Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:02:09 (816)


[15:02]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get sagt það að auðvitað eru allir alþýðubandalagsmenn ábyrgir fyrir öllu því liði sem þeir kjósa á þing og ég tel að menn hafi ekki öðruvísi afstöðu til þess heldur en þeir sem hafa kosið Kvennalistann. En það að ég tók dæmi með Kvennalistann var sérstaklega vegna þess að hann er í þeirri stærð akkúrat í dag að hann á ekki þingmenn í öllum kjördæmum landsins. Við höfum líka verið í þessari stærð. Ég held því ekki fram að þingmenn Kvennalistans sinni ekki sínu starfi og hafi ekki samband við fólkið í þeim kjördæmum sem þær hafa ekki fulltrúa í. En ég veit það vegna þess að ég er þingmaður í kjördæmi þar sem Kvennalistinn á ekki þingmann að þær sem sinna málum Kvennalistans t.d. á Vesturlandi geta ekki nálægt því haft sömu möguleika til þess að sinna þeim eins og þingmennirnir úr Vesturlandi gera. Og ég hef t.d. aldrei orðið var við það að boðaðir hafi verið á fundi þingmenn Kvennalistans sem væru þá að sinna t.d. Vesturlandi sem þyrfti auðvitað að vera, ef flokkur ætti að geta sinnt sínu hlutverki eins og helst ætti að vera. Ef landið væri eitt kjördæmi þá liti viðkomandi þingflokkur á sig sem apparat til þess að sinna öllu landinu og það yrði auðvitað sett á hlutverk einstakra þingmanna að sinna ákveðnum landsvæðum þannig að það yrði öðruvísi staðið að þessum málum.