinga. Spurningin er þessi og hlýtur að vera: Hvers vegna telur ríkisvaldið sér aldrei nóg að hafa sama rétt og einstaklingar í skiptum við annan einstakling? Hvers vegna ætlar ríkisvaldið sér alltaf meiri rétt heldur en eðlilegt er talið að einstaklingar hafi í skiptum hver við annan? Þetta er hlutur sem ég held að menn verði að gera upp við sig.
    Vegir voru í upphafi lagðir um sveitir og víðar fyrir farartæki sem fóru mjög hægt. Vörubílar voru þá á 30--40 km hraða. Það stóð engri skepnu hætta af þessu. Það er meira að segja svo að flestar skepnur gætu forðað sér undan þeirri ferð sem skipin eru á ef það væri nú umferðarhraðinn. Svo breytist þetta. Hraðinn verður margfalt meiri. Bithaginn sem einu sinni var ekki hættusvæði fyrir búpening verður að hreinu hættusvæði, bæði fyrir þann sem situr undir stýri á bílnum og fyrir búpeninginn. Þannig hafa hlutirnir verið að breytast og það hafa í sjálfu sér ekki komið fram neinar vitrænar niðurstöður í því hvernig eigi að ná sáttum í þessum málum. Sumar jarðir eru gersamlega vonlausar til búsetu eftir að þar er orðin hraðbraut í gegnum landið.
    Nú veit ég að hæstv. ráðherra er þeirrar gerðar að hann vill grandskoða mál út frá lögum og meta hvað standist að lögum, jafnt stjórnsýslulögum sem öðrum. Og ég hygg að það væri mjög fróðlegt fyrir hæstv. ráðherra að láta skoða þessi mál, ekki með hagsmunagleraugu ríkisins á nefinu heldur hlutlaust eins og ef tveir einstaklingar ættust við eða ef hlutafélag væri að leggja þennan veg, þá yrði að virða leikreglur eignarréttarins sem eru í sjálfu sér eitt af grundvallaratriðum stjórnarskrárinnar. Það þýðir ekki að ætla að setja einhver undirlög sem ætla að troða á þeim rétti eða einhver ákvæði sem eru á þann veg að mönnum sé ætlaður minni tími til að athuga mál sín í þessu sambandi en öðru. Allt er þetta umhugsunarefni.
    Ég vil aftur á móti leyfa mér þótt þess sé hvergi getið hér, að hreyfa örlítið við vegmálum ákveðins kjördæmis, eins og kom nú hér á dagskrá, og líka að leyfa mér að fara örlítið út fyrir það. Fyrst ætla ég að víkja örfáum orðum að Hvalfirði.
    Það er út af fyrir sig ekki skrýtið að menn vilji stytta leið fyrir Hvalfjörð og þá sérstaklega í tíma. Tíminn er það sem skiptir máli og það er eitt og annað hægt að gera til þess að auðvelda það.
    Sú hugmynd hefur verið mjög ofarlega að gera göng undir Hvalfjörð. Fram að þeim tíma hafði verið rætt um brú. Ég er nú þeirrar gerðar að ég skil ekki almennilega hvers vegna menn hafa hafnað þeim hugmyndum að fara í brúargerð í Hvalfirði. Mín hugsun er

sú að það væri eðlilegt að gera það innar í firðinum, við Þyrilsnesið, og það væri jafnskynsamlegt að fara í brúargerð frá Reykjavík yfir Kollafjörð og stytta leið upp á Kjalarnes. Ég hygg að ef þessa tvær framkvæmdir yrðu gerðar, þá yrði niðurstaðan sú að það yrði meiri flýtir tímalega að fara fyrir Hvalfjörð heldur en þær hugmyndir sem nú eru uppi um jarðgöng. Jarðgöngin mundu vera með brekku niður, svo yrði lárétt svæði trúlega og svo yrði brekka upp aftur og menn yrðu að sjálfsögðu að slá mjög af ferð á leið sinni gegnum þessi jarðgöng. En hitt vildi ég gjarnan að ráðherra hugleiddi og það er hversu mikill vatnsleki gæti orðið í þessum jarðgöngum, en nú sýnist mér á öllu að hann sé endanlega horfinn úr salnum, hæstv. forseti. Mér þætti nú vænt um að hann yrði til kvaddur að vera í salnum því það er erfitt að bera fram spurningar til fjarstadds ráðherra. Ég mun nú gera hlé á máli mínu svo að ég trufli ekki forseta við að boða ráðherrann aftur í salinn. (Gripið fram í.) Ég vil fara fram á það við forseta að þagnartíminn sé dreginn frá því það er gert ráð fyrir 15 mínútum sem menn mega tala í þessum stól ( Forseti: 20 mínútum.) eða 20 mínútum, en að sjálfsögðu er ekki ákvæði um þagnirnar. (Gripið fram í.)
    Nú er hæstv. ráðherra kominn í salinn og fyrirspurnin var svohljóðandi: Hefur hann hugleitt hversu mikið vatn gæti lekið niður í þessi göng?
    Nú er það svo að það hefur komið upp í Vestfjarðagöngunum það vandamál að það er fyrst og fremst vatn sem hefði getað heft þar möguleika á jarðgangagerð. Bergið er í lagi en vatnsagi hefur verið þar miklu meiri en menn áttu von á. Það þarf enginn að segja mér að hættan á vatni undir Hvalfirði sé ekki margföld á við það sem er í þeim jarðgöngum, fyrir utan það sem ekki er hægt að horfa fram hjá heldur að þetta er á jarðskjálftasvæði. Og það hlýtur að vera mikil spurning hvort það sé ekki eðlilegt að Vegagerðin láti fara fram mat á því hvort skynsamlegra sé að fara í brúargerð eða í jarðgangagerð. Ég segi þetta vegna þess að mér sýnist að það hafi átt sér stað einstefna í þessu máli. Menn hafa allt í einu slegið því föstu að það væri ekkert nema jarðgangagerð sem kæmi til greina. En þeir vísu menn, Íslendingar, sem áður höfðu talað fyrir því að það væri eðlilegt að fara í brúargerð yfir Hvalfjörð, virðast taldir úreltir með allar sínar hugmyndir.
    Ef ég vík frá þessu og vestur á firði, þá þykir mér eðlilegt að fagna því ef ráðherra treystir sér til að koma á bundnu slitlagi fyrir Ísafjarðardjúp á þremur árum. Síst yrði ég til að leggjast gegn því og auðvitað væri það gífurlega stór áfangi ef það yrði. En nú er það svo að hugmyndir um brú yfir Gilsfjörð hafa vissulega áhrif á hvaða leið er styst til Ísafjarðar, en allt til þessa hafa Vestfirðingar fyrst og fremst mátt horfa á þann þátt hvaða leið er fær allan ársins hring. Og það hafa fleiri mátt búa við það að þurfa fyrst og fremst að horfa á það eina atriði, hvaða leið er fær. Af þeirri ástæðu var tekin ákvörðun um að fara Steingrímsfjarðarheiði úr Ísafjarðardjúpi vegna þess að þar liggur vegurinn upp úr tveimur dölum sitt hvorum megin og það er örstutt á milli dalbotnanna. Mannhætta á þeim vegi er þess vegna miklu minni heldur en á vegi yfir Þorskafjarðarheiði. Þorskafjarðarheiðin er tiltölulega flöt heiði og sá sem færi þar frá bíl í vondu veðri hefur að mínu viti sáralitla möguleika að sleppa lifandi til byggða, sáralitla möguleika. Þar er kennileitalaust svo gott sem og vindur þyrfti ekki annað en breytast til að hann gæti ekki með nokkru móti áttað sig á því hvort hann væri að ganga í rétta átt. Það hafa menn á besta aldri náð byggð mjög þrekaðir með því að ganga frá bíl á Þorskafjarðarheiði í vondu veðri, en það er engu að síður staðreynd að það eru miklu minni líkur á því að menn sleppi lifandi frá slíku tiltæki heldur en með því þá að sitja inni í bílnum og bíða þar þótt þeir þyrftu að bíða einn eða tvo daga í von um að hjálp bærist.
    Varðandi hugmyndir um Kollafjarðarheiði þá er það nú svo að okkur Vestfirðingum hefur fundist að við gætum kannski ekki gert allt í einu og gætum ekki gert kröfu á ríkisvaldið um að gera allt í einu. Þess vegna höfum við litið svo á að það væru tvær leiðir sem við þyrftum að styðja, annars vegar leiðina í gegnum Strandasýslu, yfir í Ísafjarðardjúp um Steingrímsfjarðarheiði og hins vegar leiðina frá Ísafirði gegnum jarðgöngin yfir Önundafjörð og Dýrafjörð niður í Arnarfjörð yfir Dynjandisheiði og þaðan suður. Sú leið ef hún er byggð upp kæmi líka sunnanverðum Vestfjörðum að fullu gagni þar sem eru um 2.000 íbúar. Auðvitað gætum við hugsað okkur að við hefðum það mikla peninga að við

gætum farið í það að byggja þessar heiðar allar upp. Ég ætla ekki að gera lítið úr hugmyndum um að byggja upp Kollafjarðarheiði, mér er ljóst að hún er mjög stutt. Hins vegar er það svo að það getur orðið verulega langt til byggða Breiðafjarðarmegin sé maður að fara í vetrarveðri yfir Kollafjarðarheiði og er kominn þar niður, það er ekki nema einn bær þar á verulega löngu svæði. ( Samgrh.: En komum við nú ekki að minnismerkinu hans Matthíasar Jochumssonar?) Það er nú svo, Halldór minn, hæstv. ráðherra Blöndal, að það mega vera hraustir menn sem ganga alla leið frá Kollafirði að minnismerkinu hans Matthíasar. Nú sé ég að hæstv. ráðherra hefur áttað sig á því að þetta voru gamanmál hjá honum. Auðvitað mundu þeir stoppa í Skálarnesi og í dag mundu þeir stoppa í Múla, en það er eini bærinn sem er í nágrenni við rætur Kollafjarðarheiðar. En fyrsti bær þar var Fjarðarhorn sem er kominn í eyði. Því segi ég þetta að ég hygg að það sé enn ríkt í huga okkar Vestfirðinga að þessi hringleið sem ég var að tala um sé það sem við viljum vinna að að hrinda í framkvæmd.
    Ég get ekki látið hjá líða að minnast á einn veg á Vestfjörðum sem ég vona að hæstv. ráðherra mundi örugglega fást til að flokka undir landsveg. Það er leiðin norður í Árneshrepp. Það er nú svo að sú byggð stendur veikast á Vestfjörðum, þar er náttúrufegurð með ólíkindum mikil. Ég hygg að þangað komi enginn án þess að hrífast og ferðamannastraumur norður eftir hefur verið að vaxa. Hins vegar hefur sá galli verið á gjöf Njarðar varðandi þá aðila sem hafa viljað ferðast norður að hafi þeir ekki verið á jeppabifreið þá hafa þeir verið í hættu með að skemma bílinn á þessari leið. Ég vil bæta því við eftir að Ríkisskip lagði niður þjónustu við dreifbýlið samkvæmt ákvörðun ráðherra má gera ráð fyrir að í vaxandi mæli verði allar vörur að flytjast landveginn norður eftir. Það verður einfaldlega ekki gert nema það verði gert stórátak í að byggja þennan veg upp.
    Sem betur fer er verið að rjúfa einangrun Vestur-Ísafjarðarsýslu. Það er verið að og búið skulum við segja að rjúfa einangrun Bíldudals eða ég vil trúa því. En þessi staður er skilinn eftir og það er ekki verjandi að horfa ekki til þeirra miklu möguleika sem við eigum í tengslum við ferðamennsku með því að byggja upp þennan veg jafnvel þó sumir mundu segja að byggðin stæði tæpt. þá er hægt að minnast á það sem Einar Ben. orðaði svo, spurningin er alltaf þessi: ,,Vilja menn hrinda þeim hrasandi til falls?`` Er það kjarninn í því sem menn vilja gera eða vilja menn styðja við?
    Ég tel þessa byggð útvörð á þessu svæði og ég er sannfærður um að það væri mikill skaði ef Alþingi Íslendinga fengist ekki til að styðja við þessa byggð. Ég hef trú á að hæstv. ráðherra sé sama sinnis, hef ekki ástæðu til að ætla annað, en þarna er vandinn stór og þarna verður að taka á.
    Ég held að þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram með þessu frv. um hvernig eigi að standa að vegalögum í landinu hljóti að fá verulega umfjöllun í nefnd. Þetta er stórmál sem Alþingi hefur ávallt látið sig miklu skipta og ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um við 1. umr. en mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með hvað gert verður í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar.