Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 16:36:33 (850)


[16:36]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er hrædd um að við kvennalistakonur og sjálfstæðismenn verðum seint sammála um einmenningskjördæmi hér á Íslandi. Ég vil mótmæla þeirri skoðun sem fram kom í máli hæstv. ræðumanns að þeir sem ekki standi sig í einmenningskjördæmum einfaldlega falli. Það sýnir okkur reynslan frá Bretlandi og nú síðast frá Kanada að stjórnmál eru auðvitað fyrst og fremst spurning um stefnur og hugmyndir en ekki einstaklinga þótt einstaklingarnir skipti að sjálfsögðu miklu máli. Kjósendur í Kanada voru fyrst og fremst að hafna stefnu Íhaldsflokksins og ætti Sjálfstfl. að draga lærdóm af því.
    En þessi einmenningskjördæmi sem hv. þm. heldur svo fast í eru einfallega óréttlátt kerfi, þetta er mjög óréttlátt kerfi, og var ekki að ástæðulausu að það var afnumið hér á landi. Menn hafa verið að berjast gegn því áratugum saman í Bretlandi enda held ég að það sé leit að jafnóréttlátri skiptingu þingsæta

og þar í landi.
    Hv. þm. kom inn á þá fullyrðingu að þetta kerfi væri konum óhagstætt. Það sýnir einfaldlega reynsla frá öllum löndum, það hafa verið gerðar miklar rannsóknir á kosningakerfum um alla Evrópu, og þarna eru aðrir kraftar á ferð en verðleikar einstaklinganna. Það er verið að slást um völd og áhrif og þar hafa karlmenn einfaldlega sterkari stöðu en konur. Þar af leiðandi felst ekkert vanmat á konum í því að hafa ekki trú á einmenningskjördæmum. Þetta er kerfi sem alls staðar hefur leitt af sér að karlmenn eru svona um það bil 90%--95% þingmanna og konur eiga einfaldlega mjög erfitt uppdráttar. Þetta er dýrt kerfi og fyrir utan það að vera óréttlátt, fólk þarf að leggja í mikinn kostnað við að koma sér áfram og að auglýsa sig. Það er nú einu sinni svo að karlmenn eru yfirleitt bæði betur launaðir og ríkari en konur og þetta er kerfi sem fyrst og fremst þjónar þeim. Þess vegna höfnum við kvennalistakonur einmenningskjördæmahugmyndinni.