Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 17:44:42 (1183)

[17:44]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst svolítið einkennilegt hjá hv. 3. þm. Austurl. að tala um það að menn þurfi ekki að furða sig á því að það sé til umræðu að tengja saman Norðurland og Austurland og hann man ekki eftir sérstöðu minni í sambandi við það að gagnrýna framlag ríkisstjórnarinnar sem var samþykkt í fyrra. Ég held að minni hv. þm. nái ekki mjög langt því það var gagnrýnt mjög mikið í fyrra, þessi einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar um það hvert þessi milljarður sem hún ákvað ætti að fara. Ég var ein af þeim sem gagnrýndu það.
    Síðan fullyrðir hann að ákvörðun hafi verið tekin í þingmannahópnum um það að tengja þessa landshluta saman yfir fjöllin. Ég verð að segja að ég hef ekki heyrt það fyrr og mér heyrðist í raun og veru líka annað á hv. 2. þm. Austurl., mér skildist að það væri búið að taka þarna ákvörðun um einhvern vegarspotta eða einhvern hluta af þessum vegi, en heildarákvörðun um þetta lægi ekki fyrir. Ég lýsti því jafnframt áðan að mér þætti a.m.k. full ástæða til að skoða það hvort það væri rétt hjá hæstv. samgrh. að ákveða það einhliða að leggja veg yfir þessi fjöll þar sem þetta er í 600 m hæð á sama tíma og stefnt er að því að leggja slíka vegi niður annars staðar og taka heldur jarðgöng í notkun.