Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 16:00:08 (738)


[16:00]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég gat um það að tvær aðgerðir mundu stytta leiðina til Reykjavíkur jafnmikið og sú aðgerð sem menn eru að tala um með jarðgöngum, þ.e. annars vegar að fara í brúargerð út frá Reykjavík svo menn komist m.a. skammlaust fram hjá því byggðarlagi sem hæstv. forseti þessa þings er nú búsettur í og hin aðgerðin væri að fara yfir á Þyrilsnesinu. Ég horfi á þetta í tíma. ( Samgrh.: Svo væri kannski að fljúga.) Ráðherra hæstv. leggur nú til að bílarnir fái vængi og menn fljúgi bara. Það er auðvitað langfrumlegasta hugmyndin sem hér hefur komið fram. En það er nú einu sinni svo að það er í tíma sem menn mæla vegalengdir eða fara á milli staða, það er í tíma. Það er alveg tvímælalaust að mesta styttingin í tíma eru þessar tvær aðgerðir. Menn eru mjög fljótir satt best að segja að keyra hinn hluta þessa vegar sérstaklega ef hann yrði breikkaður.
    Varðandi hitt atriðið hvort hætta sé á vatni eða ekki þá hef ég einnig verið að lesa það sem um þetta hefur verið sagt og mér finnst það út af fyrir sig dálítið kómískt að þeir vilja bera ábyrgð á vatninu ofan frá en ekki neðan frá. Ég verð að segja eins og er að mér fannst þetta alveg stórkostlega kómískt þegar ég sá þetta. Og mér er spurn: Hver er ábyrgur ef þessar hugmyndir standast ekki hjá þeim með vatnið? Hver er ábyrgur? Er yfir höfuð hægt að ætlast til þess að þessir ágætu menn sem eru að skoða þetta viti þetta? Ég held bara að þeir viti sáralítið um það.