Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:05:27 (790)


[14:05]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé greinilegt að tvítaka þurfi suma hluti ofan í hv. 11. þm. Reykv. Ég vakti einfaldlega athygli á þeirri staðreynd að það hefur komið glögglega í ljós í öllum kosningarannsóknum og skoðanakönnunum að það er einfaldlega afstaða þjóðarinnar að breyting á kjördæmaskipan og kosningalögum sé ekki eitt af hinum stóru málum sem brýnast sé að ráðast í. Það var það sem ég var að vekja hér athygli á og gerði að nokkru umtalsefni.
    Ég fagnaði því hins vegar í ræðu minni að þetta mál væri dregið inn á dagskrá þjóðmálaumræðunnar og hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga. Hitt er það að hv. þm. fór síðan nokkrum orðum um nauðsyn þess að breyta núverandi kosningafyrirkomulagi og ég ræddi það alveg sérstaklega í ræðu minni að það væri ekki hægt að búa við þetta kosningafyrirkomulag eins og það er í dag. Ég er honum hjartanlega sammála um það, eins og margfaldlega kom fram í ræðu minni hér áðan og ég undirstrikaði alveg sérstaklega, að þetta kosningakerfi eins og það er í dag er í eðli sínu flókið og ógagnsætt og lítt skiljanlegt öllum almenningi í landinu. Það er í sjálfu sér óásættanlegt og að mínu mati verður að gera þær kröfur til kosningakerfis og kjördæmaskipunar að hún sé með þeim hætti að öllum almenningi sé þetta ljóst og það tel ég að sé meginástæðan fyrir því að ástæða sé að taka þetta til endurskoðunar.