Seðlabanki Íslands

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 14:05:55 (1099)


[14:05]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þetta mál hefur að minnsta kosti tvær hliðar. Önnur er sú að það er vissulega fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli loksins vera lögð af stað við að fækka bankastjórum í Seðlabankanum. Ég hef fyrir hönd okkar alþýðubandalagsmanna á annað ár talað fyrir því í þessum ræðustól. Því hefur ætíð verið hafnað þar til nú. Hin hliðin á þessu máli er sú að hver einasta setning í greinargerð þessa frv., sem rökstuðningur fyrir því að ráða nú ekki í þá stöðu sem losnar um áramót, hefði verið fullgild í sumar þegar ákveðið var að ráða í aðra lausa stöðu. Það er ekki ein einasta setning í greinargerðinni sem ekki hefði átt við í sumar. Það sem hæstv. ráðherra á eftir að útskýra fyrir þinginu er hvers vegna þær röksemdir sem hann beitir nú áttu ekki við í sumar. Mun ég koma að því eftir nokkrar mínútur.
    Ég vil fyrst rekja það hér að í bankaráði Seðlabankans 15. jan. 1991 flutti fulltrúi Alþb. í bankaráðinu, Geir Gunnarsson, svohljóðandi tillögu, með leyfi forseta:
    ,,Með tilvísun til væntanlegrar endurskoðunar á lögum um Seðlabanka Íslands og þess að í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að þrír bankastjórar starfi við bankann leggur bankaráðið til við viðskrh. að hann skipi einn af aðstoðarbankastjórum Seðlabankans til þess að gegna störfum bankastjóra á meðan endurskoðun fer fram á lagaákvæðum um stjórnskipun Seðlabankans.``
    Þessi tillaga fulltrúa Alþb. í bankaráðinu var felld með atkvæðum stjórnarflokkanna. Og síðan var gengið í það að skipa þáv. alþingismann Birgi Ísleif Gunnarsson bankastjóra Seðlabankans. Sú endurskoðun á lögum Seðlabankans sem þarna er vísað í í tillögu Geirs Gunnarssonar í jan. 1991 stendur enn, hæstv. ráðherra. Séu það einu rök ráðherrans fyrir því að ráða ekki nú í bankastjórastöðuna að verið sé að endurskoða lög Seðlabankans þá voru þau rök í fullu gildi í janúar 1991 þegar Alþfl. og Sjálfstfl. ákváðu að ráða Birgi Ísleif Gunnarsson sem seðlabankastjóra og þeir hittust sérstaklega á fundi út af því, núv. hæstv.

ráðherrar Davíð Oddsson og Þorsteinn Pálsson og formaður Alþfl. Jón Baldvin Hannibalsson ásamt þáv. viðskrh. Jóni Sigurðssyni. Það er staðreynd. Forustumenn Sjálfstfl. og Alþfl. hittust á fundi út af þeirri bankastjóraskipan. Og þessi endurskoðun stóð enn frekar í sumar þegar forustumenn þessara sömu flokka ákváðu að ráða annan þingmann, þáv. viðskrh. og alþingismann Jón Sigurðsson, í bankastjórastól í Seðlabankanum. Það er ekkert nýtt, hæstv. ráðherra, að verið sé að endurskoða lög Seðlabankans, það er búið að vera verkefni síðan veturinn 1990 og veturinn 1991 og er enn ekki lokið. Þess vegna finnst mér greinargerð þessa frv. vera eins og sjálfsháð hæstv. ráðherra á sínum eigin verkum sl. sumar.
    Í maí 1993, þegar til umræðu var að auglýsa þá stöðu sem losnaði þegar Jóhannes Nordal ákvað að hætta störfum í bankanum, þá lýsti Geir Gunnarsson enn á ný í bankaráðinu að hann teldi óþarfa að ráða í þá stöðu, endurskoðun laganna stæði enn og það væri fyllilega hægt að láta Birgi Ísleif Gunnarsson gegna störfum seðlabankastjóra án þess að nokkur annar væri þar við hlið á meðan endurskoðunin færi fram og meðan menn væru að koma sér saman um það hvaða skipan ætti að vera á stjórnkerfi Seðlabankans. Enn á ný höfnuðu fulltrúar Alþfl. og Sjálfstfl. þessum sjónarmiðum. Þegar það blasti svo við í síðasta mánuði að Tómas Árnason mundi hætta um áramót, þá lýstu fulltrúar þessara flokka, Alþfl. og Sjálfstfl., því enn á ný yfir í bankaráðinu að þeir vildu ráða í stöðuna. Fulltrúi Alþb. í bankaráðinu lýst hins vegar þeirri skoðun sem hefur verið okkar afstaða nú í rúm tvö ár að það ætti að leggja þetta kerfi til hliðar, það ætti ekki að ganga í það með þeim hætti sem gert hefur verið, bæði þegar hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og hv. þm. og ráðherra Jón Sigurðsson voru ráðnir í bankann. Eftir að þessi hugmynd í þriðja sinn fékk daufar undirtektir, þá ákváðum við í þingflokki Alþb. að ég mundi tilkynna forustumönnum úr öðrum flokkum að það væri okkar skoðun að það ætti ekki að ráða í þessa bankastjórastöðu. Ég tilkynnti það sjónarmið okkar hv. þm. Steingrími Hermannssyni fyrir tæpum tveimur vikum og hafði síðan samband við hæstv. forsrh. og tilkynnti honum einnig að það væri okkar afstaða að það ætti ekki að ráða í þessa bankastjórastöðu og við lýstum okkur reiðubúna til þess að mynda breiða samtöðu um það.
    Hæstv. forsrh. tók sér frest til þess að skoða málið, m.a. vegna fjarveru hæstv. utanrrh. sem var erlendis með forseta Íslands, og ég hafði síðan samband við forsrh. á mánudagsmorguninn í þessari viku. Hann tjáði mér að það hefði fengið góðar undirtektir að ráðstafa málinu með þessum hætti, en jafnframt væri kannski rétt að hafa það um sinn milli manna án þess að það væri tilkynnt opinberlega.
    Það næsta sem gerist síðan í málinu er að hæstv. viðskrh. og stjórnarflokkarnir ákveða eða hafa kannski verið búnir að ákveða þennan mánudag að leggja fram þetta stjfrv. --- og það er nú misskilningur hjá hv. þm. Páli Péturssyni að ég hafi samið frv. Ég á kannski einhvern hlut í aðdraganda þess með því að lýsa enn á ný þeirri skoðun okkar alþýðubandalagsmanna sem hefur verið okkar skoðun um langa hríð eins og ég hef vitnað til. En það er í algerri andstöðu við okkur að í þessu frv. sé reiknað með að staðan komi aftur inn 1994 og við munum flytja brtt. um að sá þáttur í frv. falli út.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að taka þátt í þeim leik hv. þm. Páls Péturssonar að leiða getum að því að núv. hæstv. viðskrh. ætli sér þessa stöðu. En ég get þó rifjað það upp að ég spurði hér alloft á síðasta þingi þáv. hæstv. viðskrh., sem kom einnig til þingsins með frv. til laga um Seðlabanka, hvort hann væri að koma til þingsins með frv. sem hann ætlaði sér svo sjálfur að starfa eftir sem fyrsti seðlabankastjóri sem starfaði eftir því frv. Hann fékkst aldrei til að svara því skýrt. Og ég tel það fullkomið brot á öllum eðlilegum reglum gagnvart þjóðþingi að þáv. hæstv. viðskrh. skuli virkilega hafa hagað sér þannig að leggja fyrir þingið í fyrra frv. um nýskipan Seðlabankans og hafandi þá þegar verið orðinn staðráðinn í því að fara sjálfur í bankann.
    Ég vil líka segja það hér alveg skýrt, ég tel að aðdragandi þess að Jón Sigurðsson er valinn bankastjóri, allur sá ferill, öll framganga hans í því máli og það sem síðan hefur gerst sé auðvitað allt á þann veg að hann hefur glatað öllum möguleika á því að eiga þá tiltrú sem seðlabankastjóra er nauðsynleg. Ég var ekki alltaf sammála skoðunum dr. Jóhannesar Nordals meðan hann var seðlabankastjóri, bæði áður en ég var fjmrh. og eins meðan ég var fjmrh. og eftir. En ég bar ávallt traust til Jóhannesar Nordals að hann starfaði af heilindum. Honum var fullkomlega frjálst að hafa aðrar skoðanir en fjmrh. og ég tala nú ekki um aðrar skoðanir en ég meðan ég var þingmaður eða utan þings. En ég dró aldrei í efa heilindi hans og það var hægt að bera til hans tiltrú. Ég dreg hins vegar í efa heilindi núv. aðalbankastjóra Seðlabankans, Jóns Sigurðssonar. Og það er auðvitað þannig, hæstv. viðskrh., og best að segja þá hluti alveg skýrt, að aðdragandi þessa máls er orðinn á þann veg, þ.e. málsins um endurskoðun laganna um Seðlabankann, að þingið getur ekki tekið á því máli með eðlilegum hætti meðan það liggur fyrir að sá sem eigi að stjórna bankanum eftir þeim lögum, verði Jón Sigurðsson. Það verður ekki hægt að fá frið hér í þinginu að afgreiða nauðsynlegar lagabreytingar á Seðlabankanum með þeim hætti því það er einu sinni þannig að hvað sem líður lagatexta og hvað sem líður skoðunum, þá er frumatriði að seðlabankastjóri þjóðar njóti þess sem á ensku er kallað ,,credibility`` og ég vil hér kalla tiltrú. Sá einstaklingur sem ekki nýtur þess, alveg sama í hvaða flokki hann hefur verið, getur ekki gegnt þessari stöðu svo að vel sé. Og ég tel að ef núverandi aðalbankastjóri Seðlabankans ætlar að eiga einhverja von til þess að öðlast þá tiltrú með nægilega víðtækum hætti, þá verði hann að vinna hana á næstu mánuðum og missirum. Og því miður er það þannig að jafnvel atburðir síðustu daga varðandi ákvarðanir hans að hafa verðbréfaþingið opið síðasta föstudag í ljósi þess sem vitað var, vekur einnig upp spurningar um beina hæfni til þess að stýra bankanum.
    Virðulegi forseti. Ég vil koma á framfæri hér við 1. umr. þeim tilmælum til hæstv. viðskrh. að

hann taki nú upp samvinnu við alla flokka hér á Alþingi um endurskoðun laganna um Seðlabanka Íslands. Það er auðvitað ekki við hæfi að lögin um Seðlabankann séu talin einkamál þeirra flokka sem nú eru í ríkisstjórn og eru komin á seinni hluta síns kjörtímabils. Við getum ekki komið þannig skipan á í landinu að ný ríkisstjórn telji sig knúna til þess að stokka Seðlabankann upp strax við nýja valdatöku vegna þess hvernig fráfarandi ríkisstjórn gekk frá lögunum við bankann, vann að þeirri lagabreytingu og skipaði í bankann. Hæstv. ráðherra var í umræðu um frv., sem var á dagskránni hér áðan, að víkja að þeirri skýringu á því hvers vegna erlendir fjárfestar sæktust ekki eftir því að koma hingað til Íslands að hér ríkti óstöðugleiki í afstöðu stjórnvalda til erlendrar fjárfestingar. Staða Seðlabankans er líka þáttur í slíku mati og þar ber að líta bæði á lögin og þá menn sem valdir eru. Við alþýðubandalagsmenn höfum lýst þeirri afstöðu okkar að við teljum æskilegast að það sé einn bankastjóri en hann á ekki að vera skipaður flokkslega, hann á ekki að vera skipur vegna flokkslegra tengsla við þann ráðherra sem fyrir tilviljun situr í embætti þegar staðan losnar. Og ég er ósammála mínum ágæta vini, hv. þm. Páli Péturssyni, að nauðsynlegt sé fyrir stjórnmálaflokk að eiga bankastjóra í Seðlabankanum. Ég tel það ekki nauðsynlegt. En ég tel hins vegar nauðsynlegt að sá maður sem gegnir stöðu seðlabankastjóra hafi þá hæfni og þá persónulegu tiltrú að hann starfi á grundvelli þeirrar stefnu sem ríkjandi er í þjóðfélaginu og að því leyti starfi hann með stjórnvöldum þó hann hafi ákveðið sjálfstæði en ekki gegn þeim. Og ég teldi æskilegast að fá þannig skipan í Seðlabankanum að maður sé valinn til að stýra stofnuninni sem njóti slíks stuðnings og hafi tiltrú stjórnmálaafla og hafi manndóm og heiðarleika til að halda eðlilega á málflutningi við stjórnvöld á hverjum tíma en starfi síðan á grundvelli og í anda þeirrar stefnu sem ráðandi er af lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Það er sú afstaða sem við höfum. Og það er þess vegna sem ég hef sagt að ég telji að það gamla lénskerfi flokkanna að þeir séu hver og einn með sinn bankastjóra, og velji yfirleitt á síðari árum til þess fyrrv. þingmenn, sé óæskileg. Hún er vond fyrir efnahagsstjórnun í landinu, hún er vond fyrir Seðlabankann og hún er líka vond fyrir ríkisstjórnir.
    Virðulegi forseti. Það væri svo sem hægt að endursegja hér ýmsar setningar úr greinargerð frv. sem eins og ég sagði í upphafi áttu allar enn frekar við sl. sumar. Og auðvitað er ráðherrann í miklum vandræðum að koma heim og saman afstöðunni í sumar við þá afstöðu sem hann hefur nú. Ég fagna hins vegar þeirri afstöðu sem birtist í þessu frv. Ég tel það vera fyrsta skrefið til að viðurkenna það að þessi gamla stjórnskipun í Seðlabankanum eigi að tilheyra liðinni tíð. En þá má núv. hæstv. ríkisstjórn ekki halda þannig á framhaldinu að hún geri það að flokkspólitísku einkamáli hvernig löggjöfin um Seðlabankann og mönnunin í bankanum verður á næstu árum. Og prófsteinn hæstv. ráðherra verður þess vegna sá, hvort hann er reiðubúinn að skipa fulltrúa allra flokka til þess að koma að þessari endurskoðun á seðlabankalögunum og vinna að því í sátt og samlyndi þannig að það skapist um það breið samstaða eða hvort þeir flokkslegu hagsmunir sem sátu í fyrirrúmi þegar Birgir Ísleifur Gunnarsson var ráðinn bankastjóri og þeir flokkslegu hagsmunir sem sátu í fyrirrúmi þegar Jón Sigurðsson var ráðinn bankastjóri eiga áfram að ráða för í þessu máli.