Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 18:11:36 (1193)

[18:11]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Sú ákvörðun um flýtingu jarðganga á Vestfjörðum sem hv. þm. var hér að tala um, þó það skildist nú illa, var vissulega og réttilega, eins og þingmaðurinn benti á, þannig hugsuð að flýtingarkostnaðurinn yrði að hluta til fjármagnaður með lántökum sem endurgreiddust svo af tekjustofnum stórvegasjóðs á þeim tíma sem ella hefði farið í framkvæmdina. Hér var eingöngu um flýtingu að ræða og tilflutning á fjárveitingum sem fyrir lágu samkvæmt langtímaáætlun í þetta tiltekna verkefni og rökin m.a. þau að með hverju ári sem unnt var að flýta göngunum spöruðust tugir milljóna í snjómokstur og rekstrarkostnað fjallveganna fyrir vestan auk þess sem íbúar svæðisins fengju þau fyrr í gagnið. Ég tel því að þessum lántökum sé ekki hægt að jafna saman.
    Ég endurtek síðan það sem ég sagði: Ég er ekki að segja að lántökur geti ekki átt rétt á sér þegar verið er að flýta verkefnum. En menn eiga þá líka að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og viðurkenna hvað þeir eru að gera. Þessi ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar, sérstaklega ýmsir þingmenn í landsbyggðarkjördæmum, hafa riðið um héruð og montað sig stórkostlega af auknum framkvæmdum í vegagerð en láðst að segja frá því að þær séu grundvallaðar á lántökum. Við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru. Það stóð aldrei til, okkur datt aldrei annað í hug, heldur en láta það koma skýrt fram að flýting Vestfjarðaganganna yrði svona framkvæmd. Það var aldrei neitt annað á dagskrá og enginn skollaleikur í kringum það. Það sem ég hef fyrst og fremst gagnrýnt í málflutningi þessarar ríkisstjórnar í sambandi við þessa stórfelldu lántökur, sem eru auðvitað af allt annari stærðargráðu, er þessi feimni og þessi skollaleikur, þegar menn eru að reyna að slá sér upp á þessum stórauknu vegaframkvæmdum og reyna svo að þegja um það að þær eru að stærstum hluta til fjármagnaðar með lántökum sem ósköp einfaldlega þýðir, eins og ég sagði hér áðan, að Vegasjóður verður í yfir þriggja milljarða skuld við ríkissjóð þegar kjörtímabilinu líkur og hæstv. fjmrh. hefur margítrekað að það komi ekki annað til greina en að Vegasjóður endurgreiði þá fjármuni og byrji á því strax í lok kjörtímabilsins.