Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:50:42 (970)

[15:50]
     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú kannski ástæðulaust að vera a teygja lopann í þessum umræðum, en hitt er alveg ljóst að það er ekki rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði að hér væru til umfjöllunar húsaleigubætur. Þær eru það ekki. Það er allt annað mál sem hér er til umræðu, þ.e. lög um húsaleigu, húsaleigusamninga og það sem þeim tengist. Þessar bætur eru annað mál sem mundu væntanlega koma í sérstöku frv. ef af yrði og þær tengjast auðvitað náið fjárlagaundirbúningi og fleiru af þeim toga þannig að ég held að ekkert þurfi að fjölyrða frekar um það. En ég fagna því sem fram kom í máli hv. ræðumanns að hann er sammála þeirri stefnu sem er í frv. til húsaleigulaga, getur fellt sig við það mál og þá vona ég að hann greiði fyrir því að það nái fram að ganga sem fyrst með störfum sínum í félmn.