[16:40]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður sem heitið getur, enda eru fulltrúar Framsfl. búnir að taka upp þann tíma sem okkur hefur verið ætlaður í þessari umræðu samkvæmt samkomulagi.
    Það er aðeins út af orðum sem féllu hér hjá hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni sem mig langar til þess að segja tvær, þrjár setningar. Það er í fyrsta lagi að minna hann á að út af þeim umræðum sem áttu sér stað á sl. vori í fjárln. um hvernig á þessu máli yrði haldið, þá var það fyrst ósk stjórnarandstöðunnar að í þetta mál yrði sett sérstök nefnd. Í öðru lagi var það okkar ósk að fjárln. tæki málið sjálf til umfjöllunar og væri aðili að þessari skoðun allri saman, en niðurstaða meiri hluta fjárln. var sú að fela verkefnið Ríkisendurskoðun. Í okkar bókun föllumst við að sjálfsögðu á það að Ríkisendurskoðun taki þetta verkefni og vinni í samræmi við ákvæði laga og fagleg sjónarmið eins og þar segir en síðan er því lýst yfir að nefndarmenn muni taka málið upp að nýju.
    Nú er það svo að ég er hér eini fulltrúi stjórnarandstöðunnar í fjárln. sem hef í augnablikinu aðstöðu til þess að taka til máls. Að vísu er hæstv. forseti í þeim hópi líka ( Umhvrh.: Hvar eru hinir?) en yfir hina hef ég nú ekki sérstakt yfirlit, hæstv. umhvrh. Það er ekki í mínum verkahring að fylgjast sérstaklega með því. En það vill svo til að ég var ekki á þeim fundi í sumar þegar hv. fjárln. tók þessa skýrslu til skoðunar þannig að ég á ekki aðild að þeirri bókun sem þá var lögð fram þó að ég sé ekki að lýsa á þessu stigi neinni andstöðu við hana, en vil út af því sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði áðan í þessum ræðustóli að það hlyti að skoðast sem svo að afstaða stjórnarandstæðinga eða fulltrúar í stjórnarandstöðunni í nefndinni bindi þingflokkana eða skoðaðist sem samþykki þingflokkana við afgreiðsluna í fjárln. Þá spyr ég hv. þm. þeirrar spurningar: Er það svo að ef hann hefur einhverja skoðun í þeim nefndum sem hann situr í, þá sé hann þar með að binda þingflokk Alþfl. eða er það svo að ef þingflokkur Alþfl. gerir einhverja bókun eða tekur efnislega afstöðu til máls, þá sé það að binda hv. þm. að hans skoðunum? Er það svo í starfsreglum og vinnubrögðum þingflokks Alþfl.? Ég leyfi mér reyndar að efast um það að svo sé ekki og ég held að ég muni það rétt að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hafi stundum sýnt það í orðum og gerðum að hann hafi ekki alltaf verið sammála öllu því sem hafi komið frá þingflokki Alþfl. og kannski er þingflokkur Alþfl. ekki alveg tilbúinn til þess alltaf að taka undir það sem hann segir eða þær skoðanir sem hann setur hér fram. ( Umhvrh.: Oftast nær.) Oftast, segir hv. umhvrh.