Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:28:11 (800)


[14:28]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel mig knúinn til þess að benda hv. 4. þm. Norðurl. e. á það að í tillgr. er talað um það að sérstaklega eigi að skoða þetta í því samhengi að verið sé að flytja vald og áhrif til byggðanna. Og ef hv. þm. hefði nú hlustað á framsögu mína þá hefði hann heyrt þar að ég lagði á það höfuðáherslu að einmitt þetta væri lykilatriði til þess að skoða þessa leið.

    Ég get alveg tekið undir það að á einhverju stigi hlýtur þetta mál að koma á þann vettvang að það verði formenn og forustumenn stjórnmálaflokkanna sem fjalla um það. Ég sé hins vegar ekkert athugavert við það og taldi það bráðnauðsynlegt að þessu máli, þ.e. kjördæmamálinu, væri hreyft hér á Alþingi og í þeim tilgangi flutti ég þessa tillögu, til þess að fá hér málefnalega umræðu um þetta mál, ekki flokkspólitískar erjur einfaldlega vegna þess, eins og hér er komið fram, að skoðanir í þessu máli gagna þvert á alla stjórnmálaflokka.
    Að lokum, virðulegi forseti, einhverra hluta vegna er það nú samt svo að það að ég skyldi leyfa mér að flytja þessa tillögu virðist pirra forustumenn stjórnmálaflokkanna eilítið og ég gat ekki að því gert að mér fannst þess gæta eilítið í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. áðan, varaformanns Alþb.