Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 13:02:19 (1084)

[13:02]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það var gott að fá þessa útskýringu hjá ráðherranum. En það er þetta með íslensku hagsmunina eða andstöðuna við íslenska hagsmuni og og matið á því hvað eru íslenskir hagsmunir. Hér áðan gerði ráðherra sjálfur að umræðuefni mismunandi mat sitt og hv. 6. þm. Norðurl. e. á hvað væru hagsmunir Íslendinga. Ráðherrann telur að það séu hagsmunir Íslendinga að taka atvinnu frá bændum og auka enn á atvinnuleysi í landinu. Hv. 6. þm. Norðurl. e. telur að svo sé ekki. Þetta getur orðið deiluefni á hverjum tíma og ekki síður í sjávarútvegi hvað eru íslenskir hagsmunir og hvað ekki.