Hæstiréttur Íslands

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 16:22:06 (1272)

[16:22]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel satt að segja að yfirlýsing hæstv. forsrh. áðan varðandi launamál hæstaréttardómara marki í raun og veru alveg kaflaskil í þessum málum. Það sem hæstv. ráðherra sagði var þetta: Kjaradómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að dómurinn og niðurstöður hans tækju ekki til yfirvinnu. Þess vegna, þar sem hæstaréttardómarar eru vanir að lesa niðurstöður dómstóla, var það skoðun hæstaréttardómara að þeir gætu sent reikning fyrir yfirvinnuna og forsrh. ætti tvo kosti, annar var sá að telja yfirvinnutímana, sem hann treysti sér ekki til af eðlilegum ástæðum, og hinn var sá að fallast á þetta. Af hverju vildi hann fallast á þetta? Það var ekki vegna þess að hann skildi ekki hvaða afleiðingar það hefði í för með sér fyrir launamál og efnahagslífið og allt það, heldur var það fyrst og fremst vegna greiningar framkvæmdarvalds og dómsvalds. Það voru hans aðalrök. Ég tek undir þau rök almennt en í þessu tilviki ekki vegna þess að það hefur verið þannig að framkvæmdarvaldið hefur í umboði Alþingis ákveðið laun og kjör dómara, m.a. hæstaréttardómara, og það er stórhættulegt að mínu mati að láta þau rök standa eftir að forsrh. telji sig verða að skrifa upp á hvað eina sem hæstaréttardómurum dettur í hug. Auðvitað miðað við lög

og reglur og allt það. Þannig að ég verð að segja alveg eins og er að það getur út af fyrir sig verið að hæstv. forsrh. hafi einhvern tímann sagt þetta áður sem hann sagði nákvæmlega núna en fyrir mig voru það stór tíðindi vegna þess að hann er að segja: Í raun og veru geta hæstaréttardómarar komið með hvaða reikning sem þeim sýnist til mín og ég mun láta borga hann. Ég segi, hæstv. forseti: Þetta gengur ekki, þetta stenst ekki þau vinnubrögð sem mótast hafa af hálfu Alþingis og framkvæmdarvaldsins á undanförnum áratugum.