Leigutekjur af embættisbústöðum

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:53:29 (930)

[16:51]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegur forseti. Um langt skeið hefur það tíðkast að tilteknir embættismenn á nokkrum stöðum hafi fengið til afnota embættisbústaði frá hinu opinbera. Mér er ekki kunnugt um hvaða reglur gilda um slíka embættisbústaði í smáatriðum en býður í grun að í tímans rás hafi þær reglur orðið nokkuð óljósar eins og gengur.
    Embættisbústaðir eru fáheyrðir hér á höfuðborgarsvæðinu þó vissulega fyrirfinnist þeir. Á landsbyggðinni hefur ríkið lagt tilteknum embættismönnum til íbúðarhús, embættisbústaði. Þetta á m.a. við um lækna, presta, sýslumenn, skattstjóra, héraðsdóma og e.t.v. nokkra fleiri. Umfang þessarar starfsemi sést m.a. á hinni svokölluðu 6. gr. fjárlaganna þar sem æði eru fyrirferðarmikil að jafnaði áform ríkisins um kaup og eða sölu á embættisbústöðum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta fyrirkomulag hefur verið til góðs. Með því að unnt hefur verið að útvega þessa embættisbústaði hefur verið hægt að tryggja að fengist hafa til starfa hæfir embættismenn, oft til langs tíma. Það er einu sinni svo að eðli málsins samkvæmt flytja embættismenn oft á milli embætta, byrja gjarnan í minni embættunum en sækja síðan um þau stærri og ábyrgðarmeiri. Sérstaða embættismannanna er því allmikil og af þeirri ástæðu getur verið nauðsynlegt að þeim sé látið í té íbúðarhúsnæði af vinnuveitanda sínum, ríkinu. Þegar það bætist við að víða út um landið er íbúðamarkaðurinn afar veikur er alls ekki óeðlilegt nema síður sé að embættisbústaðir á vegum ríkisins séu til staðar.

    Gallinn við þetta fyrirkomulag hingað til hefur verið sá að skort hefur á að samræmi væri við framkvæmdina. Má í því sambandi nefna einkum tvennt. Fyrir það fyrsta hefur a.m.k. í hugum heimamanna ekki verið alveg klárt hvenær og af hvaða tilefni menn eigi rétt á embættisbústað. Í annan stað hefur komið í ljós að leigu- og afgjöld embættismanna af bústöðunum hafa verið með ýmsum hætti og án innra samræmis. Þetta hefur valdið ýmiss konar togstreitu og jafnvel samanburði sem í alla staði er afar óæskilegur. Það er því fagnaðarefni sem fram kemur í greinargerð fjárlagafrv. fyrir næsta ár, árið 1994, að í byrjun þessa árs, ársins 1993, hafi tekið gildi endurskoðaðar reglur fyrir embættisbústaði. Þar er sérstaklega vakin athygli á því að viðhaldi og endurbótum þessara eigna hafi verið mjög ábótavant og er það því miður ekki ofmælt.
    Sú stefna hefur nú verið tekin upp að halda húsnæðinu við með leigutekjum og mun sú regla líka verða látin gilda um embættisbústaðina.
    Ég hef því leyft er að leggja fyrir hæstv. fjmrh. eftirfarandi spruningar:
  ,,1. Hverjar voru heildarleigutekjur af embættisbústöðum árið 1992 og hverjar er áætlað að þær verði á þessu ári og því næsta, á sambærilegu verðlagi?
    2. Hvaða breytingar hafa verið gerðar á leigugreiðslum vegna embættisbústaða?``