Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:58:58 (1044)

[14:58]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ekki bætti nú hæstv. samgrh. málstað sinn eða málflutning því hann ræddi það hér áðan sjálfur í ræðu sinni að nefnd þingmannanna hefði verið til málamynda. Spurði hvort stjórnarandstaðan hefði viljað koma til málamynda að smíði þessa frv. Ég tók það beint upp og ég spurði því hvort hans menn hefðu setið til málamynda.
    Hann segir að það séu ekki mannasiðir að skrifa undir samninga þremur dögum fyrir kosningar. Ég held að þessi hyggni hæstv. ráðherra ætti nú að hafa allan fyrirvara á sér og hætta að skrifa undir samninga því það geta auðvitað brostið á kosningar hvenær sem er. Við hættum ekki að lifa og við hættum ekki að starfa þó kosningar séu fram undan. Herjólfsvinnan var búin að standa mánuðum og árum saman. Þarna kom að lokapunkti og áttu menn þá að snúa frá og hætta við að skrifa undir? Auðvitað urðu menn að ljúka þessu máli og sem betur fer var pólitísk samstaða hér á Alþingi, eins og ég hef farið yfir. Og ef við tölum við heimamenn í Vestmannaeyjum þá eru allir sammála um að skipið er gott, það er ástæðulaust að deila um það lengur, og mönnum gremst þegar hæstv. samgrh. viðhefur þær dylgjur sem hann viðhafði hér í fyrri viku og ég fór yfir. Því auðvitað kalla ég það ekkert annað en dylgjur að slá því fram að svo illa hafi verið staðið að kaupum og smíði á þessu skipi að það hefði verið betra að leggja út í lífshættulega jarðgangagerð á milli lands og eyja sem hefði kostað tugi milljarða og er sennilega eins og ráðherrann sagði sjálfur óframkvæmanleg.