Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 14:32:54 (1260)

[14:32]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég held að þetta mál verði nú eins og stundum áður því skrautlegra sem yfirlýsingarnar eru fleiri sem hæstv. ráðherrar gefa. Það er rétt að menn átti sig á því að sú brtt. sem hér er flutt á þskj. 230 liggur fyrir til efnislegrar afgreiðslu á þinginu. Það á að fara að greiða um hana atkvæði og þeir sem styðja tillöguna segja væntanlega já, en þeir sem eru á móti henni segja nei. Og ef menn segja nei, þá þýðir það væntanlega að menn séu á móti tillögunni. Eða ætla hv. stjórnarliðar að senda út tilkynningu, þar á meðal til stjórnar Hagræðingarsjóðs, jafnskjótt og atkvæðagreiðslunni lýkur og segja: Þetta er ekkert að marka. Við höfum að vísu fellt tillöguna en við biðjum ykkur að taka ekki mark á því því að við erum með henni í reynd og við styðjum hana. Og við ætlum að gera meira. Við ætlum að flytja hana aftur og afgreiða hana hér eftir nokkra daga. Það var bara ekki hægt að samþykkja hana af því að það var stjórnarandstaðan sem flutti hana. Efnislega er þetta svona. Þetta er nú reisnin sem er yfir frammistöðu hv. stjórnarliða hér.
    Ég spyr hæstv. forsrh., og reyndar þarf ekki að spyrja ég fullyrði að það er einmitt ekki til fordæmi, hæstv. forsrh., það er ekki til fordæmi fyrir því að stjórn Hagræðingarsjóðs fresti því að selja veiðiheimildir. Fordæmið er gagnstætt. Fordæmið sem liggur fyrir, það eina sinnar tegundar er frá því í fyrrahaust og þá hafnaði stjórn Hagræðingarsjóðs því að verða við tilmælum sjútvn. um að fresta því að hefja sölu á veiðiheimildunum 1. sept. 1992. Ég spyr þá hæstv. forsrh. ef hann þykist vita betur: Hvaða fordæmi er úr störfum stjórnar Hagræðingarsjóðs um að fresta því að framkvæma lögin eins og laganna bókstafur hljóðar? En hann er afdráttarlaus eins og hér hefur margoft verið vitnað til. 6. gr. laganna hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Hagræðingarsjóður skal við upphaf hvers fiskveiðiárs gefa útgerðum þeirra skipa`` o.s.frv. --- við upphaf hvers fiskveiðiárs.
    Og orðaleikir af því tagi sem hér hafa fallið. Hæstv. sjútvrh. talaði um að það hefði verið rétt að beina þeim tilmælum til stjórnarinnar að doka við, að doka við voru hans óbreyttu orð. Hæstv. forsrh. talaði hér áðan um svigrúm og rétt, að stjórn Hagræðingarsjóðs hefði svona tiltekið svigrúm til að framkvæma ekki lögin, brjóta þau sem sagt innan vissra marka. það er náttúrlega mjög þægilegt við lagaframkvæmd almennt í þjóðfélaginu að hafa svona svigrúm til þess að haga lagaframkvæmdinni eftir því sem mönnum hentar.
    Nei, hér er náttúrlega augljóslega um það að ræða að ríkisstjórnin er með fullkomlega óeðlilegum hætti að setja þrýsting á þessa stjórn um að hún framkvæmi ekki lögin, þá sömu stjórn og í fyrra hafnaði tilmælum um þetta sama. Sjútvrh. lýsti því yfir áðan að hann væri sammála okkur talsmönnum minni hlutans um að það gæti ekki gengið öllu lengur að hafa málin í þessari stöðu sem þau eru. Hann sagði að vísu að hann teldi að það væri ekki enn svo komið að um lögbrot væri að ræða. Það var mat hins löglærða manns, hæstv. sjútvrh., að það væri ekki enn svo komið að um lögbrot vær að ræða. Hins vegar gaf hann engin svör við því nákvæmlega hvenær kæmi á þann tímapunkt að vanefndirnar eða tilhögunin væri slík að þar væri orðið um hreint lögbrot að ræða.
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt einnig að gera athugasemdir við þá söguskoðun hæstv. forsrh., að það hafi ekki verið tímabært að afgreiða lagaheimildir varðandi ráðstöfun veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs í maíbyrjun þegar þing var enn að störfum sl. vor. Það lá þá þegar fyrir að yrði af kjarasamningum á þeim nótum sem ræddar höfðu verið í samskiptum aðila vinnumarkaðarins, þá yrði hluti af því

ókeypis úthlutun veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs, það lá þegar fyrir. Það tilboð hafði þá löngu áður komið fram af hálfu ríkisstjórnar þannig að það að halda því fram það að hefði á nokkurn hátt truflað þá mynd að ríkisstjórnin fengi heimild --- ég vek athygli á því --- heimild til að efna þetta atriði ef til samninga kæmi, er auðvitað fjarstæða, það stenst ekki. Og til viðbótar því hefur verið minnt á að ríkisstjórnin hafði þegar árið áður lofað því að fébæta veiðiheimildirnar, ef ekki með ókeypis úthlutun þeirra sem ágreiningur varð um í ríkisstjórn, þá með því að útgerðarmönnum yrðu sendar ávísasnir. Síðan biðu útgerðarmenn út um allt land eftir ávísunum frá hæstv. forsrh. sem áttu reyndar að koma tiltekinn föstudag, samanber fræga yfirlýsingu forsrh. á stjórnarráðströppunum í vikunni sem þessi mál voru til umfjöllunar í sept. Sá föstudagur hefur ekki runnið upp.
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að menn taki á því eins og það liggur hér fyrir að verði brtt. felld, þá felst í því efnisafgreiðsla af hálfu Alþingis, eða ætla stjórnarliðar að koma og segja okkur að það sé bara ómark, það sé bara plat? Hvernig á stjórn Hagræðingarsjóðs að starfa næstu daga eftir að Alþingi fellir það að veiðiheimildunum verði úthlutað ókeypis á þessu fiskveiðiári? Stjórn Hagræðingarsjóðs getur ekki litið á það öðruvísi en sem efnisafgreiðslu af hálfu Alþingis. Ég leyfi mér að segja jafnvel þótt stjórnarliðið sendi frá sér fréttatilkynningu og bæði menn um að taka ekki mark á afstöðu sinni, lýsti því yfir að atkvæðagreiðslan væri ómark, þá yrðu menn samkvæmt réttarvenjum og venjulegri umgengni við landslög að líta svo á sem nú lægi fyrir efnisafgreiðsla á þingi um það að breytingum á lögunum væri hafnað. Er það ekki svo að þessir stjórnarmenn beri ábyrgð og þeim beri að fara að lögum eins og öðrum? Ég held það. Og spurningin er þá hvort þeir geta lengur skotið sér á bak við einhver munnleg tilmæli frá ráðherrum um að brjóta lögin. Ég spyr mig að því, telja þessir stjórnarmenn sig hafa stöðu til þess eftir þá umræðu sem hér er orðin og ef afgreiðsla brtt. fer á þann veg sem nú horfir til? Það er von að spurt sé. Ég skal ekki segja hvernig þeir mundu meta stöðu sína ef þeim berst í framhaldinu skrifleg ósk um það frá ríkisstjórn að halda áfram að brjóta lögin. En ég ímynda mér a.m.k. að þeir munu ekki treysta sér til þess að fresta því lengi í viðbót að hefja sölu á veiðiheimildunum en það á eingöngu að byggjast á munnlegum tilmælum frá sjútvrh. Reyndar var sjútvrh. svo varkár í orðum áðan að hann talaði um það að samskiptin hefðu verið í því formi að hann hefði lýst þeirri skoðun sinni við stjórn sjóðsins að henni væri óhætt að doka við. Það mun hafa verið í grófum dráttum orð hæstv. sjútvrh. Ég leyfi mér að efast um að það muni nægja stjórn Hagræðingarsjóðs á næstu vikum ef svo heldur sem horfir. Eftir stendur að hér hafa engin svör komið frá hæstv. forsrh. eða hæstv. ríkisstjórn um það hvenær sé að vænta niðurstöðu í stjórnarmyndunarviðræðum hinum nýju milli stjórnarflokkanna um sjávarútvegsmálin. Engin svör. Það eru getgátur hingað og þangað. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem er eins og kunnugt er einn af meiri trúnaðarmönnum og spekingum stjórnarliðsins í sjávarútvegsmálum og formaður tvíhöfða nefndar, hann lét þau spaklegu orð falla hér: þegar þar að kemur. Þegar þar að kemur, sagði hv. þm. í umræðunum fyrr í dag og eru menn ekki miklu nær. Þegar þar að kemur munu frv. koma inn á þing. Sjútvrh. talar í öðru orðinu um á næstu dögum, forsrh. segir að lausafregnir frá utanrrh. og fleirum og Alþfl. um það að jafnvel verði engin frumvörp flutt eigi ekki við rök að styðjast. Og er nema von þó að þingheimur sé dálítið ruglaður í því hvernig þess mál standa. Ég spyr a.m.k. Er einhver botn í því?
    Að lokum, hæstv. forseti, hvet ég svo hv. þm. stjórnarliðsins, óbreytta þingmenn stjórnarliðsins til að hugsa sig vel um áður en þeir greiða atkvæði. Ýmislegt er hér hægt að leggja á sig fyrir ríkisstjórn eins og kunnugt er og menn láta gjarnan handjárna sig í hinum meiri málum, en mér finnst það þvílík niðurlæging fyrir þingmenn stjórnarliðsins ef þeir af þessum misskildu metnaðarástæðum ríkisstjórnarinnar ætla að greiða atkvæði þvert gegn efnislegri afstöðu sinni til málsins bara til þess að þóknast þessum hérgómaskap, að það megi ekki samþykkja málið af því að það er flutt af stjórnarandstöðu, þá hafi þeir lagst einna lægst að láta handjárna sig í þessari atkvæðagreiðslu ef svo fer sem hér er fram undan.