[16:46]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur nú þróast á merkilegan hátt þykir mér og sýnir það kannski einna best hvað hér er um alvarlegt og viðkvæmt mál að ræða. Hæstv. menntmrh. nefndi það í sinni ræðu að siðavandir þingmenn og rannsóknarblaðamenn hefðu staðið fyrir fjaðrafoki út af þessu máli og ég viðurkenni það fúslega að ég lít á mig sem siðavandan þingmann ( Menntmrh.: Ég sagði þetta hreint ekki.)

ja, mér heyrðist þetta, ( Menntmrh.: Það var í öðru samhengi.) ráðherrann leiðréttir það þá ef ég fer rangt með. En það sem ég vildi hér segja er það að ég sé nú ekki betur en það sé mikil þörf á siðvæðingu í okkar samfélagi. Það ástand sem við okkur blasir, meðferð á opinberu fé og það hvernig hefur verið gengið um stöður ríkisins sýnir það og sannar að það veitir sko ekki af siðvæðingu hér.
    En ég verð að segja að mér þykir hafa verið farið mjúkum höndum um menntmrh. og hér hefði mátt taka miklu fastar á vegna þess að í skýrslu Ríkisendurskoðunar koma fram mjög alvarlegar ásakanir. Eins og kom fram í vor þegar tillögu stjórnarandstöðunnar um rannsóknarnefnd var hafnað, stendur maður nokkuð ráðalaus gagnvart því hvernig hægt er að taka á ráðherrum sem ganga fram með þessum hætti. Og þá er ég einkum að tala um sjálfa stöðuveitinguna og það hvernig staðið var að fyrirgreiðslu af ýmsu tagi við þann einstakling sem hefur dregist inn í umræðuna svo sem vænta mátti þó að alla vega ég hafi reynt að halda honum sem mest utan við þetta mál, því að mínum dómi er hinn alvarlegi þáttur þessarar skýrslu sá sem snýr að stjórnsýslunni og stjórnarháttum.
    En þrátt fyrir það vil ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér og það kom fram í þeim að það er ýmislegt að gerast sem betur fer. Það er verið að taka á málefnum Kvikmyndasjóðs en það breytir ekki því að það er margt eftir enn og það sló mig hvernig hæstv. ráðherra skýldi sér á bak við stjórnsýslulögin sem taka munu gildi um næstu áramót því að við höfum margra ára reynslu og tugi dæma um það hvernig hér hefur verið skipað í stöður og hvernig menn hafa verið skipaðir í stjórnir og það gagnrýnt harðlega þannig að það er ekki eins og það sé verið að taka upp hér einhvern nýjan sið. Við höfum dæmin frá því í sumar og haust um það hvernig menn ganga hér um sali ríkisvaldsins. Það er auðvitað ekki hægt að halda svona áfram og þó að menn samþykki stjórnsýslulög þá er eftir að sjá hvernig þeim verður framfylgt.
    Hæstv. menntmrh. kom inn á það að það væri eitthvað sérstaklega verið að sveigja hér að listamönnum eða listageiranum og hvernig þar væri skipað í stjórnir og ráð. Ég er honum alveg sammála um það. Ég held að það sé full ástæða til þess að skoða ýmsa aðra geira samfélagsins. Það eru víða hagsmunaárekstrar en mergurinn málsins er sá að það er ekkert óeðlilegt við það að skipa fólk í nefndir, sjóðstjórnir og annars staðar þar sem sérþekking þess kemur til góða. Málið er það að ef menn eru að fjalla um sín eigin mál, þá eiga menn auðvitað að víkja. Þá eiga menn að víkja úr viðkomandi stjórn. Þar sem Kvikmyndasjóður á í hlut, þá er staðreyndin sú að maður sem setið hefur árum saman í stjórn Kvikmyndasjóðs hefur auðvitað haft áhrif á stefnu og starfshætti sjóðsins og það þarf enginn að segja mér það að auðvitað hefur stjórnin áhrif á það hvaða kvikmyndir eru styrktar þó að stjórnarmeðlimir sjálfir sitji ekki í úthlutunarnefnd. Það er mjög óeðlilegt að maður sitji í stjórn sjóðs og fái síðan hæstu styrki úr sjóðnum. Þetta geta ekki talist eðlilegir stjórnarhættir.
    Það væri mjög margt hægt að nefna af því sem fram kom í máli ráðherrans og annarra sem hér hafa talað. En ég get ekki látið hjá líða að minnast á það sem hæstv. menntmrh. sagði þegar hann nefndi að hann væri ósammála Ríkisendurskoðun og var þá að víkja að kaupunum á kvikmyndum Hrafns Gunnlaugssonar, án heimildar. Ég vil bara minna á það að í 41. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins stendur:
    ,,Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``
    Þetta stendur í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins en menn vita að þetta hefur verið þverbrotið árum saman, þverbrotið og það eru ekki góðir stjórnarhættir að ráðherrar hér líklega um áratuga skeið hafa brotið íslensku stjórnarskrána. Við erum að reyna það í breytingum á þingsköpum og breyttum starfsháttum hér að taka á þessum málum svo að Alþingi fari í raun að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Og ég skora á þingmenn meiri hlutans að sinna þeirri skyldu sinni að veita ríkisstjórninni aðhald, en að standa ekki hér og verja stjórnarhætti af þessu tagi. Þetta getur ekki gengið svona. Við sjáum hvernig fjármunum íslenska ríkisins er háttað nú um stundir, hvernig sífellt hallar á ógæfuhlið og það er auðvitað vegna þess hvernig stjórnarhættir ríkja hérna, hvernig menn ganga um opinbera sjóði. Þetta hangir allt saman.
    Að lokum, virðulegi forseti, þá vil ég aðeins nefna það sem fram kom í máli þriggja þingmanna stjórnarliðsins sem hérna eru í vörninni með hæstv. menntmrh. Ég vil fyrst koma inn á það sem formaður menntmn., hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, nefndi varðandi fundi menntmn. Ég get ekki sagt annað en að mér kemur það ákaflega spánskt fyrir sjónir að þegar hægt er að kalla saman fundi í öðrum nefndum, t.d. héldum við tvo fundi í sumar í efh.- og viðskn., þá er það ákaflega sérkennilegt að það skuli ekki vera hægt vegna fjarvista að kalla saman fund í menntmn. Það er varaformaður í menntmn. og maður getur sent aðra fyrir sig á nefndarfundi ef brýna nauðsyn ber til. En ágreiningurinn snýst auðvitað um það, hvort menn vilja ræða þetta mál eða ekki og ég er algerlega ósammála því að það hafi ekki verið þörf á að ræða þetta mál. Það er nú einu sinni svo að okkur finnst það mörgum sem hér erum að það komi alvarlegir hlutir fram í þessari skýrslu sem okkur beri að taka á.
    Að lokum, virðulegi forseti, þá vil ég vegna ummæla hv. þm. Tómasar Inga Olrich nefna að það var ekki stjórnarandstaðan sem vildi framkvæma úttekt á þessu máli á þann hátt sem gert var. Við vildum fá rannsóknarnefnd sem færi í gegnum málið á miklu víðtækari hátt en gert var. Það var meiri hluti fjárln. sem samþykkti að fara þessa leið og þar með datt út sá hluti sem snýr að hæstv. menntmrh. og stjórnkerfinu í heild.