Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:24:36 (823)

[15:24]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að lýsa ánægju minni með það sem kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni. Ég held að þetta sé líka til vandræða og ég get alls ekki skilið t.d. hvernig sjálfstæðismenn hugsa sér það ef þeir ætla að fækka þingmönnum niður í 50 og ef þeir ætla síðan að taka, við skulum segja að þeir taki ekki nema 8 ráðherra úr þeim hópi, eftir sætu hérna 42 þingmenn og eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir benti á, þá er mikið alþjóðlegt starf í gangi. Ég veit ekki hversu margir þeir þingmenn eru sem eru í einhverjum alþjóðlegum nefndum, en það mætti segja mér að það væri nánast daglegt brauð að hér væru einhverjir þingmenn fjarverandi vegna starfs að alþjóðamálum. Þannig fæ ég ekki alveg séð hvernig á að manna þau störf sem hér eru unnin með þessum hætti. En þetta er hugmynd sem ég, og við kvennalistakonur höfum reyndar áður viðrað, að það sé rétt að taka inn varamenn þegar þingmenn verða ráðherrar og hafa þá varamenn inni í staðinn. Ég vil benda á það að þegar varamenn koma inn þá fjölgar verulega í hópi kvenna á þingi vegna þess að þær eru yfirleitt í þessum sætum fyrir neðan öruggu sætin. Þannig að um leið og öruggu sætin fara út annaðhvort til æðri metorða í stjórnkerfinu einhvers staðar eða hætta á þingi þá koma fleiri konur inn á þing.