Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:33:32 (1170)

[16:33]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Birni Bjarnasyni fyrir það sem hann lagði til umræðunnar og taka undir með honum. Ég held að það sé sérstök ástæða til að líta á markaðinn við Eystrasaltið og þá ekki síst í Eystrasaltslöndunum þremur sérstaklega og reyndar þeim löndum um austan- eða norðanverða Evrópu þar sem hefðbundin er neysla á þessari vöru. Ég held að þá stöndum við einmitt frammi fyrir þeim aðstæðum að við Íslendingar getum þurft að leggja eitthvað af mörkum til að byggja þá markaði upp og greiða fyrir því að slík viðskipti geti komist á. Mér fundust hugmyndir hv. þm. um hugsanlega sölustarfsemi eða uppbyggingu af því tagi í Eystrasaltslöndunum sjálfum mjög athyglisverðar. Ég held að það væri vissulega í rökréttu framhaldi af þeim áhuga sem við höfum sýnt sjálfstæðisbaráttu þessara ríkja að við styddum myndarlega við bakið á þeim í því að koma á viðskiptum af þessu tagi og reyndum jafnvel að auðvelda það fyrir okkar leyti. Þar gætu komið til hlutir eins og að auðvelda þeim einhver vöruskipti annað hvort í tvíhliða eða hugsanlega í þríhliða viðskiptum og eftir atvikum einhver lánafyrirgreiðsla eða annað af því tagi, á meðan verið væri að koma þeim viðskiptum á og fleyta þeim yfir erfiðasta hjallann sem þeir eru einmitt að klífa á þessum árum.
    Ég minni þá aftur á það sem ég sagði reyndar um þá sögulegu staðreynd hvernig viðskiptin komust á við Austur-Evrópu á sínum tíma, ekki síst stórviðskiptin í lok stríðsins. Mér fundust þessar ábendingar hv. þm. og undirtektir hans við málið mjög áhugaverðar og jákvæðar og ég þakka fyrir þær.