Eftirlaunaréttindi launafólks

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 11:36:57 (747)


[11:36]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mjög athyglisvert mál og flm. eiga skilið bestu þakkir fyrir það starf sem þeir hafa lagt af mörkum í því að vinna þetta frv. og þá á ég sérstaklega við 1. flm., en hann hefur sýnt það á þinginu áður að þetta er honum mikið áhugamál. Flutningsmenn hafa líka haft vit á því, eins og sést á greinargerð, að leita í sjóð til mjög reyndra manna á tryggingasviðinu sem ég hef einnig haft góða reynslu af því að starfa með.
    Þetta frv. er í grundvallaratriðum samhljóða þáltill. sem ég, ásamt hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, flutti á þinginu í fyrra og endurflutti á þessu þingi. Ég vænti þess að í umræðunni á undan, hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni, hafi hann verið að vísa til þessarar þáltill. Tilvist hennar virðist eitthvað vefjast fyrir honum og trufla hann aðeins í ræðunni, þótt hann vildi ekki gera það að neinu deilumáli eða ásteitingarsteini, hver hefði átt upphaflegu hugmyndina. Ég held að við sem sitjum á Alþingi í dag getum ekkert okkar talist hafa verið málshefjendur í þessu máli. Þetta mál á langa sögu og eins og kemur fram í grg. með frv. þá var skipuð mjög stór nefnd, 17 manna nefnd, árið 1976 til þess að hefja endurskoðun á þessu máli.
    Það kom mér hins vegar svolítið á óvart og reyndar fannst mér það leiðinlegt að hv. formaður efh.- og viðskn. sem nú er farinn úr salnum, það kom fram í frammíkalli hjá honum, hann vissi ekki um þessa till. til þál. sem ég og hv. varaformaður efh.- og viðskn. höfum lagt fram í þinginu. Mér þótti það þeim mun leiðinlegra þar sem hv. formaður efh.- og viðskn. steig í pontu og ræddi þetta mál af nokkurri kunnáttu að hann skyldi ekki hafa fylgst betur með því sem hér fer fram í þingsölum.
    En fyrir þessari tillögu var mælt 7. október sl. og henni var vísað til hv. efh.- og viðskn. þann 11. október sl. Síðan þá hef ég upplýsingar um það að nefndin hefur hist a.m.k. fimm sinnum og málið hefur ekki enn þá verið tekið á dagskrá og ekki verið sent út til umsagnar. Ekki veit ég hvað tefur málsmeðferð nefndarinnar en mér er það alveg að meinalausu að þessi tvö þingmál verði nokkuð samferða í umfjöllun nefndarinnar. Ég vona að það að hv. þm. Finnur Ingólfsson minntist á þessa tillögu í ræðu sinni, komi hv. formanni efh.- og viðskn. til þess að kynna sér hvaða mál er hér á ferðinni.
    Það er tekið á ýmsum vandamálum í þessu frv. og sums staðar sýnist mér að þau séu tekin nokkuð föstum tökum og ég get út af fyrir sig séð fyrir mér að löggjöfin gæti verið í nokkuð frjálsara formi heldur en í frv. er gert ráð fyrir. Ég held að það sé þó ekki ástæða til þess að tefja umræðuna að sinni meira um þetta atriði. En ég óska þess að þetta mál fái mjög góða og vandaða meðferð í nefndinni og að sú málsmeðferð muni leiða til þess að við fáum fljótlega betri og réttlátari löggjöf í lífeyrismálum hér á

landi og það verði ekki til þess að tefja málið, að það vefjist fyrir einhverjum hverjir fluttu tillögur um mál sem þetta fyrst og hverjir voru á eftir.