Tilkynning um dagskrá

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 12:24:40 (1238)

[12:24]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Vegna athugasemda þeirra tveggja hv. þm. sem hér hafa talað er rétt að vekja athygli á því að þau þrjú frumvörp sem hér eru á dagskrá lúta að meðferð áfrýjunarmála. Þau frumvörp sem hv. 9. þm. Reykv. flutti, og eitt þeirra lýtur að breytingum á lögum um Hæstarétt, lúta að allt öðrum þáttum í starfi þessa dómstóls, þ.e. með hvaða hætti dómsmrh. á að skipa dómara við réttinn. Þetta mál var á dagskrá Alþingis fyrir nokkru síðan og ég hafði gert ráð fyrir því að það yrði þá tekið til umræðu en um það bil sem mér sýndist að röðin væri að koma að því á dagskránni, þá hvarf flm. úr þingsalnum eða úr þinghúsinu. Ég ítreka þess vegna að hér er um mjög óskyld atriði að tefla. Annars vegar frv. um það hvernig ráðherra skipar dómara og hins vegar hvernig meðferð áfrýjunarmála skuli háttað og þau frumvörp eru flutt í þeim tilgangi að greiða fyrir meðferð þeirra mála. Ég sé því ekki rökin fyrir því að ræða þessi þrjú stjórnarfrumvörp um áfrýjunarmál og frumvörp um skipun dómara í einni samfellu.