Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 16:22:11 (845)

[16:22]
     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Svo sem margsinnis hefur komið fram í þessum umræðum þá fjallar tillaga þessi um að efna til könnunar á kostum þess að gera landið að einu kjördæmi í kosningum til Alþingis. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hv. flm. aðhyllast þessa leið og láta þess getið að það kunni að vera sú leið sem best sátt geti náðst um og í framsöguræðu sinni sagði hv. 1. flm. að áhugi í öllum stjórnmálaflokkum sé á þessari leið.
    Ég verð að segja það að þessi ummæli komu mér nokkuð á óvart og þau boða kannski einhverja nýlundu. Ég minnist þess að þegar núverandi kjördæmaskipan var tekin upp í grundvallaratriðum 1959, þá komu fram hugmyndir um það af hálfu forustumanna Alþfl. að þessi leið gæti verið til athugunar en þeir féllu frá því þegar í ljós kom að enginn hinna stjórnmálaflokkanna vildi taka undir það og þeir beittu sér ásamt Sjálfstfl. og raunar með stuðningi Alþb. fyrir þeirri kjördæmaskipan sem síðan var lögfest á því ári og hefur í grundvallaratriðum gilt síðan.
    Á því tímabili sem síðan er liðið hafa raddir verið tiltölulega fáar þess efnis að fara þessa leið. Þær hafa þó einstöku sinnum verið viðraðar af einstökum flokksmönnum Alþfl. en ekki svo orð sé á gerandi fyrr en nú með flutningi þessarar tillögu og ég segi það eins og það liggur fyrir að ég man ekki eftir því að hafa heyrt raddir í þessa átt af hálfu minna flokksmanna fyrr en eftir að þessi tillaga var flutt hér á hinu háa Alþingi. Hv. flm. hafa þess vegna komið af stað umræðu um þessa leið sem legið hefur í þagnargildi að mestu leyti í öll þessi ár.
    Ég vil láta þess getið hér í þessum ræðustól að ég er þessari leið gjörsamlega andvígur og tel hana lakari en aðrar leiðir sem til greina koma eða a.m.k. flestar ef ekki allar leiðir sem til greina koma við breytingu á kjördæmaskipun og kosningalögum. Ég ætla ekki að rökstyðja þetta í mörgum orðum en það hefur verið sagt hér sem ég geri einnig að mínum orðum að þessi leið felur í sér mjög aukið flokksræði. Hún felur það í sér að miðstýring vex af hálfu þeirra sem fara með forustu í stjórnmálaflokkunum. Að sama skapi dvína eða verða fyrir borð borin áhrif hinna almennu flokksmanna og mér liggur við að segja hins almenna kjósanda því að flestir þeirra eru einhvers staðar í flokki.
    Það er sem sagt af hálfu flokksstjórna sem því verður ráðstafað hverjir skipa framboðslista og það vaxa stórkostlega áhrif þeirra sem fara með forustu í flokkunum á það hvernig Alþingi verður skipað. Ég er sem sagt gjörsamlega andvígur þessari leið. Ég hef alla tíð verið hlynntur þeirri leið sem er lengst frá þessari. Hér sagði hv. 3. þm. Reykn. í dag, þar sem hann vitnaði til ályktunar landsfundar Sjálfstfl., að einmenningskjördæmi hefðu alltaf átt sterkan hljómgrunn í Sjálfstfl. Ég verð að segja að ég tel að það hafi ekki verið gott þegar kjördæmaskipuninni var breytt 1959 að a.m.k. tveir stærstu flokkar þjóðarinnar skyldu ekki geta náð samkomulagi um að taka upp einmenningskjördæmi. Kostir þess eru að mínum dómi ótvíræðir. Það yrði hreinni skipan stjórnmála og á stjórn landsins á Alþingi. Það er tvímælalaust að það kerfi mundi leiða til þess að Alþingi yrði betur skipað vegna þess að þeir sem ekki standa sig sem alþingismenn í einmenningskjördæmi mundu falla í hvaða flokki sem þeir eru. Það er reynsla fyrir því í sumum þeirra þjóðlanda sem lýðræði og stjórnskipan hefur verið í hvað bestu og traustustu horfi þá hefur þetta kerfi verið við lýði.
    Hér var sagt af talsmönnum Kvennalistans að það kerfi mundi koma í veg fyrir það eða torvelda mjög að konur kæmust til áhrifa í stjórnmálum. Ég held að þetta sé mikið vanmat hv. talsmanna Kvennalistans á konum sjálfum. Er skemmst að minna á það að sú kona sem reynst hefur mestur stjórnmálaskörungur á síðari tímum í Vestur-Evrópu var kjörin og hvað eftir annað kjörin í einmenningskjördæmi. Þar á ég að sjálfsögðu við Margréti Thatcher. Þannig að það er ástæðulaust að ætla að ekki geti risið upp konur í stjórnmálum sem rísi undir því trausti sem þarf á meðal kjósenda til að vera kosin í einmenningskjördæmi. Það er ástæðulaust vantraust á konur.
    Ég tel því miður að það séu ekki miklar líkur til þess að það náist samkomulag um þessa leið. Þó er það ekki örvænt og ég vil láta kanna það. En ég tel einnig að ef það næst ekki þá komi til álita að stofna til kjördæma þar sem kosnir eru tveir til þrír þingmenn í hverju kjördæmi og með því skipulagi megi ná mjög mörgum af þeim kostum sem einmenningskjördæmum fylgja. Að sjálfsögðu mundi ekki nást samkomulag um slíkt fyrirkomulag án þess að taka upp landslista og sú leið var m.a. skýrð af formanni stjórnarskrárnefndar, hv. 1. þm. Vestf., hér áðan í ræðu hans. Ég tel að þessa leið beri að sjálfsögðu að kanna mjög rækilega, einnig ef eigi næst fram það sem ég tel best í þessu og ég hef hér lýst.
    Ég held að það sé eðlilegt að þess verði freistað nú á síðari hluta þessa kjörtímabils að vinna það verk sem þarf til þess að reyna að ná samkomulagi um þessi mál. Að sjálfsögðu er það eðlilegt að það sé gert undir forustu Sjálfstfl. hvort tveggja fyrir þá sök að hann fer með forustu í landsmálum og er stærstur stjórnmálaflokkanna. ( ÓÞÞ: Það má nú deila um það.) Ég tel að þetta segi sig sjálft. En ég tel að það

sé hlutverk okkar að reyna að ná um það samkomulagi á sem víðustum grundvelli á milli stjórnmálaflokkanna allra.