Hæstiréttur Íslands

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 12:38:14 (1244)


[12:38]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé, í tilefni þess að þetta mál er komið hér upp, að taka málin nokkuð breitt fyrir að því er varðar Hæstarétt Íslands, skipun hans og vinnubrögð, sem hafa orðið mönnum tilefni til þó nokkurra umræðna að undanförnu, bæði hér og annars staðar. Hér er lagt til að dómurum í Hæstarétti verði fjölgað um einn, þeir verði níu. Í umsögn um frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. kemur fram hvað þetta þýðir með mjög skýrum hætti frá fjárhagslegu sjónarmiði séð. ,,Laun hæstaréttardómara eru nú`` --- segir hér, með leyfi forseta --- ,,um 5,4 millj. kr. á ári að meðtöldum launatengdum gjöldum.`` --- Þ.e. um 450 þús. á mánuði, sýnist mér. --- ,,Hæstaréttardómarar halda óskertum grunnlaunum til æviloka þegar þeir láta af störfum fyrir aldurs sakir eftir að hafa náð fullra 65 ára aldri. Til viðbótar má ætla að fjölgun dómara fylgi rekstrargjöld sem áætluð eru um 1 millj. kr. Þá er ekki talin með sú aukning rekstrargjalda sem óhjákvæmilega mun hljótast af flutningi Hæstaréttar í nýtt húsnæði``.
    Hér er með öðrum orðum í fyrsta lagi verið að stofna til verulegs kostnaðarauka, sérstaklega vegna þess að menn hafa kosið að túlka ákvæði stjórnarskrárinnar um laun hæstaréttardómara og það þegar þeir láta af störfum með þeim hætti að þeir haldi fullum launum til æviloka, löngu eftir að þeir hafa látið af störfum.
    Ég verð að segja það sem mína skoðun að ég tel út af fyrir sig að þessi túlkun orki tvímælis, þó mér sé það í sjálfu sér ljóst að það er erfitt að breyta því sem túlkað hefur verið og hefur verið í gangi um nokkuð langt skeið. En með hliðsjón af þeirri deilu sem nú er uppi, hæstv. forseti, þá hefði ég talið að það hefði verið skynsamlegra fyrir dómsmrn. að flytja þetta frv. öðruvísi. Rökin fyrir málinu eru jú þau

að það þurfi að grynnka á þeim aragrúa mála sem liggur fyrir réttinum og það eru eðlileg rök og fullgild sjónarmið. Þess vegna hefði ég talið að með hliðsjón af öllum aðstæðum hefði verið skynsamlegast að flytja hér tillögu um ákvæði til bráðabirgða í hæstaréttarlögin þannig að það væri heimilt um hríð, t.d. í eitt ár eða tvö, að bæta við einum dómara. Jafnframt mundu menn þá vera með þær brtt. sem að öðru leyti eru í frv. varðandi heimildir Hæstaréttar til að kveðja til varadómara og möguleika Hæstaréttar til að úrskurða í málum með þremur dómurum og varðandi þann möguleika að í allra minnstu málum geti einn dómari gengið frá máli, eins og hér hefur verið gerð tillaga um.
    Þess vegna finnst mér að það sé rangt, miðað við núverandi aðstæður, að fara að fjölga hæstaréttardómurum vegna þess að þar með er í raun og veru verið að taka allt málið upp, hæstaréttarlögin eins og þau leggja sig.
    Í öðru lagi vil ég minna á það í þessu sambandi, hæstv. forseti, að sú tillaga sem ég flyt í þinginu í frumvarpsformi, ásamt öðrum alþýðubandalagsmönnum, er auðvitað á dagskrá má segja um leið og þetta mál kemur upp, því hún fjallar um skipun hæstaréttardómara og ráðningu. Ég hefði talið að það væri óhjákvæmilegt að ræða þessi mál í samhengi, fyrst og fremst vegna þess að ef þetta yrði ofan á þá verður hæstv. ráðherra að skipa nýjan hæstaréttardómara og þá er auðvitað nauðsynlegt að áður fari fram rækileg umræða um það hvort Alþingi vill breyta lagaákvæðum um skipan og ráðningu hæstaréttardómara frá því sem nú er.
    Ég er sannfærður um það, hæstv. forseti, að það er yfirgnæfandi stuðningur við það á Alþingi núna í öllum flokkum að breyta skipan og ráðningu hæstaréttardómara. Í því felst ekkert vantraust nema síður sé á núv. hæstv. dómsmrh., heldur er það skoðun fjölmargra aðila að það sé óeðlilegt kerfi sem við höfum í þessu efni og þess vegna sé rétt að Alþingi komi þarna til eða annar aðili með fullgildum hætti. Við höfum dæmi um það að rætt hefur verið um skipan hæstaréttardómara með þeim hætti að það hefði orðið Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn og stjórnkerfi öllu til ævarandi skammar. Það er því alveg augljóst mál að með því að laga ekki þessar reglur þá eru menn að tefla á tvær hættur. Þess vegna held ég að það sé óhjákvæmilegt að það sé mjög skýrt núna, ef þetta frv. á að samþykkja svona eða eitthvað breytt, að þá verður um leið að fara fram rækileg úttekt á því hvernig á þessum málum verður tekið varðandi skipan hæstaréttardómara. Það er nauðsynlegt að það sé alveg skýrt hér að allshn. taki á frv. alþýðubandalagsmanna líka. Það er ekki hægt að líða það að allshn. fjalli bara um stjfrv. á þessu sviði en taki ekki um leið fyrir þau þingmannafrumvörp sem liggja fyrir varðandi breytingar á lögum um meðferð opinberra mála og breytingar á lögum um Hæstarétt.
    Í þriðja lagi hlýtur það auðvitað að koma upp í þessu sambandi, sem ég ætla út af fyrir sig ekki að gera að umtalsefni hér, hvernig staðið hefur verið að þessum launamálum hæstaréttardómara að undanförnu. Það er alveg ótrúlegt að vera með hæstarétt sem er þannig skipaður að menn skuli telja sig geta móralskt, siðferðilega, róið í smuguna og gert út á óvissu í launamálum æðstu starfsmanna ríkisins. Ég hefði talið að það sæti síst á hæstaréttardómurum að leggja í sjóferð í smuguna með þeim hætti sem þeir hafa gert. Ég veit að hæstv. sjútvrh. hefur farið nokkuð yfir réttarstöðu þjóðarinnar varðandi veiðar á fiski í Smugunni, hins vegar veit ég ekki hvort hann hefur sem dómsmrh. farið yfir það sérstaklega hver er réttarstaða hæstaréttardómara við veiðar í smugunni á kaupi, á yfirvinnukaupi. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að þau vinnubrögð hæstaréttardómaranna veki til umhugsunar um það hvernig þessi dómur er eiginlega skipaður. Er hægt að treysta vinnubrögðum stofnunar sem er skipuð með þessum hætti? Ég dreg það fullkomlega í efa. Ég tel satt að segja að dómararnir hafi fjölgað spurningarmerkjum við þessa æðstu dómstofnun þjóðarinnar, sem Hæstiréttur er, með þessari vegferð í smuguna eftir yfirvinnukaupi handa sjálfum sér.
    Ég ætla út af fyrir sig ekki að ræða það mál ítarlega hér en það hlýtur að koma inn í þessa umræðu, hæstv. forseti, líka vegna þess, eins og 8. þm. Reykn. sagði áðan, að fyrir liggur tillaga um að fella niður heimild úr fjáraukalögum til þess að greiða þessa sérstöku smuguuppbót hæstaréttardómaranna sem var mjög rædd fyrir nokkrum vikum og mánuðum.
    Ég held einnig, hæstv. forseti, að það sé æskilegt að það verði rætt hér líka, úr því að það er verið að fjölga hæstaréttardómurum, er þá eðlilegt að einn hæstaréttardómari eða kannski einhvern tímann fleiri vinni hjá öðrum dómstólum úti í bæ eða úti í löndum? Er eðlilegt að fjölga hæstaréttardómurum af því að einn hæstaréttardómari vill vera í vinnu í útlöndum af og til? Er það ekki sérkennilegt, hvað sem öllu öðru líður, að vera með hæstaréttardómara sem tekur sig til og bregður sér til útlanda og dæmir á móti þeim hæstarétti sem hann situr í? En fyrir því eru fræðilegir möguleikar. Er það ekki nokkuð sérkennilegt? Og er það ekki nokkuð sérkennilegt að bregðast við slíkri mótsögn, ekki með því að segja við þennan hæstaréttardómara: Þetta er bannað. Þetta er óheimilt, að hæstaréttardómari sé í raun og veru í vinnu hjá öðrum dómstóli sem getur tekið hæstaréttardómarann í karphúsið. Auðvitað ætti dómsmrh. heldur við þessar aðstæður að flytja frv. um að banna hæstaréttardómurum að taka þátt í öðrum dómstólum nema þeim sem hugsanlega lög kveða á um, eins og lögin um landsdóm.
    Það er ekki mjög langt síðan að hv. Alþingi felldi niður lagaákvæði um skylduþátttöku hæstaréttardómara í Synodalrétti. Lagaákvæði um hann voru felld niður fyrir nokkrum árum, ég hygg að það hafi verið 1988 eða 1989 ef ég man rétt, þannig að núna er í landslögum bara eitt atriði þar sem kveðið er á um það að hæstaréttardómari verði að vera í dómstóli, þ.e. í landsdómi. Ég tel þess vegna, hæstv. forseti,

varðandi fjölgunina, varðandi skipan hæstaréttardómara, varðandi setu dómara í öðrum dómstólum í útlöndum og varðandi launamál að öll þessi mál hljóti að leggjast undir í þessari umræðu og á því vildi ég vekja athygli.