Niðurstöður fundar leiðtoga Evrópuráðsins í Vínarborg

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 13:42:36 (1248)

[13:42]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. forsrh. fyrir þessa skýrslu sem hann hefur hér lagt fram. Í henni er greint frá Vínarfundinum 8.--9. okt. sl., þar sem teknar voru að mínum dómi ýmsar merkar ákvarðanir sem vonandi munu skila sér í starfi Evrópuráðsins og íbúa Evrópu í baráttu okkar fyrir friði og jafnrétti þegnanna. Það vill svo til að í dag eru nákvæmlega 75 ár liðin frá því að fyrri heimsstyrjöldinni lauk. Það er friðardagurinn og því er mjög við hæfi að við skulum vera að ræða málefni Evrópu því við þekkjum það einmitt frá sögunni, bæði fyrri og síðari heimsstyrjöldinni, að átök í Evrópu hafa að sjálfsögðu mikil áhrif hér á landi.
    Ástæðan fyrir því að við báðum um þessa skýrslu er ekki síst sú að á þessum Vínarfundi voru til umræðu mjög mikilvæg mál sem liggja eins og mara á stjórnmálamönnum Evrópu og þá ekki síst þeir hugmyndastraumar sem hafa verið vaxandi á undanförnum árum og lýsa sér því miður á heldur neikvæðan hátt í hatri og ofsóknum gegn fólki sem býr í ýmsum Evrópuríkjum, þjóðernisminnihlutum og öðrum þjóðum og eru þar ríki fyrrverandi Júgóslavíu gleggsta dæmið.
    Þegar ákveðið var að boða til Vínarfundarins að frumkvæði Mitterrands Frakklandsforseta þá var hugmyndin sú að ræða fyrst og fremst um framtíð Evrópuráðsins í ljósi breyttra aðstæðna í Evrópu þar sem þeim ríkjum, sem sótt hafa um aðild að Evrópuráðinu og fengið, hefur fjölgað mjög og við dyrnar bíða nokkur ríki eftir því að fá inngöngu. En ástandið í sumum þeirra ríkja er þannig að það mun eflaust dragast. En síðan gerðist það að bylgjan fór af stað í ýmsum löndum með ofbeldi og árásum og ýmsu því sem

vakið hefur mönnum ótta. Því var það að Gro Harlem Brundtland lagði til að á þessum fundi yrði sérstaklega hugað að kynþáttahatri og andúð gegn útlendingum, gyðingaofsóknum og fleiru því sem menn héldu nú að væri kannski minnkandi í Evrópu eða jafnvel úr sögunni. Því er það að í niðurstöðum fundarins er lögð mikil áhersla á baráttu gegn slíkum vágestum.
    Það er margt merkilegt að skoða í framhaldi af Vínarfundinum og því sem fram kemur í þessari skýrslu. Ekki síst það hvernig ríki Evrópuráðsins geta fylgt eftir sínum samþykktum og hvernig þau geta séð til þess að samþykktum mannréttindasáttmálans sé framfylgt í aðildarríkjunum. Og Evrópuráðið hefur margvíslegu hlutverki að gegna í þessu sambandi. Í fyrsta lagi að fylgjast með ástandinu í þeim ríkjum sem þegar hafa gerst aðilar og hvernig þeim gengur að feta braut lýðræðisins. Þar hefur margt athyglisvert verið að gerast sem sýnir að menn verða verulega að velta því fyrir sér hvernig aðhaldinu skuli háttað. Ég get nefnt dæmi um ríki eins og Búlgaríu, þar sem m.a. þingmenn hafa átt í erfiðleikum gagnvart stjórnvöldum og það hafa heyrst dæmi frá Slóvakíu þar sem borgarar hafa talið að réttur væri á sér brotinn enda eru þarna við stjórn þeir sem tilheyra fyrrverandi stjórnvöldum og breytingarnar eru oft ekki eins djúpstæðar og menn vonuðu. En það er vandamál að fylgjast með þessu og finna ráð til þess að tryggja mannréttindi og m.a. er málefni eins þingmanna búlgörsku sendinefndarinnar í Evrópuráðinu til umfjöllunar. Ég ætla ekki að fara lengra út í það.
    Síðan er annað sem snýr að Evrópuráðinu og það er ástandið í þeim ríkjum sem eru að sækjast eftir aðild. Eins og fram kemur í skýrslunni er meðal annars í þeim hópi Króatía, sem fengið hefur gestaaðild að Evrópuráðinu, en bæði innan landamæra Króatíu er eitt og annað að gerast og auk þess eru Króatar þátttakendur í þeim miklu átökum sem m.a. eiga sér stað í Bosníu og reyndar ekki ljóst hvernig stjórnvöld Króatíu koma þar inn í dæmið. En ég minnist þess að á þingi Evrópuráðsins í sumar kom það m.a. fram að þingmennirnir frá Króatíu voru ekki allsendis ánægðir með það hvernig t.d. búið er að fjölmiðlum þar í landi og vildu meina að leifar fyrra stjórnarfars létu á sér kræla á ýmsan hátt. Það er kannski ekki síst í þeim efnum, það að feta brautina frá þessum alræðisstjórnarháttum sem ríktu í Austur-Evrópu og til lýðræðislegs skipulags, sem Evrópuríkin, þ.e. ríki Vestur-Evrópu, aðildarríki Evrópuráðsins, geta komið til aðstoðar og komið með ábendingar um það hvernig beri að þróa málin. Við höfum mörg dæmi um það að heimsóknir þingnefnda Evrópuráðsins hafa haft ótrúleg áhrif í þessum ríkjum þar sem menn hafa verið að leita fyrir sér og ekki vitað hvernig ætti að taka á málum, fá tækifæri til að spyrja þingmenn frá ýmsum löndum: Hvernig gerið þið? Þeir hafa lýst því að þetta hafi orðið þeim mjög til hjálpar. En það er líka athyglisvert að við höfum þennan ágæta mannréttindasáttmála Evrópuráðsins sem til stendur að lögtaka hér á landi en þegar betur er að gáð og við skoðum t.d. skýrslur Amnesty International þá kemur í ljós að fjöldamörg ríki Evrópuráðsins eru þar á skrá vegna mannréttindabrota. Sem betur fer eru þau í flestum ríkjanna heldur af minna taginu, það eru einkum fangelsismál sem valda erfiðleikum. En það er þó sérstaklega eitt aðildarríki Evrópuráðsins sem menn eru í vandræðum með og það er Tyrkland þar sem stjórnvöld hafa ár eftir ár verið ásökuð um mannréttindabrot af ýmsu tagi og Tyrkir lofa bót og betrun og halda því fram að allt standi til bóta. En samt sem áður virðast stjórnvöld hafa þar litla stjórn á her og lögreglu og er þó ekki minnst á baráttu Kúrda í Tyrklandi sem nefndir Evrópuráðsins hafa verið að fylgjast sérstaklega með. Þannig þarf ekki bara að fylgjast með þeim sem eru á leiðinni inn í Evrópuráðið. Það þarf líka að hafa augun opin fyrir því sem gerist í aðildarríkjunum sjálfum því mönnum getur orðið hált á braut mannréttindanna. En þar kemur dómstóllinn til sögunnar og það að menn geta skotið málum sínum þangað og við höfum dæmi um það að ríki eru viðkvæm fyrir dómum Mannréttindadómstólsins og taka mark á þeim, sem betur fer.
    Það kemur fram hér í skýrslunni, og er auðvitað hið merkasta við Evrópuráðið, að það er eini vettvangurinn í Evrópu, það er sérstaða Evrópuráðsins að það getur sameinað öll ríki í Evrópu að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru um mannréttindi og reglur réttarríkisins ásamt lýðræðislegu skipulagi. Þarna er að mótast vettvangur sem væntanlega mun innan nokkurra ára ná til allrar Evrópu. Þarna er fyrst og fremst verið að ræða það sem snýr að mannréttindum og reyndar ýmsum öðrum málum, tækni, umhverfismálum og menningarmálum. Það er mjög margt sem þarna ber á góma og þarna er hinn kjörni vettvangur til þess að efla kynningu og samstarf og til þess að treysta frið í álfunni.
    Yfirlýsingar Vínarfundarins spegla það sem ég áður nefndi, áhyggjur ráðamanna af þróuninni og mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort komið hafi fram andstaða á Vínarfundinum við þær hugmyndir eða þá meginniðurstöðu að það beri að tryggja réttinn til þjóðernisminnihluta. Kom fram bein andstaða við þetta? Hvernig var sú umræða? Við vitum að þetta er ýmsum þjóðum erfitt mál og er þeim erfitt að sætta sig við að minni hlutum séu tryggð ýmis réttindi. Við vitum það t.d. að Eystrasaltsríkin hafa átt í miklum vanda með Rússana í sínum ríkjum og þeir hafa verið gagnrýndir fyrir það hvernig tekið hefur verið á málum. Reyndar hafa bæði Eistland og Litáen nú fengið aðild að Evrópuráðinu en Lettland bíður enn einmitt vegna þessara vandamála sem eru í kringum Rússana.
    Tíminn er nú mjög að styttast þannig að ég ætla að lokum að nefna það að í yfirlýsingum fundarins er sett upp aðgerðaáætlun þar sem eru að vísu mörg atriði, en eitt af þeim er það að sett verði í gang herferð meðal æskulýðsins í Evrópu til að efla áhuga almennings á umburðarlyndu samfélagi sem byggist á því að allir þjóðfélagsþegnar njóti sömu virðingar og gegn kynþáttahatri, útlendingahatri, gyðingahatri og vægðarleysi eins og segir hér í aðgerðaáætluninni, með leyfi forseta. Og mig langar til þess að

spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi velt því fyrir sér eða tekið ákvarðanir um það hvernig þessu verði fylgt eftir hér á landi því að ég tel að það sé ekki síst þörf á því að opna augu Íslendinga, kanna afstöðu okkar til útlendinga og minnihlutahópa og kynþátta. Ég held að við göngum hér um með nokkrar ranghugmyndir um það hvað við séum frjálslynd og opin, en því miður hefur ýmislegt komið hér upp sem bendir til hins gagnstæða. Það er mikil þörf á því að kynna þessa umræðu sem á sér stað um þessi mál úti í Evrópu. Það þarf átak í skólum landsins og meðal almennings reyndar og ég spyr: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fylgja þessari samþykkt eftir? Ég vil sérstaklega nefna það að leiðtogafundurinn bendir á aukin samskipti í menningarmálum, en það er ekki síst þannig sem hægt er auka kynningu og brúa bil á milli þjóða.
    Að lokum allra síðast, virðulegi forseti, ætla ég að nefna að það er fleira sem við þurfum að huga að í kjölfar þessa fundar og þess sem gerst hefur í samskiptum okkar, m.a. við Mannréttindadómstól Evrópuráðsins. Við hljótum að verða að spyrja okkur að því hvernig og hvort við þurfum að aðlaga íslensk lög að mannréttindasáttmálanum. Við höfum fengið á okkur dóma á undanförnum árum og þeirri spurningu er ósvarað hvort ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir slíkri endurskoðun á íslenskum lögum. Ég vil líka vekja athygli á þeirri samþykkt Vínarfundarins að hvetja fjölmiðla til þess að fjalla um málefni minnihlutahópa á ábyrgan hátt.
    Ég vil að lokum ítreka það sem ég sagði hér í upphafi. Ég tel að þessar samþykktir sem gerðar voru á leiðtogafundinum í Vín séu mjög mikilvægar ef þeim verður fylgt eftir. Við höfum reynsluna af því hvert hugmyndir af þessu tagi sem hér hafa verið til umræðu, kynþáttahatur og ofsóknir gegn minnihlutaþjóðum og þjóðum, hafa leitt okkur í Evrópu og okkur ber skylda til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi endurtaki sig á evrópskri grund.